Þessa dagana er ég að hámhorfa í annað sinn á bandaríska Office á Netflix (#recommended). Þættirnir eru rúmlega 15 ára gamlir en eldast fáránlega vel. Ég kann jafnvel betur að meta þá í dag, einfaldlega fyrir þær sakir að fyrir 15 árum var ýmislegt látið flakka sem yrði ekki endilega gert í dag. Aðalleikari og meðhöfundur þáttanna, Steve Carell, hefur enda sagt að þáttunum, sem hafa unnið til fjölmargra verðlauna, yrði aldrei tekið eins vel í dag. Andrúmsloftið væri einfaldlega breytt og fólk væri orðið mjög meðvitað um móðgandi og stuðandi ummæli og hegðun. Ýktur, óheflaður og ógeðfelldur karakter eins og sá sem hann túlkar ætti einfaldlega erfitt uppdráttar í slíku andrúmslofti, jafnvel þótt tilgangurinn hafi einmitt verið sá; að mála upp kómíska mynd af fáfróðum, hvítum, miðaldra manni til þess að hlæja að fávisku hans.
Með vaxandi velmegun og menntun hefur vitund og þekking manna aukist á aðstæðum annarra en móðgunargirni sömuleiðis og samhliða. Menn móðgast ekki síður fyrir hönd annarra og feitustu (pun intended) fyrirsagnir fréttamiðlanna eftir helgarviðtölin snúa að ógætilegu og óheppilegu orðavali, fremur en að efnisinnihaldi viðtalanna. Uppspretta særinda er óþrjótandi: Deilur um lýðheilsusjónarmið og -mælikvarða, aldagömul orðasambönd og orðtök, titlar – möguleikarnir eru eins margir og tilfinningarnar sem geta verið vaktar upp. Bæjarstjóri hældi eigin íbúum og var þar með sagður hafa móðgað meirihluta þjóðarinnar. Útlendingar móðguðust fyrir hönd Íslendinga vegna þeirrar einföldu myndar sem var dregin upp af fávísum Íslendingum í Júróvisjón-myndinni um Húsavík.
Og aðstæðurnar eru sömuleiðis fjölbreyttar: þingsalur, dómsalir, kennslustofur, sjónvarpsþættir, persónuleg útsending af samfélagsmiðli (story) – allir hafa alltaf og alls staðar rétt til þess að vera ekki móðgaðir samkvæmt eigin skilgreiningu þess hugarástands.
Þeir sem mega allra síst gera grín á kostnað annarra er hópurinn „hvítir miðaldra karlmenn í forréttindastöðu“, sem Carell einmitt tilheyrir, og það er vinsælt að láta slíkan stimpil flakka með fordæmingarflaumnum.
Það er jákvætt að fólk sé meðvitað og taki í auknum mæli tillit til samborgaranna og e.t.v. er framtíðargerð þátta eins og Office lítil fórn að færa fyrir alla minnihlutahópana sem má ekki lengur gera grín að. Í það minnsta eru þessar stundir með Office kærkomið hlé frá þrúgandi nærveru pólitísks og húmorslauss rétttrúnaðar.
- Besta hátíðin - 9. apríl 2023
- Lýðræðið mun sigra - 2. júlí 2021
- Norræn vídd í varnarsamstarfi - 29. júní 2021