Fyrir þá sem eru ekki eins dyggir hlustendur Radíó Deiglunnar og ég, mæli ég eindregið með nýjasta þætti stöðvarinnar sem kom út fyrir skemmstu. Þar ræða saman þeir Þórlindur Kjartansson og Pawel Bartoszek, og kveðja kapítalismann, eins og yfirskrift þáttarins gefur til kynna. Í þættinum viðra þeir hugmyndir sínar um hvernig bylting nýfrjálshyggjunnar í Bandaríkjunum virðist hafa étið börnin sín á undanförnum árum og hvernig sundrung milli ólíkra þjóðfélagshópa eykst sífellt, enda er ærið tilefni til – það er ákveðinn umbrotatími í bandarísku þjóðlífi, svo ekki sé fastar að orði kveðið.
Þeir ítreka þó að þeir séu hægrimenn báðir tveir og altént markaðssinnaðir en eru sammála um að ef til vill hafi slík hugmyndafræði gengið of langt í Bandaríkjunum á undanförum árum, allavega að einhverju leyti. Stétt hinna ofurríku verður sífellt ríkari á meðan sultaról þeirra sem fátækir eru herðist (það eru reyndar ekki þeirra orð heldur mín og svosem fleiri sem tjá sig um efnahagsmál í Bandaríkjunum og jafnvel Íslandi, en það er annað mál.)
Umræður þeirra Pawels og Þórlindar lýsa nefnilega ákveðinni þróun sem hefur orðið, vil ég meina. Ég heyri sífellt fleiri tala á þessum nótum, að nýfrjálshyggja eins og hún kemur af kúnni í Bandaríkjunum hafi keyrt framúr sér að mörgu leyti. Ég heyri a.m.k. endalaust talað um vaxandi ójöfnuð í heiminum, auðsöfnun valdastétta, vantrú á eftirlitsstofnanir og lögregluna og fleira í þeim dúr. Þetta er orðræða sem var ef til vill svolítið meira út á jaðrinum en er nú orðin svolítið “mainstream” eða meginstraums, svo ég noti íslenskun þessa orðs sem ég heyrði notaða á Rás 1 í vikunni.
Getur verið að kapítalisminn, og þá sér í lagi hans hreinasta form sem svo margir aðhyllast til dæmis í Bandaríkjunum, eigi minna erindi við pólitík og pólitíska orðræðu en hann gerði hér áður? Ég held það allavega.
Ég sat áfanga við University of Southampton í fyrra, heiti hvers gæti útlagst sem “Vandkvæði lýðræðisins” eða eitthvað álíka. Í einum tímanum var fjallað um áhrif marxisma á lýðræði í nútímaríkjum og þar gerði kennarinn óformlega könnun á öllum nemendum sem leiddi nokkuð sláandi niðurstöður í ljós. Aðspurðir sögðust um 80% nemenda sammála því að marxismi ætti mikið erindi við pólitík og pólitíska orðræðu, og voru þá 20% nemenda ósammála.
Kennaranum brá eiginlega í brún og sagði að þegar hann hefði gert þessa könnun í stjórnartíð Tony Blair hafi einungis 5% nemenda sagt að marxismi ætti upp á pallborð í vestrænni pólitík. Það eru ekki nema um 20 ár síðan.
Ég tek því undir áhyggjur þeirra Pawels og Þórlindar að tími kapítalismans sé að renna sitt skeið. Það er kannski fulldjúpt í árina tekið, en staðreyndin er einfaldlega sú að heimsmynd margra virðist vera að breytast, og það ansi hratt.
- Mexíkósk langa, rjómalöguð Mexíkósúpa, brauð og salatbar - 23. júlí 2021
- Opið bréf til lyfjafræðinga sem kunna ekki að telja - 15. júní 2021
- Graði-Rauður - 17. apríl 2021