Í upphafi vetrar eygðu stuðningsmenn knattspyrnuliðs Napólí von um að félagið gæti velgt norðanmönnum frá Tórínó og Mílanó undir uggum og átt möguleika á að hampa meistaratitli í vor.
En það fór ekki svo. Eftir því sem liðið hefur á tímabilið hefur vonleysið náð undirtökunum á San Paolo vellinum og það endaði líka með því að knattspynurstjórinn Carlo Ancelotti var rekinn. Þjálfarinn æmti hvorki né skræmti undan þeim málalokum þótt hann hafi kannski ekki beint verið glaður. Hann horfðist í augu við árangurinn og sagði við fjölmiðla að það væri fólgið í eðli starfs knattspyrnustjóra að þurfa alltaf að vera tilbúinn til þess að pakka ofan í tösku og fara á nýjan stað. Og þegar þolinmæði félagsins þvarr endanlega þá tókust menn í hendur, Ancelotti fór í frakkann, tók pokann sinn og pantaði flug til Liverpool til þess að taka við Everton; örðu liði sem hafði valdið vonbrigðum.
Það geta verið alls konar ástæður fyrir því að liði gengur vel eða illa og hvort það veldur vonbrigðum eða kemur skemmtilega á óvart. Ekki er ósennilegt að slæman árangur Napólí undir stjórn Ancelotti í vetur megi að einhverju leyti rekja til þess að hann hafi ekki valið réttu leikmennina í liðið. Vera má að annar þjáfari hefði valið öðruvísi og betur, menn sem voru í betra ásigkomulagi, spiluðu betur saman eða voru betur stemmdir. Endurskoðun á liðsuppstillingu yrði líklega meðal þess fyrsta sem nýr stjóri Napólí, Gennaro Gattuso, kæmi til með að velta fyrir sér og án vafa fengi hann umtalsvert svigrúm til þess að beita sinni eigin dómgreind, enda engin hætta á öðru en að hann hefði algjöran metnað til að taka ákvarðanir einungis út frá því hvað hann teldi líklegast til árangurs—því það er útfrá árangrinum og litlu öðru sem störf hans verða dæmd.
Það er því oftast ekki mikið rætt um það í samhengi við brottrekstur knattspyrnustjóra hvort þeir hafi beitt réttri eða fagmannlegri aðferð við að velja í liðið. Það þætti skrýtin málsvörn árangurslítils fótboltaþjálfara að hann hafi fylgt faglegum ferlum og notið ráðgjafar utanaðkomandi aðila og mannauðsráðunauta við val á leikmönnum; því hvort sem hann velur í liðið með því að draga nöfnin upp úr sjóhatti á kojufylleríi eða reikna þau út í töflureikni með gervigreindarhugbúnaði þá er það árangurinn einn sem gildir.
Þessu er þveröfugt farið í mannaráðningum hins opinbera, að minnsta kosti á Íslandi. Þar hefur það nákvæmlega engin áhrif á stöðu og starfsöryggi yfirmanna hvort rétta fólkið er valið í störf, einungis að farið sé eftir réttum verkeferlum við ákvarðanatökuna. Í slíkum ráðningarferlum er líkega mun meiri orku sólundað í að verja sig fyrir hugsanlegri gagnrýni á verkferlið heldur en að leggja raunverulegt mat á það hvort leikmaðurinn sem velja á í liðið passi við það hlutverk sem henni eða honum er ætlað að sinna.
Vissulega er að sumu leyti ólíku saman að jafna; en alls ekki öllu. Ótrúlegur tilkostnaður og þrætumál í tenglsum við mannaráðningar hins opinbera draga kannski úr likum á einni tegund af spillingu, en það er líka spilling á kerfinu ef stjórnendur geta ekki beitt sinni bestu dómgreind til þess að ráða til starfa einstaklinga sem þeir telja að stuðla muni best að bættum árangri.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021