Og nú er hann runninn upp hvítasunnudagur ársins 2021 Í hugum okkar markar þessi helgi upphafið á ferðalögum sumarsins. Við horfum til þess að eiga marga bjarta og góða daga bæði innanlands og á ferðalögum erlendis.
Og um þessar mundir erum við eins og kálfar á vordegi þegar við fögnum því frelsi sem við höfum endurheimt eftir margra mánaða helsi vegna sóttvarna hér heima og erlendis.
Hvítasunnan er hátíð andans og kirkjunnar. Í Postulasögunni segir frá því að mikill fjöldi pílagríma var í borginni og þar voru samankomnir margir guðhræddir menn. Og þá gerðust undur og stórmerki. Varð gnýr af himni eins og óveður væri að skella á og fyllti húsið þar sem lærisveinarnir voru og þeim birtust tungur eins og af eldi væru er kvísluðust og settust á hvert og eitt þeirra. Allir fylltust heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum. Eins og andinn gaf þeim að mæla. Og fólkið sem varð vitni að þessum atburði sagði hvert við annað: Hvað getur þetta verið?
Hvað getur þetta verið með trúna og andann? Enn erum við að velta trúnni fyrir okkur hvað hún geti verið og hvað hún geti gert fyrir okkur. Við erum nútímafólk og látum ekki segja okkur hvað sem er og trúum ekki öllu sem við sjáum og heyrum. Við erum oft pikkföst í dróma þess jarðneska og ekki endilega tilbúin að láta okkur falla og gefa lífinu himneska vængi.
Fyrr á þessu ári lést Philipus drottningarmaður og var hans minnst með margvíslegum hætti í fjölmiðlum um allan heim. Það sem helst vakti athygli mína í þeim orðaflaumi öllum var samtal við prest konungsfjölskyldunnar sem var spurður að því hvort Philipus hafi verið trúaður. Hann svaraði því til að svo hafi verið – en bætti við að trú drottningarmannsins hafi verið jarðbundin.
Það var ekki útskýrt frekar. En svarið felur það líklega í sér að Philipus hafi verið efasemdarmaður í trúmálum. Philipus hefur verið leitandi og glímt við tilvistarspurningar líkt og við gerum flest. Ef til vill fannst honum margt vera með ólíkindum sem trúin boðar og fjölmargt á skjön við skilning mannsins á veröldinni í kringum sig. En hann vildi gjarnan gefa sig trúnni á vald og treysta á tilvist æðri máttar og trúa því að það sé vakað yfir okkur nætur og daga.
Mörg okkar getum skilið þetta viðhorf. Við getum með einum eða öðrum hætti sett okkur í spor föðurins sem segir frá í Mattheusarguðspjalli. Hann kom með veikan son sinn til Jesú, og hrópaði í vanmætti sínum: “Ég trúi, hjálpa þú vantrú minni.”
Það getur vissulega vafist fyrir okkur að viðurkenna það viðhorf sem guðfræðingurinn og heimspekingurinn Sören Kierkegaard orðar með þeim hætti að grundvallaratriði trúarinnar væri að trú hefur ekkert með vissu að gera. Hún er alltaf áhætta.
Við hikum við að taka þá áhættu en viljum samt gjarnan vita okkur “í skjóli Guðs” eins og þýski guðfræðingurinn Harnack orðaði grundvöll kristinnar ásamt því að viðurkenna óendanlegt gildi sérhvers manns.
Trú okkar skortir oft vængi og er þess vegna jarðbundin og okkur skortir sýn inn í himin Guðs. Það er andi Guðs sem gefur okkur vængi og leyfir okkur að sjá lengra og skýrar og andinn nærir trúna. Heilagur andi friðar og kærleika hjálpar okkur til að horfa á heiminn í gegnum Jesú helgast hjarta. Það er andi Guðs sem gefur okkur frelsi sem byggir á sambandinu við Guð en kallar okkur um leið til ábyrgðar gagnvart náunganum og heiminum.
Hvítasunnudagur minnir á að kirkjan lifir í krafti andans. Og andinn er í senn uppnuminn og jarðbundinn. Hann hreyfir við okkur eins og vindurinn sem blæs og sendir okkur í ólíkar áttir og kemur okkur fyrir á óvæntum stöðum og í alls konar aðstæður í lífinu.
Og við verðum vinir heilags andans og verkfæri hans þegar við leyfum okkur að lifa í skjóli Guðs og treystum honum og leggjum okkur fram um að lifa lífinu með orð Míka spámanns í huga: Maður, þér hefur verið sagt hvað gott er og hvers Drottinn væntir af þér: þess eins að þú gerir rétt, ástundir kærleika og þjónir Guði í hógværð.
Væntum þess að heilagur andi gefi okkur í senn jarðneska – og himneska trú. Trú sem spyr og leitar. Trú sem veitir skjól og tilgang og um leið vilja til að láta gott af okkur leiða.
- Jarðnesk trú og/eða himnesk - 23. maí 2021
- Páskadagur árið 2021 - 4. apríl 2021
- Að vesenast á aðventu og jólum - 25. desember 2020