Í kvöld vann Menntaskólinn í Reykjavík fyrstu sjónvarpsviðureignina í Gettu betur, spurningakeppni framhaldsskólanna. Skólinn er með því kominn í fjögurra liða úrslit. Andstæðingurinn var Fjölbrautaskólinn í Garðabæ. Bæði lið stóðu sig með miklum sóma og keppnin var drengileg í alla staði og skemmtileg. Hún fór þó að þann veg að MR hafði betur. Sigurganga MR í þessari keppni hófst árið 1993. Þá var kreppa í íslensku samfélagi, eins og nú er, en aðstæður í samfélaginu að öðru leyti í grundvallaratriðum aðrar en nú er. Tæknin var önnur og börnin mín sem öll eru fædd eftir árið 2000 lamast í andliti af undrun þegar ég segi þeim af veröldinni sem þá var. Þegar fólk sem átti erindi við annað fólk hringdi í heimasíma og ef enginn var heima þegar hringt var, var brugðið á þá ráð að hringja kannski aftur næsta dag eða með því að banka upp á hjá viðkomandi.
Þegar ég keyrði á kvöldin til að setjast við tölvu á háskólabóksafninu þar sem ég gat í rólegheitum kannað með tölvupóst. Brýnni erindi voru hins vegar vitaskuld send með faxtæki, sér í lagi ef erindið var við opinbera stofnun. En þó samfélagið hafi breyst mikið síðan þá hefur MR verið tákn stöðugleikans og staðið af sér tískusveiflur eins og faxtæki. Stjórnarskrá lýðveldisins er raunar líklegri til að taka breytingum en lærði skólinn. MR var í meginatriðum hinn sami árið 1993 og hann er árið 2020 og vitaskuld var hann hinn sami fyrir árið 1993 líka. Dramatískasta breytingin er kannski sú að foreldrafélag hefur verið innleitt í starf þessa skóla eins og annarra, sem ég þakka fyrir að var ekki við lýði þegar ég var þar við stíft nám. Þegar Íslendingar stigu afgerandi og þýðingarmikið skref í alþjóðlegum samhengi með lögfestingu EES samningsins árið 1994 stúderuðu nemendur MR eftir sem áður latínu sex kennslustundir í viku. Glímunni við málfræði Gallastríðanna var enda ekki lokið og leitað var að hinu rétta svari við því hvort lagt hefði verið til hermannsins þann daginn með ablativus modi frekar en ablativus instrumenti. Síðan kom kafli í sögu MR þar sem liðið beið ósigur. Það var skólanum visst áfall. Einhverju síðar varð bankahrun. Annað áfall.
Ekki leið svo á löngu þar til orðið innviðauppbygging fór að ryðja sér til rúms í pólitísku tungutaki án þess að ég ætli að ganga svo langt að tengja það orð eingöngu við þá staðreynd að MR beið ósigur. Ósigurinn kenndi okkur hins vegar að lífið, það er stundum brekka. Sú var vissulega tíðin að keppendur voru eldri strákar. Ég man eftir því sem ung stúlka að hafa séð lið lærða skólans lesa og stúdera á bóksafni Seltjarnarness. Síðar urðu keppendur jafnaldrar og í einhverjum tilvikum sáust stúlkur. Í dag á ég tengdason í liðinu.
Nú þegar heimsfaraldur hefur reynst okkur öllum þungur og mikið rót er í samfélaginu felst í því eitthvert öryggi að sumt er eins og það hefur oftast verið. Falleg og drengileg keppni í Gettu betur endar með sigri MR. Þegar öllu er á botninn hvolft þá vitum við að innviðirnir eru sterkir.
- Í þágu hverra er auðlindaákvæði? - 7. júní 2021
- Síðustu 17 ár Ruth Bader Ginsburg – hvaða þýðingu höfðu þau? - 14. maí 2021
- Má gagnrýna góð markmið? - 2. apríl 2021