Kálfurinn og ofeldið

Þetta var eins og risastökkið til tunglsins, að sjá félagsaðstöðuna breytast í huggulegan matsal þar sem nemendur sátu glaðbeittir í hádeginu með heitan mat hver á móti öðrum. Síðan eru liðin mörg ár og nú er víðast hvar boðið upp á heitan mat í skólum. Markmiðið alls staðar er að bjóða upp á staðgóðan heimilismat sem allir hafa efni á að veita börnum sínum.

Grunnskólaárin mín eru í minningunni eins og í svarthvítri þoku. Ég man minna eftir atburðum en þeim mun meira eftir aðstæðum, eins og að hafa staðið við sparkvöll á skólalóðinni. Svo man ég eftir alls kyns lykt. Til dæmis lykt af nýju strokleðri eða lyktinni upp úr nestisboxinu mínu. Þar leyndist ilmandi samloka frá mömmu með kæfu eða jafnvel mysingi sem var í uppáhaldi. Svali eða Kókómjólkurferna fylgdi stundum með en drykkina var líka hægt að fá í skólanum.

Ég man hvað það var mikil stemning í nestistímanum og alltaf stóð nestið frá mömmu með mér út skóladaginn. Þegar ég var kominn á gagnfræðiskólaaldur fluttist ég á milli skólabygginga og fór úr Myllubakkaskóla í Holtaskóla. Þar var rekin sjoppa þar sem hægt var að kaupa smurðar langlokur og slikkerí milli tíma. Þar með dó hugmyndin um að taka nesti með skólann.

Veturinn áður en ég útskrifaðist úr Holtaskóla dró heldur betur til tíðinda og byltingarkennd tilraun var gerð í skólanum. Þá var ákveðið að bjóða upp á heitan mat í hádeginu, tvisvar í viku, til að sjá hvort það væri yfir höfuð framkvæmanlegt? Ég man að fyrsta máltíðin samanstóð af kjötbollum í brúnni sósu og kartöflumús, herlegheitin borin fram á litlum plastbakka. Þetta fannst okkur krökkunum alveg frábært og foreldrum okkar líka. Þetta var eins og risastökkið til tunglsins, að sjá félagsaðstöðuna breytast í huggulegan matsal þar sem nemendur sátu glaðbeittir í hádeginu með heitan mat hver á móti öðrum.

Síðan eru liðin mörg ár og nú er víðast hvar boðið upp á heitan mat í skólum. Markmiðið alls staðar er að bjóða upp á staðgóðan heimilismat sem allir hafa efni á að veita börnum sínum.

Mig rak í rogastans þegar ég sá á dögunum fréttaviðtal við unga móður norður í landi sem bókstaflega nötraði af bræði því bæjaryfirvöld mættu ekki kröfu hennar um að eingöngu væri boðið upp á grænkerafæði í mötuneyti skólans þar sem barn hennar er við nám. Hún sagði að það væri hennar trú að „við“ ættum ekki að leggja okkur kjötfæðu til munns heldur væri réttast að allt mannkyn borðaði grænkerafæði. Hennar val varð sjálfkrafa val allra hinna enda vissi þessi unga kona best.

Stuttu síðar datt ég inn á þráð á samfélagsmiðli þar sem fólk var alveg æpandi hneykslað á mat sem boðið var upp á í grunnskóla og birtu óspennandi ljósmyndir af matnum máli sínu til stuðnings, eins og mötuneytismatur sé að jafnaði augnayndi. Fæðan átti að vera næringarsnauð og skilja mátti að það væri nánast vanræksla við börnin að bjóða upp á annað eins. Alls kyns kröfur voru uppi um að maturinn væri eldaður í skólanum en ekki aðkeyptur, fara þyrfti í nýtt útboð, skipta um kokk og svo framvegis. Þannig yrði alltaf dýrari leið fyrir valinu sem væri sjálfsagt ef foreldrarnir væru einhuga um að greiða sjálfir fyrir hana. En þegar gagnrýni reis einmitt um jafnræði og efnahag í tengslum við matarinnkaupin fannst fólki sjálfsagt mál að sveitarfélagið greiddi fyrir mismuninn.

Ég velti fyrir mér, hvort er það á ábyrgð hins opinbera eða foreldra að fæða börnin og klæða? Er það skynsamleg nýting opinberra fjármuna að styrkja fólk um mat sem getur vel framfleytt sér og sínum? Úr hvaða samfélagsverkefnum öðrum á að taka slíka fjármuni? Eða er sanngjarnt að hækka skatta og taka slíka fjármuni úr vösum þeirra sem hafa engin börn á framfæri?

Ég veitti því athygli og fannst furðulegt að það var aldrei möguleiki hjá þessu óánægða fólki að taka sjálft einhverja ábyrgð. Nú eru matseðlar gefnir út fyrirfram í mötuneytum skólanna, næringartöflur um leið og í boði að vera ýmist í áskrift eða kaupa stakar máltíðir. Þannig er hægt að kaupa eingöngu matinn sem fellur að smekk barna og foreldra, en hina dagana hafa foreldrarnir val um að senda börnin með nesti í skólann. Eða er það til of mikils mælst?

Ég man hvað allir í Holtaskóla voru glaðir og þakklátir fyrir blessaðar kjötbollurnar, sem bókstaflega drukknuðu í brúnu sósunni. Þær létu ekki mikið yfir sér en þóttu til merkis um framsækni og metnað í skólastarfi. Boðberar nýrra tíma. „Þvílíkur munur að hafa heitan mat fyrir börnin í hádeginu,“ sögðu foreldrarnir þá.

Síðan rann upp öld sérþarfa og ofþæginda. Sagt er að sjaldan launi kálfurinn ofeldið. Kannski er ráð að hakka hann bara í bollur sem fara aftur ofan í nestisboxið ?


Latest posts by Guðfinnur Sigurvinsson (see all)

Guðfinnur Sigurvinsson skrifar

Guðfinnur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.