Það er B-týpa sem skrifar. Elskar að sofa og morgnarnir geta verið afskaplega erfiðir. En mögulega hefur þetta ekkert með týpuna að gera. Kannski er ekki nægilega næringarríkur matur borðaður. Mögulega er horft of mikið á skjáinn á símanum, átölvuna eða bara á sjónvarpið. B-týpan er mögulega stressuð eða með áhyggjur. Þetta hefur vissulega líka áhrif á gæði svefnsins og hvernig gengur að vakna.
Svefninn spilar mikilvægt hlutverk þegar kemur að heilsu. Umræðan um mikilvægi svefns hefur orðið meiri undanfarin ár og við erum meðvitaðri um hvað góður svefn getur gert góða hluti, bæði fyrir andlega og líkamlega heilsu. Reyndar alveg stórkostlega hluti.
Margir átta sig ekki á því hvers vegna við sofum en það er sannarlega ekki bara til að hvíla okkur. Líkaminn vinnur ótrúlegt þrekvirki þegar við hvílumst. Þess vegna er svefninn ekki síður mikilvægur börnum og ungu fólki sem er að taka út þroska.Góður svefn ver okkur fyrir sýkingum, veikindum og heilsufarskvillum. Líkaminn vinnur best á óboðnum gestum í svefni.
Fjölmargar svefnrannsóknir hafa verið gerðar en til að gera langa sögu stutta þá verða miklar breytingar í líkamanum við svefninn sem skipta heilsuna okkar miklu máli, bæði líkamlega og andlega. Svefninn gerir það að verkum að bæði heilinn og líkaminn hægja á sér og ná að komast í svokallað endurbóta ferli (e, processes of recovery) sem veldur því að við höfum tök á að takast á við verkefni næsta dags. Uppsafnað svefnleysi er hættulegt en tilraun sem gerð var á rottum fyrir mörgum árum sýndi þetta. Þeim var haldið vakandi í nokkra daga og hlutu margar sömu örlög. Þær drápust.
Tilgangur þessa pistils er ekki að senda fólk í háttinn klukkan 20:00. Frekar að skoða þá þætti í umhverfinu sem hafa áhrif á svefninn okkar og ekki síst þeirra sem eru ungir og enn að þroskast. Þeir hafa ekki endilega vit á þessu og átta sig ekki á mikilvæginu.
Fyrir unglinga leikur svefn lykil hlutverk í heilsu þeirra, hvernig þeim líður, hvernig þeim gengur í skóla og íþróttum. En svefninn er unga fólkinu ekkert alltaf auðveldur. Fyrir þá sem eiga í vandræðum er gott að takmarka skjátíma. Rannsóknir hafa sýnt að tengsl geta verið á milli svefnvandamála og þunglyndis hjá unglingum. Það er ljóst að snjalltækin eru ekkert á förum þannig að það er mikilvægt að skilja áhrif þeirra á svefn og hvernig er hægt að ná betra jafnvægi.
Sum skjátæki, hvort sem um er að ræða tölvur, spjaldtölvur, sjónvörp eða síma senda frá sér svokallað „blátt ljós“ og því er stundum talað um the blue light effect. Þessi áhrif geta hamlað því að líkaminn framleiði mikilvægt svefnhormón sem kallast melatonin. Náttúruleg líkamsklukka líkamans getur því raskast, en sú klukka segir til um hvenær við þurfum að sofna og vakna.
Því meiri tíma sem unglingar eyða fyrir framan þessi snjalltæki, sérstaklega á kvöldin, því meiri líkur eru á því að líkaminn framleiði minna melatonin sem gerir það að sofna að verulegri áskorun. Það verður erfitt að sofna og það verður erfitt að halda samfelldum svefni. Niðurstaðan verður að þessir unglingar sofa í heild skemur en aðrir sem síðan getur leitt til þunglyndis.
Að takmarka daglegan skjátíma getur haft þau áhrif að auðveldara verður að sofna. Það ætti í raun að forðast eins og heitan eldinn að vera í skjátækjum rétt fyrir svefninn. Þetta á í raun við allan aldur. Að sleppa því að vera fyrir framan skjá a.m.k. tveimur tímum fyrir áætlaðan svefntíma getur bæði aukið líkur á að sofna fyrr og sofa betur í ofanálag. Með því að takmarka tímann sem börn og unglingar eyða í snjalltækjunum getum við komið í veg fyrir þá galla sem þeim fylgja, sérstaklega þegar kemur að svefninum.
Við fullorðna fólkið erum vissulega fyrirmyndir barna okkar og gætum mögulega byrjað á okkur sjálfum.
Góða nótt
- Eldgos, gjörðu svo vel! - 30. apríl 2021
- Ameríkuferð Reykjanesskagans - 2. mars 2021
- Þegar landið rís - 25. janúar 2021