Í stjórnarskrá eru skráðar grundvallarreglur samfélagsins sem öll önnur lög þurfa að standast. Mikilvægt er þess vegna að ramma inn meginreglur um auðlindir í stjórnarskrá til að að takmarka með hvaða hætti löggjafinn getur farið fram í lagasetningu um sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar og verja þannig hagsmuni almennings. Sú umræða sem nú á sér stað í samfélaginu undirstrikar rækilega þá hagsmuni sem eru undir í málinu og um leið þörfina á skýru ákvæði í stjórnarskrá.
Nú liggur fyrir á Alþingi frumvarp Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um auðlindaákvæði. Í frumvarpinu er talað um þjóðareign en án þess þó að gefa því orði raunverulega merkingu. Rétturinn til að nýta sameiginlega auðlind verður ekki gerður tímabundinn samkvæmt frumvarpinu, en ótímabundinn afnotaréttur jafngildir eign. Frumvarpið gerir ekki heldur skýrum orðum ráð fyrir eðlilegu gjaldi fyrir þessi afnot. Þess í stað segir aðeins að í lögum skuli kveða á um gjaldtöku fyrir heimildir til nýtingar. Sú er einmitt staðan í dag, svo í því felst engin breyting. Og það hefur þau áhrif að löggjafinn hefur eftir sem áður frítt spil um hvernig haga á þessum málum.
Orðin tóm
Til að gefa orðinu þjóðareign þýðingu þarf að tryggja að nýting á sameiginlegri auðlind sé alltaf gerð með tímabundnum samningum við þá sem fá réttinn til að nýta auðlindina. Þessa grundvallarreglu þarf að ramma skýrt inn í stjórnarskrárákvæðið. Þar skiptir sömuleiðis máli að fram komi að greiða skuli eðlilegt gjald fyrir þessa nýtingu. Með því verjum við sjávarauðlindina þannig að ekki skiptir máli hvernig pólitískir vindar blása á Alþingi og hverjir eru við völd. Þetta er það atriði sem öllu máli skiptir í hinu pólitíska samhengi. Þannig verjum við hagsmuni almennings og tryggjum að ekki verði um varanlegan rétt að ræða.
Tímabinding réttinda er rauður þráður í lagasetningu þegar stjórnvöld úthluta takmörkuðum gæðum til hagnýtingar á náttúruauðlindum í þjóðareign. Orkuframleiðsla í landinu er mest öll á forræði ríkis eða sveitarfélaga. Í orkulögum er sveitarfélögum veitt heimild að framselja einkaleyfi til að starfrækja hitaveitu um tiltekið tímabil í einu. Í lögum um rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu er ákvæði um tímabundin leyfi til allt að 65 ára. Í lögum um fiskeldi er mælt fyrir um rekstrarleyfi til 16 ára. Frumvarp ríkisstjórnarinnar um Hálendisþjóðgarð skilgreinir hálendi Íslands sem náttúruauðlind í þjóðareign, þar sem skýrt er tekið fram að óheimilt sé að reka atvinnustarfsemi í þjóðgarði nema með tímabundnum samningi. Dæmi um þessa tímabundnu heimildir til nýtingar eru gegnumgangandi í löggjöf um auðlindir.
Gegn almennu stefi í lagasetningu
Nýtt auðlindaákvæði í stjórnarskrá sem forsætisráðherra leggur til fer því gegn því stefi sem einkennir lagasetningu um flestar aðrar auðlindir. Hvers vegna er niðurstaða ríkisstjórnarflokkanna þriggja að leggja fram ákvæði sem er svo opið? Hvers vegna er tækifærið til að verja almannahagsmuni ekki nýtt? Frumvarp Katrínar Jakobsdóttur ber með sér að viljinn til að breyta er enginn. Samþykki Alþingi tillögu forsætisráðherra mun það þess vegna leiða til þess óbreyttrar stöðu fyrir almenning og um leið óbreytt ástand fyrir stórútgerðina. Í þágu hverra er þetta ákvæði þá?
- Í þágu hverra er auðlindaákvæði? - 7. júní 2021
- Síðustu 17 ár Ruth Bader Ginsburg – hvaða þýðingu höfðu þau? - 14. maí 2021
- Má gagnrýna góð markmið? - 2. apríl 2021