Vinkona mín gerði sér dagamun fyrir stuttu og fór ásamt fjölskyldu sinni að heimsækja ömmu sína út á land í þeim megintilgangi að horfa þar saman á íslensku forkeppni söngvakeppni Evrópsku sjónvarpsstöðvanna Júróvisjón. Þegar þau voru komin á áfangastað í heimabæ ömmu þá mundu þau eftir þeim gamalgróna sið að hafa smágjöf með sér þegar maður er boðin í heimsókn og keyrðu því framhjá vínbúð bæjarins til þess að grípa með sér eina rauðvínsflösku. Sú hugmynd var skammlíf þar sem búðin var lokuð.
Hvaða sveitafélag var þetta? Að vetrarlagi eru 19 sveitafélög þar sem íbúarnir mega búa við að útibú Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins sé lokað á laugardögum. Mörg þessara sveitafélaga búa til viðbótar við laugardagslokun við þá frábæru þjónustu að á virkum dögum er vínbúðin opin í heilar 60 mínútur frá klukkan 17 til klukkan 18.
Ætli íbúar landsbyggðarinnar hugsi oft með sér hversu frábært það sé að búa við verulega takmarkaðan opnunartíma á vínbúð enda væru þeir annars alla daga jafn dauðadrukknir og latté liðið í Reykjavík?
Hverju geta íbúar landsbyggðarinnar þakkað þessa frábæru þjónustu sem þeir njóta af hálfu hins opinbera? Líklegast því að Íslendingar, líkt og svo margar aðrar þjóðir, eru mjög feimnir við breytingar. ÁTVR var stofnað árið 1922 þegar bann við sölu á léttvíni undir 21% að styrkleika var afnumið. Á þeim tíma var einnig einkaleyfi með sölu mjólkur sem var einungis hægt að kaupa í mjólkurbúðum sem voru reknar af mjólkursamsölunni. Síðasta mjólkurbúðin var lögð niður 1977 en óvíst er hvenær síðasta vínbúðin mun loka dyrum sínum.
Umræður um áfengi eru oft nokkuð erfiðar vegna neikvæðra áhrifa sem neysla þess getur valdið þeim sem neytir og einnig þeirra sem hann hefur áhrif á. Íslendingar hreykja sér oft af því að vera frekar veraldleg þjóð sem lætur ekki gráfeyskna predikara segja sér til en samt þykir ekkert skrýtið að háir skattar á áfengi og tóbak heiti „syndaskattar“. Þú ert að framkvæma synduga athöfn og átt þessvegna skilið að greiða háa skatta fyrir vikið.
Af hverju getur þú ekki bara…
Verið meira fyrirhyggjusamur? Keypt þér áfengi nokkrum dögum fyrir helgi? Keypt þér meira magn og átt í búrinu ef það skyldi þrjóta? Keyrt þessa aukakílómetra og skellt þér í ríkið eins og við hin? Drifið þið yfir heiðina á snjósleðanum og keypt fyrir þorpið?
Fólk virðist stundum halda að vínbúðin sé ígildi skriftarstóls. Ef þú leggur á þig sérstaka ferð í sérverslun ríkisins með áfengi þá fremur þú siðbót gegn syndinni sem þú fremur þegar þú drekkur vínið í kjölfarið. Það að kaupa áfengi í sömu verslun og þú kaupir humarinn er ekki synd heldur sjálfsagður tímasparnaður sem einnig minnkar bensínnotkun og slit á dekkjum og vegum.
Er þetta tímabært?
Þegar fólk sem hræðist breytingar hvað mest heyrir talað frjálslega um hluti sem ganga út á að breyta heiminum eins og hann er þá vill það oft færa umræðuna á þægilegri, kunnuglegri slóðir. Þá er rætt um það hversu ónauðsynlegt og ótímabært það er að leggjast í nokkrar breytingar. Hvað með Landsspítalann? Verðtrygginguna? Kvótakerfið? Evrópusambandið? Hvernig dettur nokkrum manni í hug að ræða um jafn fáránlegt mál og verslun með syndsamlegt áfengi þegar stærstu mál samtímans stara á okkur óleyst?
Málið með stærstu vandamál samtímans er að þau fara ekki neitt á meðan við leyfum 10/11 að selja nokkrar dósir af Brooklyn Lager.
Umræður um frumvarp um afnám einkaleyfis ÁTVR á sölu áfengis í verslunum er erfitt mál vegna þess hversu margir hafa erfiðar minningar um ofneyslu áfengis. Þar er þó kjarni málsins. Neysla áfengis er ekki það sama og ofneysla. Þjóðir sem búa við betra aðgengi að áfengi búa oft við minni ofneyslu. Hið opinbera getur gert ýmislegt til þess að draga úr neyslu á áfengi og er líklegast áhrifaríkasta leiðin sú að hækka verð með skattlagningu sem er notuð óspart á Íslandi. Óskilvirkasta leiðin er þó líklegast að reka sína eigin verslunarkeðju með forstjóra, markaðsstjóra og mannauðsstjóra.
Ef verslunarrekstur undir merkjum ríkisins væri besta leiðin til þess að hafa eftirlit með sölu á varhugaverðum varningi af hverju er ekki til flugeldasala ríksins? skotfæraverslun ríksins? áburðarverslun (ekki verksmiðja) ríkisins, sprengiverslun ríkisins, eiturverslun ríkisins og svo framvegis.
Líklegast vegna þess að meginrökin fyrir tilveru ÁTVR er einfaldlega sú að hún er búin að vera svo lengi til.
- Róleg og aflslöppuð aðgerðaráætlun í loftslagsmálum - 28. júlí 2021
- Í hvernig umhverfi blómstrar nýsköpun? - 8. júní 2021
- Viðskipti á tímum Covid - 20. maí 2021