Staða íslenskra drengja í skólakerfinu er áhyggjuefni sem hefur verið ítrekað bent á og talsvert rætt undanfarið. Soffía Kristín fjallaði til að mynda um þennan vanda hér á Deiglunni fyrr á árinu.
Flestum er kunn sú staðreynd að niðurstöður PISA-kannana sýna að um 34% íslenskra drengja geta ekki lesið sér til gagns, það er að þeir eiga erfitt með að skilja þann texta sem þeir eiga að lesa í skólanum. Þannig koma þeir mun verr út en íslenskar stúlkur og verr en drengir annars staðar í Evrópu.
Fyrr á árinu birtist áhugavert viðtal í Íslandi í dag við Tryggja Hjaltason hjá CCP sem hefur látið sig stöðu drengja í skólakerfinu varða og lagst í rannsóknarvinnu við að greinaþessa stöðu ítarlega. Tryggvi bendir á niðurstöður rannsókna um að drengir upplifi að þeim sé minna hrósað en stúlkum, þeir upplifa minni stuðning frá kennurum og þeir sjá ekki jafn mikinn tilgang með náminu og stúlkur.
Það er ekki ólíklegt að þessi upplifun hafi áhrif á sjálfstraust þessara drengja og geri það að verkum að þeir verði utanveltu í skólakerfinu. Það fylgir þeim alla þeirra skólagöngu og þegar kemur að háskólanámi eru karlar aðeins þriðjungur nemenda. Aðrir hafa svo bent á hversu víðtækar félagslegar afleiðingar þetta geti í raun haft fyrir þessa drengi. Prófessorarnir Hermundur Sigmundsson og Viðar Halldórsson bentu á það í grein í Morgunblaðinu í nóvember á síðasta ári hvernig vandi ungra drengja í skólakerfinu geti haft áhrif á þá síðar meir. Ungir karlmenn eru t.d. líklegri til að nota eiturlyf, beita ofbeldi, lenda í fangelsi, vera gerendur og þolendur eineltis en ungar konur. Síðan er sú sorglega staðreynd að sjálfsvíg er algengasta dánarorsök ungra karlmanna á Íslandi.
Vandamálið virðist vera að stór hluti drengja finnur sig illa í skólakerfinu, líður ekki vel í skólanum og eru þar af leiðandi andlega fjarverandi. Eru einhverjar líkur á því að þeir læri eitthvað í þannig umhverfi? Það er nefnilega lítið umburðarlyndi fyrir þessum drengjum í skólakerfinu. Þeir eru álitnir erfiðir, til vandræða og truflandi fyrir bekkinn. Getur verið að aðstæðurnar, sem þeim eru skapaðar, valdi vanlíðan og meiri nauðsyn sé á að mæta þeim þar sem þeir eru, í staðinn fyrir að þvinga þá inn í fastmótaðan ramma skólakerfisins sem þeir passa illa inn í. Þær kröfur sem eru gerðar til þeirra að sitja hljóðir og prúðir stóran hluta af deginum henta þeim ekki og eru ekki á þeirra forsendum heldur einhverra annarra. Þetta skapar námsleiða sem byrjar oft hjá drengjum á fyrstu árum grunnskólans og fylgir þeim upp grunnskólann.
Í viðtalinu við Tryggva kom fram að einhver tilraunaverkefni væru farin af stað og kennarar væru margir meðvitaðir um vandann. En þar erum við einmitt komin að kjarna málsins sem er tregða skólakerfisins til að prófa nýja hluti eða skapa rými fyrir frelsi til að prófa nýjar aðferðir.
Kerfið virkar nefnilega þannig að allir skulu passa inn í rammann sem er gamalgróið stofnanavætt kerfi. Þeir sem ekki passa þar inn í skulu gjöra svo vel að bjarga sér sjálfir. Hversu marga unga karlmenn höfum við heyrt tala um að það sem þeir taki með sér frá skólakerfinu er hversu heimskir þeir séu, þeir geti ekki lært, þeir séu ómögulegir og til vandræða? Svo erum við hissa á því hvaða staða ungra karlmanna er almennt slæm í íslensku samfélagi.
Skólakerfið í núverandi mynd er ekki náttúrulögmál. Það er mannanna verk og líkt og öllum mannanna verkum má breyta því, bæta það og jafnvel kollvarpa því. En tregðan við það sem er utan hins hefðbundna er mikil. Er ekki einmitt tími til að leita annarra leiða þegar mælingar sýna ítrekað að staðan í núverandi skólakerfi er ekki góð og í raun að versna, skv. PISA mælingum.
Í því samhengi er áhugavert að benda á að í umfjöllun um aðferðir í kennslu og stöðu drengja í skólakerfinu er sjaldan leitað eftir sjónarmiðum þeirra sem gera hlutina á annan hátten hið hefðbundna kerfi samþykkir. Hjallastefnan er til dæmis að fara mjög óhefðbundnar leiðir í kennslu drengja, með góðum árangri. Þar er unnið eftir þeirri hugsun að mæta hverju barni þar sem það er statt og skapa drengjum umgjörð sem er á þeirra eigin forsendum en ekki á forsendum kennara eða kerfis.
Þar er langmest unnið í kynjaskiptum hópum en Tryggvi bendir réttilega á í áðurnefndi viðtali að það er líffræðilegurmunur á kynjunum sem getur áhrif á hvernig kynin læra og nálgast verkefni. Því býður leið Hjallastefnunnar upp á að mæta þeim mun og beita ólíkum aðferðum við kennslu stúlkna og drengja. Erfitt er kannski að mæla muninn á þessari aðferðarfræði og hinni hefðbundinni nálgun en þó má sjá að í samræmdum könnunarprófum koma Barnaskólar Hjallastefnunnar vel út og hafa yfirleitt mælst vel yfir landsmeðaltali í bæði íslensku og stærðfræði undanfarin ár.Það má sjá í þeim rannsóknum sem hafa verið gerðar á starfi Hjallastefnunnar að ekki er almennt séð mikill munur á Hjallaskólabörnum og öðrum börnum, en þær niðurstöður sem liggja fyrir sýna að námsárangur fyrrum Hjallastefnubarna mælist betri, hugmyndir þeirra um kynhlutverk mælast opnari og óbundnari, sjálfsmynd þeirra virðist sterkari og einelti mælist síður í grunnskólum Hjallastefnunnar. Þá mælist ánægja foreldra meiri með Hjallastefnuskóla heldur en annarra skóla.
Það er ekki þar með sagt að taka eigi upp aðferðarfræði Hjallastefnunnar í öllum skólum en það þarf að losna við þessa andúð á því sem er utan hins hefðbundna skólakerfis og horfa á það sem er vel gert og hvort eitthvað mega læra af því. Það er auðvitað þannig að í íslensku skólakerfi er fullt af frábæru fólki sem brennur fyrir starfinu sínu. Tryggvi talar einmitt um að kennurum sé þröngur stakkur sniðinn þegar kemur að nýsköpun. Þar komum við aftur þessum þrönga ramma sem erfitt virðist vera að víkja frá. Það er athyglisvert hvað lítið heyrist frá hinu akademíska umhverfi, þeim sem bera ábyrgð á menntun og þjálfun kennara. Það virðist semmenntavísindasvið HÍ standi alveg utan við þessa umræðu.
Ég held við þurfum ekki á fleiri vinnuhópum og tilraunaverkefnum að halda heldur því að hugsa skólakerfið algjörlega upp á nýtt og búa til kerfi sem mætir börnum dagsins í dag og býr þau undir þeirra framtíð en ekki kerfi sem eru búið til með hagsmuni einhverra annarra í huga. En til þess þarf hugmyndaauðgi, hugrekki og kjark.
Hvað þarf hlutfall drengja sem líður illa í skólanum og getur ekki lesið sér til gagns að verða hátt til að við séum tilbúin að gera alvöru breytingar á skólakerfinu okkar?
- #FreeBritney - 22. júlí 2021
- Næstu skref í fæðingarorlofsmálum - 6. júlí 2021
- Hvað tökum við með okkur úr faraldrinum? - 23. júní 2021