Þótt líklega sé algjör óþarfi að rifja upp fyrir lesendum þá óvenjulegu atburði sem hafa í vetur sett bandaríska hafnaboltann á annan endann, þá er ekki óhugsandi að fréttir af svindlmáli Houston Astros hafi framhjá einhverjum Íslendingum. Vissulega ólíklegt, en ekki óhugsandi.
Allir vita að í hafnabolta á sér stað stöðug glíma milli þess sem kastar boltanum og hins sem ætlar að reyna að slá hann með kylfunni. Þessi glíma reynir á líkamlega og vitsmunalega færni beggja íþróttamanna, en einnig á andlega getu þeirra—sumir myndu jafnvel ganga svo langt að lýsa átökunum með vísan til yfirskilvitlegra fyrirbæra, trúarlega eða kjarneðlisfræðilegra, þar sem svörin virðast ljós í örstutta stund en hverfa jafnharðan aftur, og eru aldrei nógu lengi í því ástandi að hægt sé að ná utan um þau nema hefðbundnum skorðum tíma og rúms sé sleppt. Boltanum er kastað á allt að 160 km/klst hraða, og er auk þess snúið þannig að hann tekur á sig fjölþættar beygjur og sveigjur á leið sinni frá kasthólnum að heimahöfn—ríflega 20 metra leið. Sá sem stendur með kylfuna þarf að ná að slá í boltann og hlaupa á fyrstu höfn og hefur til þess nokkrar tilraunir, en jafnvel þeir allra bestu snúa tómhentir aftur á varamannabekkinn í ríflega tveimur af hverjum þremur tilraunum sínum.
Kastarar beita ekki bara hraða og snúningstækni til þess að afvegaleiða andstæðinginn, heldur beita þeir ólíkum tegundum af kasti. Stundum er kastað miklu hægar og eftir því hvernig kastararnir halda á boltanum er hægt að stýra því í hvaða átt boltinn sveigir á leiðinni. Þeir sem best kunna að kasta framhjá hafnaboltakylfum eru meðal þeirra íþróttamanna í heiminum sem þykja allra verðmætastir og nema launatekjur þeirra bestu allt að fjórum milljörðum króna árlega.
Í hafnabolta er mikilvægt að vera lúmskur og láta andstæðinginn ekki vita hvað maður hefur í huga. Rétt eins og markmaður í fótbolta myndi eiga verulega miklu meiri möguleika á að verja víti ef hann veit í hvort hornið verður skotið, þá getur það stóraukið líkur á því að leikmanni takist að hitta boltann með kylfunni ef hann veit hvers lags kasti er von á. Og til þess að halda slíku leyndu viðhafa hafnaboltaleikmann margvíslegar og kostulegar merkjasendingar sín á milli. Andstæðingar leggja sig alla fram við að reyna að ráða í þessar merkjasendingar, en oftast vita þeir sem sem standa með kylfuna ekki á hvers lags kasti þeir geta átt von.
Og kemur þá að svindlinu mikla. Í vetur kom nefnilega í ljós að hafnaboltaliðið Houston Astros viðhafði um árabil flókið ráðabrugg til þess að koma upplýsingum um fyrirætlanir andstæðinganna til sinna eigin manna. Fólst aðerðin í því að miða myndavél á merkjasendingar milli leikmanna í liði andstæðinganna og leysa úr dulmálinu, en láta svo berja í olíutunnu á vellinum til þess að gefa sínum manni upplýsingar um hvers lags kast væri væntanlegt. Hefur þessi skandall nú þegar leitt til þess að allnokkrir sem tengdust málinu hafa verið reknir úr störfum sínum, en umfram allt hefur hann vakið mikla reiði. Það er nefnilega þannig að grímulaust svindl í íþróttum fer jafnvel ennþá meira í taugarnar á fólki heldur en alls konar lygar og svindl sem fólk, stofnanir og fyrirtæki verða uppvís að. Að svindla í leik er lágkúrulegt, og þeim sem ekki er treystandi til þess að fylgja reglum þegar lítið er raunverulega í húfi geta ekki endilega átt heimtingu á trausti í þeim málum sem hafa raunverulegar afleiðingar.
Það má því búast við því að leikmenn Houston Astros lendi í alls konar óþægindum og mótlæti á tímabilinu sem hefst í lok mánaðarins. Flestum þættu það líklega makleg málagjöld ef einhverjir kastarar „missi stjórn“ á kastinu sínu og leikmenn liðsins fái nokkrar neglur í óæðri endann áður en hefndarþorsta andstæðinganna verður að fullu svalað.
Er þeim Íslendingum sem sæta þurfa sóttkví um þessar mundir bent á að hægt er að horfa á leiki Astros (og annarra liða) á undirbúningstímabilinu, með því að kaupa áskrift á heimasíðu bandarísku hafnaboltadeildarinnar (mlb.com). Með slíka áskrift þarf engum að leiðast.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021