Það er einfalt að vinna körfuboltaleik. Það eina sem þarf að gera er að skora fleiri stig en andstæðingurinn. En þótt eitthvað sé sáraeinfalt er ekki þar með sagt að það sé auðvelt. Og ekki hjálpaði það Chuck Daily, þjálfara Detroit Pistons á níunda áratugnum, að þurfa að eiga reglulega í höggi við lið Chicago Bulls, með Michael Jordan innanborðs.
Bulls liðinu óx ásmegin eftir því sem leið á áratuginn og Detroit Pistons hafði um langt skeið barist fyrir því að ryðja Boston Celtics úr vegi til þess að verða toppliðið á Austurströnd Bandaríkjanna og geta keppt við Magic Johnson og Los Angeles Lakers um að vera besta lið NBA deildarinnar. Og þegar Detroit hafði loksins tekist að koma sér fyrir sem besta lið Austurdeildarinnar þurfti að kljást við illvíga andstæðinga sem nálguðust óðfluga.
Stærsta vandamálið í framkvæmd þeirrar áætlunar að skora fleiri stig en Chicago Bulls holdgerðist í leikmanni númer 23. Hann var yfirburðamaður í liðinu; það var jafnvel haft í flimtingum að kalla liðsfélaga hans „the Jordanaires“ eða vísa til þeirra sem „aukaleikaranna.“
Þjálfarateymi Detroit lagði því nótt við nýtan dag við að finna aðferðir til þess að draga úr áhrifum Michael Jordan og útbjuggu svokallaðar Jordan-reglur sem notaðar skyldu til þess að verjast honum. Þær fólust meðal annars í því að reyna að neyða hann frekar til þess að keyra á vinstri hliðina en þá hægri, mæta honum alltaf með öðrum varnarmanni, yfirdekka hann stundum þannig að hann fengi ekki boltann, reyna að þreyta hann með því að láta hann hafa fyrir lífinu í varnarleiknum og sitthvað fleira. Mikilvægasta reglan var kannski sú eina sem virkaði, en hún fólst í því að berja hann í gólfið við hvert tækifæri og annað hvort að hræða hann eða slasa.
Nánast öll áherslan í varnarleik Detroit var skiljanlega sett á að stöðva Jordan. Daly talaði stundu eins og honum væri nokk sama hversu mörg stig aðrir leikmenn Bulls næðu að skora; svo fremi sem erkifjandanum sjálfum væri haldið í skefjum.
En auðvitað var þetta mikil einföldun. Þrátt fyrir yfirburði Michaels Jordan í liðinu þá var óhugsandi að allir aðrir í NBA liði séu slíkir aukvisar að óhætt sé að láta þá alveg eiga sig. Detroit hefði vitaskuld geta komið alveg í veg fyrir að Jordan næði að skora með því að láta alla varnarmenn sína mynda hring utan um hann og koma þannig í veg fyrir að hann fengi boltann. (Þetta er reyndar ekki alls kostar rétt, því á þeim tíma var svæðisvörn bönnuð í NBA-deildinni, en látum það liggja milli hluta)
Jafnvel þótt Detroit hefði verið heimilt að beita slíkri taktík þá hefði hún vissulega tryggt það markmið að Michael Jordan næði lítið sem ekkert að skora, en um leið hefði hún gulltryggt glimrandi ósigur í leiknum. Stigin hefðu reyndar ekki komið með glæsibrag úr hendi Michaels Jordan heldur hefðu hetjur á borð við Bard Sellers og Dave Corzine leikið sér að leggja boltann ofan í af stuttum færum, eins og þeir væru einir á skólalóðinni.
Þannig að þrátt fyrir alla þessa skiljanlegu áherslu á að stöðva Michael Jordan þurfti Chuck Daly að sjálfsögðu líka að hugsa um þá staðreynd að leikurinn sjálfur snérist ekki um það. Góðum þjálfara eins og Chuck Daily er auðvitað algjörlega sama um treyjunúmerið á þeim sem skorar; það sem skiptir máli er liturinn á búningnum—í hvaða liði er hann. Og öll áherslan á að stoppa Jordan hafði einungis merkingu í því samhengi að það stuðlaði að betri líkum á því að hið raunverulega takmark næðist; að vinna sigur í leiknum. Jordan-reglurnar höfðu það markmið að auka sigurlíkur Detroit Pistons gegn Chicago Bulls, en besta leiðin til sigurs fólst í því að leggja sérstaka áherslu á að verjast Jordan, en að sjálfsögðu var ekki öllu varpað fyrir róða.
Það er mikilvægt bæði í íþróttum og öðrum sviðum mannlífsins að gæta þess að áherslurnar á tilteknar leiðir að markmiðum verði ekki svo allsráðandi að markmiðin sjálf gleymist.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021