“I felt like destroying something beautiful”

Brussel hefur ákveðið: Ein smokkastærð fyrir alla Evrópu.

Brussel hefur ákveðið: Bananar mega ekki vera of bognir.

Brussel hefur ákveðið: Engar kraftmiklar ryksugur.

Brussel hefur ákveðið: Tevatnið mun sjóða lengur.

***

Í kvikmyndinni Fight Club er vonda fólkið í aðalhlutverki. Vonda fólkið, leikið af Ed Norton og Brad Pitt, stofnar hryðjuverkasamtök, dregur til sín brotna karlmenn og gerir þá að öfgamönnum. Eins og í öllum öfga-hryðjuverkasamtökunum þarf einhverja hugmyndafræði til að hnýta draslið saman. Í tilfelli Fight Club snýst hugmyndafræðin um einhvers konar viðspyrnu karlmannsins og andstöðu við vestræna neysluhyggju. Þekkt blanda.

***

Boris Johnson tókst svo sannarlega að gera mikið út áður ómerkilegri fréttaritarastöðu Daily Telegraph í Brussel. Til þess notaði hann grípandi fyrirsagnir. Hann skrifaði hnyttnar greinar þar sem húmor og kaldhæðni báru sannleikann gjarnan ofurliði. Þannig slípaðist til myndin breska pressann hefur lengi haft af stórnsýslu ESB, sem óskilvirkri og smámunasamri  samkundu fávita sem vilja taka til sín allt vald í Evrópu.

Þetta tókst Boris að gera á tíma sem Evrópusambandið virkaði betur en nokkru sinni fyrr. Komið hafði verið á sameiginlegum markaði. Sameiginlegur gjaldmiðill var að fæðast. Innri landamæri voru að leggjast af. Fjöldi fyrrum kommúnískra ríkja bankaði á dyrnar í von um að festa lýðræði og kapitalisma í sessi heima fyrir.

Maður hefði haldið að margt af þessu ætti almennt að gleðja þá sem aðhyllast lýðræði og frjáls viðskipti. En nei: á meðan á þessu glæsiskeiði ESB stóð festist í sessi ímynd ESB af hópi ókjörinna franskra og þýskrar bumbukalla sem ætluðu að skipa breska heimsveldinu fyrir um allt og ekkert.

***

Ed Norton og ljóshærður Jared Leto takast á í hringnum. Eftir að hafa fengið andlitshögg nær Ed Norton yfirhöndinni og kemur andstæðingnum á jörðina. En hann hættir er ekki og lætur höggin dynja á andliti hans. Þegar hann hættir er mótherjinn alblóðugur og afmyndaður. Aðspurður af hvað hafi komi yfir hann andvarpar hann og svarar svo dulrænt með fyrirsögn þessa pistils. Hann hafi langað að skemma eitthvað fallegt.

***

Höggin litlu sem dundu á Evrópusamstarfinu seldu án efa blöð. Kaldhæðnar frásagnir af getuleysi bjúrókrata eru ekki vont lesefni. Breska pressan er vel lesin og skilin víðar en á eyjunum. Orðræðan var ráðandi í umræðu um Evrópusamstarfið á fleiri stöðum í álfunni.

Með tímanum urðu fleiri sannfærðir um að það sem miður væri í stjórn landsins hlyti að vera Brussel að kenna og sannfærðust um að best væri að taka aftur stjórnina. Að rétturinn ákvarða eigin rafspennu hlyti klárlega að trompa frelsi fólks til að ferðast, vinna, læra og setjast að hvar sem er í Evrópu. Að rétturinn til að setja eigin reglur um sykurinnihald hlyti að trompa þátttöku í Evrópusamstarfi sem hefur getið af sér 63 ára frið í Evrópu.

***

Skoðanir Borisar Johnsonar á veru Bretlands Evrópusambandinu hafa verið “fljótandi” en hann stökk ekki að fullu um borð í Leave-vagninn fyrr en í ársbyrjun 2016. Hann hafði áður talað um kosti sameiginlega markaðarins sem Bretland hefur nú yfirgefið. Hann talaði fyrir einhvers konar EES-leið í samskiptum Bretlans og ESB sem ekki varð ofan á. Niðurstaðan með nýju samningunum er hörð útganga, vissulega 0%-tollar á vörur, en minna frelsi og meira vesen á öllum sviðum samt.

Og gleymum því heldur að miklu auðveldara verður að bakka út úr þessum týpiska fríverslunarsamningi heldur en það er að hætta í ESB. Til þess mun ekki þurfa þjóðaratkvæði eða langar samningalotur. Hagsmunatengslin eru miklu lausari en áður. Og auðvitað mun koma fólk sem leggur það til að þau verði veikt enn frekar.

***

“Nennir einhver að hringja á sjúkrabíl?”

Það er kannski á mörkum málefnalegrar gagnrýni að slá upp þeirri myndlíkingu að Boris Johnson  hafi verið í einhvers konar gamnislag við Evrópusamstarfið þegar hann fékk blóðbragð í munninn og löngunin til að mölva framtennurnar úr ljóshærðum Jared Leto hafi borið hann ofurliði. En ætli pistlahöfundurinn Boris Johnson fyrirgefi mér ekki þótt fært sé í stílinn, í þágu málstaðarins.

Ég skal því segja tvennt Boris til hróss. Það var jákvætt að Brexit liðið hafi sjálft tekið ábyrgð á gjörðum sínum og leitt útgönguferlið sjálft fyrir rest, og það er vissulega jákvætt að samist hafi þótt svo samningarnir séu mun harðari og verri en þeir hefðu getað orðið. Útganga án nokkurra samninga væri enn verri fyrir Evrópu, Breta og heiminn.

En þegar ég horfi á stjórnmálamann sem þumlar sig upp til himna daginn þegar Bretar ganga úr Erasmus-skiptinemaáætluninni, daginn sem ferðafrelsi milljóna manna skerðist, daginn sem risaklofningur í farsælu samstarfi Vesturlanda raungerist, þá finnst mér það svolítið eins og fagna því, með bros á vör og báða þumlana á lofti, að hafa tekist að koma slösuðum manni undir læknishendur.

Því þetta er ekki frábær samningur. Evrópa er veikari og framtíðin óviss. Það er búið að skemma eitthvað fallegt.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.