Við erum öll í mismiklum áföllum vegna þess sem gerðist í París fyrir viku.
Það dó fullt af saklausu fólki sem átti sér einskis ills von. Það var að fá sér að borða, hlusta á tónlist og spjalla saman á stöðum sem þau töldu sig öll vera örugg. En þau voru það ekki.
Árásarmennirnir voru ofstækisfullir hryðjuverkamenn. Illa innrættir, svokallaðir barbarar.
Hvernig verða þannig menn til?
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem svona hópar ryðja sér til rúms og gera okkur venjulega fólkinu skaða. Og eflaust er þetta ekki sá síðasti heldur. Það er gömul saga og ný að ungir menn taki sig saman um einhvern ömurlegan málsstað og fremji svo ofbeldisglæpi í kjölfarið. Málstaðurinn getur verið af stjórnmálalegum, rasískum eða trúarlegum toga.
Uppsprettan er oftast sú sama. Þeir eru verkefnalausir, þá skortir tilgang með tilverunni, góðar fyrirmyndir, – þeir eiga bágt með að fóta sig. Þessir strákar geta verið og hafa verið hvaðan sem er. Frá Englandi, Írlandi, Þýskalandi, Bandaríkjunum, Afganistan, Sýrlandi.
Erfiðast áttu einmitt strákarnir af annari kynslóð sem höfðu komið sem flóttamenn með foreldrum sínum til Danmerkur.
Dæmi um slíka öfgahópa eru til dæmis Skinheads, IRA, nasistar og nýnasistar, Taliban, KKK og nú hinir skelfilegu ISIS liðar sem koma víða frá Evrópulöndunum en einnig Sýrlandi, Líbanon og Írak.
Málstaður þeirra snýst oftast um að ná betri stöðu og að beina reiði sinni og hatri á “hina” sem þeir telja ógna stöðunni.
Ástæða þess að svo auðvelt er að rækta þetta hatur er að þessum einstaklingum finnst þeim ógnað og yfirleitt er þjóðfélagsstaða þeirra slæm, hvort sem er heilt yfir þjóðina eða hjá þeim sem þjóðfélagshóp.
Talibanar eru/voru til dæmis mestmegnis munaðarlausir strákar sem höfðu misst foreldra sína í stríðinu sem geysaði í Afganistan árum saman, Skinheads atvinnulausir strákar í hálf mannlausum kolanámubæjum Bretlands, Þýskaland var í sárum þegar Hitler mætti til leiks.
Perki sem talar asnalega
Þegar ég bjó í Kaupmannahöfn fyrir 20 árum voru félagsleg vandamál tengd innflytjendum frá mið-Austurlöndum byrjuð að gera vart við sig. Þá er ég ekki endilega að meina vandamál sem þeir bjuggu til heldur einnig vandamál sem rekja mátti til þess hvernig daninn tók þessu fólki.
Erfiðast áttu einmitt strákarnir af annari kynslóð sem höfðu komið sem flóttamenn með foreldrum sínum til Danmerkur.
Þeir voru stundum uppnefndir “perkar” og það var gert grín að því hvernig þeir báru dönskuna fram. Margir pössuðu hvergi inn, hvorki heima hjá sér þar sem fólk sat á gólfinu og borðaði eggaldin og kúskús rétti með fingrunum eða á McDonalds þar sem háværar stelpur sátu í mini pilsum og reyktu.
Skilaboðin heimanfrá eru á einn veg, skilaboðin í samfélaginu á annan og þú virkar á hvorugum staðnum. Tilheyrir hvorki þessum heimi né hinum.
Þar kemur moskan inn. Þar líður öllum svipað, þar finnst þeim þeir tilheyra hópnum en undir niðri kraumar langvarandi gremja og biturleiki. Reiðinni er beint gegn “óvininum”. Í tilfelli ISIS verður “óvinurinn” vestræn menning sem samræmist ekki öfgakenndum kenningum predikara þeirra um stöðu kvenna, dyggðir og hvernig almennt skuli lifa þessu lífi.
Eru Þjóðverjar verri en aðrir?
Nú er mikilvægt að stimpla ekki alla Sýrlendinga, Íraka eða hreinlega alla múslima sem vondar manneskjur. Hryðjuverkamenn eru vissulega vondir, að minnsta kosti samkvæmt minni skilgreiningu á því hugtaki, – en það gerir þig hvorki að hryðjuverkamanni né vondri manneskju að hafa snúist til Islam eða að hafa fæðst í landi þar sem sá siður hefur fest sig í sessi. Ekki heldurðu að Cat Stevens, nú þekktur sem Yusuf Islam, sé mjög vondur maður?
Ég man ég sá einhverja heimildarmynd um rasisma á MTV fyrir mörgum árum. Þar kom fram að mestu rasistar Evrópu væru Svíar. En þau sem rasisminn beindist helst að voru Þjóðverjar. Eftir síðari heimstyrjöldina héldu nefnilega margir lengi vel að Þjóðverjar væru hreinlega bara vondar manneskjur. Verri en við hin.
Það segir sig sjálft að þetta getur aldrei verið svona. Það er sama í hvaða landi við fæðumst, – aðstæðurnar í landinu okkar og aðstæður okkar sjálfra eru það eina sem geta gert okkur reið, bitur og jafnvel grimm og miskunarlaus. Gert okkur vond.
Við hér á klakanum höfum enga ástæðu til að vera vond. Við þurfum bara að vera skynsöm. Skynsöm og góð.
- Veröld ný og óð – Fréttaveitan, Facebook og óvinir frelsisins - 31. janúar 2017
- Túristinn er nýja síldin – Kapp er best með forsjá - 25. júlí 2016
- Ein eilífðar hreinmey, í úlfahjörð, sem skrifar svo undir og deyr - 13. júlí 2016