Þegar bandaríska söngkonan Aretha Franklin lést í ágúst 2018 hjó ég sérstaklega eftir því hvernig hennar var oftast minnst í bandarískum fjölmiðlum. Þótt hún hafi í öllum skilningi verið menningarlegur risi var oftast ekki mesta áherslan á að fjalla um feril hennar í samhengi við tónlistarsöguna eða dægurmenninguna. Mun oftar var talað um framlag hennar til „tónlistariðnaðarins“ (contribution to the music industry).
Þessi nálgun lýsir einhvern veginn á sama tíma einstaklega hallærislegu verðmætamati og örlítið aðdáunarverðri hreinskilni. Í Bandaríkjunum er Simone Biles eru hluti af íþróttaiðnaðinum, Einstein lagði mikið af mörkunum til kennilega eðlisfræðiiðnaðarins, Yo-yo Ma er áhrifavaldur í selló-iðnaðinum, Maya Angelou var mikill máttarstólpi í bandarískum ljóðaiðnaði, og svo mætti áfram telja.
Sú hugsun að reyna að setja alla mannlega hegðun inn í einhvers konar dollaradæmi er auðvitað býsna plebbaleg. Hvað ætli Vincent van Gogh hefði þótt um þau eftirmæli að honum hafi ekki tekist að fóta sig í listmálunariðnaði nítjándu aldar?
En þrátt fyrir plebbaskapinn þá er „iðnaðar“-hliðin á lista-, menningar- og fræðalífinu nokkuð sem skiptir líka máli.
Líklegast er sönn list aldrei sköpuð með hagnaðarvon í huga. Samt skiptir miklu máli fyrir listafólk að samfélagið bjóði upp á tækifæri til þess að beina listrænum hæfileikum og getu í fjárhagslega hagkvæman farveg. Menningar„iðnaðurinn“, afþreyingariðnaðurinn og skemmtanaiðnaðurinn byggjast að stórum hluta til á markaðslegum forsendum og saman eru þessir hlutar hagkerfisins risastórir og vaxandi. Þegar vel gengur að taka þátt í þessum „iðnaði“ aukast líka möguleikar annarra listamanna til þess að finna farveg fyrir sína sköpun, og til verður frjósamt umhverfi nýsköpunar á sviði lista, menningar og afþreyingar.
Hin stórkostlega sigurganga Hildar Guðnadóttur er áminning um það hversu mikilsvert það er fyrir lista- og menningarlíf þegar nægilega mikil rækt er lögð við undirstöður listrænnar sköpunar í samfélaginu og að á sama tíma sé til staðar þekking og sjálfstraust til þess að koma hæfileikum og metnaði á framfæri á alþjóðlegum vettvangi. Þetta er ekki sjálfgefið en hefur tekist ákaflega vel í tónlistar„iðnaðinum“ þar sem ótrúlegur fjöldi íslensks listafólks hefur náð framúrskarandi árangri á undanförnum áratugum. Sá árangur býr til fyrirmyndir, ýtir undir fagmennsku og breytir fjarlægum draumum í raunhæf markmið.
Ísland ætti að kappkosta að tryggja að manneskjur eins og Hildur geti byggt upp sína hugvitsdrifnu og listrænu starfsemi á Íslandi. Það er líklegt að áhugaverðustu og verðmætustu störf framtíðarinnar muni einmitt tengjast listrænni sköpun með einum eða öðrum hætti—og við stöndum vel að vígi hér á landi til þess að bjóða upp á kraftmikið og skapandi umhverfi. Það þurfa ekki allir að vinna Óskarsverðlaun eða verða alþjóðlegir risar á sínu sviði, en í kringum örfáa slíka risa á borð við Hildi geta skapast verkefni, tengsl og tækifæri sem gerir miklum fjölda listræns fólks kleift að sameina atvinnu sína og ástríðu án þess að fórna um leið öllu fjárhagslegu öryggi og þægindum.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021