Í dag hefði breski tónlistarmaðurinn John Lennon fagnað 80 ára afmæli sínu. Hann var aðeins 40 ára þegar hann var myrtur fyrir utan heimili sitt Dakota-bygginguna í New York þann 8. desember 1980. Við höfum því lifað án Lennons jafn lengi og hann lifði. Og þvílíkur missir fyrir unnendur tónlistar hans um heim allan. Þvílíkur missir fyrir unnendur friðar og mannréttinda. Því miður sannast það í myrkraverkum hversu mikil áhrif ein manneskja getur haft á alla heimsbyggðina með vondri ákvörðun. Til allrar hamingju sannast það líka í þeim sem hafa hugrekki til að ganga fram í krafti hins réttláta máls að einn maður getur um leið breytt heiminum til hins betra. John Lennon var slíkur maður.
Það er samt eiginlega ekki hægt að segja að við höfum lifað án Johns í bráðum fjörutíu ár. Hann er yfir og allt um kring. Tónlist hans heldur áfram að hreyfa við fólki, veita innblástur til nýrra dáða og boðskapur hans um frið og betri heim á jafn vel við í dag og hann gerði þá. Ég hlustaði nýverið á sérstakan afmælisþátt “John Lennon at 80” á BBC2 sem sonur hans Sean Ono Lennon stýrði. Þar ræddi Sean við guðföður sinn Elton John sem var góður vinur Johns og Yoko, Julian Lennon hálfbróður sinn og auðvitað bítilinn Paul McCartney, nánasta samstarfsmann Lennons. Þessi samtöl gáfu góða mynd af persónuleika Lennons og færðu ævintýralegt líf hans í hversdagslegra samhengi. John Lennon var eftir allt að uppruna verkamannasonur frá Liverpool sem tókst ungur á við mótlæti og sorgir sem mótuðu hann fyrir lífstíð. Afskiptan föður, móðurmissi og fleira sem reynir á ungar sálir. Þessi sársauki varð síðar uppspretta tónlistar sem ekki verður öðruvísi lýst en sem snilligáfu.
Paul McCartney minntist þess að hafa fyrst séð John í strætó. Hann sá strax að Lennon skar sig úr fjöldanum og fann að þessum pilti vildi hann kynnast. Fyrir tilviljun gafst tækifæri til þess í gleðskap stuttu síðar þegar sameiginlegur vinur leiddi þá saman. „Hversu heppinn var ég að sjá þennan strák í strætó því ef ég hefði ekki tekið eftir honum þar þá væri ég sennilega kennari í Liverpool í dag, eins og til stóð?” sagði McCartney hlægjandi í viðtalinu. Þeir voru auðvitað báðir heppnir því þeir bættu hvorn annan upp og erfitt er að hugsa sér hver þróun mála hefði orðið ef samstarf Lennons og McCartney hefði aldrei komist á laggirnar. Bítlarnir aldrei orðið til. Þá væru þeir Paul og John kannski í dag, hvor í sínu lagi, að trúbadorast um helgar fyrir blindfullt fólk í Liverpool og ekkert okkar gæti með nokkru móti vitað um hæfileikana sem aldrei fengu að blómstra og snilldina sem við fórum á mis við.
Auðvitað er engin leið til að spá fyrir um slíkt þótt slíkar pælingar hafi reyndar orðið kveikja að bráðskemmtilegri kvikmynd Yesterday. Myndin hefst á því að allur heimurinn verður skyndilega almyrkva og þegar ljósið kemur aftur er allt óbreytt nema sumt hefur gleymst, þ.m.t. Bítlarnir sem aðeins þrír jarðarbúar muna eftir. Einn þeirra fer að troða upp með bítlalögum og slær í gegn. Að sama skapi er engin leið að spá fyrir um hvernig John Lennon væri í dag. Hvað annað hann hefði afrekað eða hvað honum almennt fyndist um öll okkar vandamál. Sean Ono Lennon kemur inn á þetta í þættinum. Hann sagði algengt að fólk segði honum hvað það teldi að faðir hans hefði að segja um nútímann. Hann benti hins vegar mjög réttilega á að í lífi sínu var John Lennon sífellt að þróast, bæði sem listamaður og manneskja. Tónlistin hefði stöðugt breyst og viðhorfin líka og þess vegna væri ekki hægt að taka eitthvað sem John Lennon hefði sagt árið 1975 og álykta út frá því árið 2020. Að mínu mati er það eina sem við þó getum verið viss um að hann hefði alltaf verið friðarsinni og hann hefði alltaf tekið upp málstað þeirra sem standa höllum fæti í samfélaginu.
John Lennon var stærstan hluta ævi sinnar í stöðugri leit að innri ró og frið. Hann notaði til þess misjafnar leiðir, allt frá því að stunda hugleiðslu í Indlandi yfir í að misnota áfengi og hugbreytandi efni. Eins og hæfileikarnir voru úr öllu samræmi við venjulegt fólk þá voru brestirnir líka miklir. Hið sorglega er að svo virðist sem hann hafi loks fundið jafnvægið og stöðugleikann sem hann sárlega skorti nær allt sitt líf síðasta árið sem hann lifði. Síðasta platan Double Fantasy ber glöggt vitni um þetta. Lög eins og (Just Like) Starting Over, Hard times are over, I´m moving on auk laganna sem hann samdi til Seans og Yoko gefa mynd af þroskuðum manni sem lítur lífið björtum augum. Hann hafði fundið sáttina. Hann trúði loks bara á Yoko og sig. Í því felst lærdómur fyrir okkur öll. Hamingjan felst ekki í leitinni að hinu stóra utan seilingar heldur hinu risasmáa sem við eigum nú þegar og mun aldrei skorta. Ást okkar nánustu.
Það er lán okkar Íslendinga að Yoko Ono hafi valið friðarsúlu þeirra hjóna stað hér á landi. Kveikt verður á henni í kvöld og að venju munum við njóta birtunnar frá henni fram til 8. desember. Auðvitað á Ísland að vera miðstöð friðarmála og mannréttinda um heim allan. Ímyndið ykkur bara! Við erum auðvitað ekki fullkomin frekar en aðrar þjóðir í þeim efnum en við höfum samt betri sögu að segja en flestir. Þess vegna skín ljós friðarsúlunnar héðan til alls heimsins, eins og ljósið frá minningu Lennons sem aldrei mun slokkna.
- Ég fer vestur - 8. júlí 2021
- Að friðlýsa hálfan bæ - 7. maí 2021
- Farvel Filippus - 9. apríl 2021