Í læknaverkfallinu í vetur var yfirgnæfandi stuðningur í samfélaginu við kröfur og verkfallsaðgerðir lækna. Það sama verður ekki sagt um núverandi verkfallsaðgerðir starfsfólks í heilbrigðisþjónustu. Hvað veldur?
Sú harka sem birtist okkur í fréttum um helgina af verkfallsaðgerðum geislafræðinga gerði lítið til að efla samúðina með því verkfalli. Reyndar varð umræðan svo harkaleg að formaður félags geislafræðinga varð að svara því til í fréttum að sér fyndist vegið að heiðri geislafræðinga og félags þeirra. Þannig virðist aukin ógn við öryggi sjúklinga ekki vera rétta leiðin til að tryggja verkfalli stuðning.
Eru almannatenglarnir sem nú hafa verið ráðnir til vinnu ekki jafnöflugir og þeir sem stýrðu umræðunni í vetur?
Þurfa allar stéttir að eiga sinn „lækna-Tómas“ til að eiga séns í samúðina?
Eða getur hreinlega verið að almenningur hafi stutt af heilum hug þær kröfur sem læknar gerðu um launahækkanir í vetur en því sé ekki til að dreifa nú? Samkvæmt skoðanakönnunum sem unnar voru í vetur studdu um 70% landsmanna að læknar fengju meiri launahækkanir en aðrar starfsstéttir. Hér kann auðvitað fleira að spila inn í en að landsmönnum hafi fundist launakröfur lækna hafa verið sanngjarnar. Þannig var mikil umræða í vetur um að læknar mundu ekki fást til starfa á landinu ef ekki yrði orðið við kröfum þeirra. Sú staða náði reyndar miklu lengra en að vera „umræða“ enda margir landsmenn sem kannast við það af eigin raun að ekki sé hægt að framkvæma aðgerð eða skoðun fyrr en í næstu viku eða þarnæstu af því að „læknirinn“ sem gerir hana starfar hluta af tíma sínum í Svíþjóð eða Noregi. Læknar voru þannig í þeirri einstöku stöðu að geta bent á að laun þeirra yrðu að vera samkeppnishæf við laun starfsbræðra þeirra erlendis en ekki bara laun annarra starfsstétta hér á landi.
Þannig eru það ekki bara afleiðingar verkfalls á starfsemi heilbrigðiskerfisins og öryggi sjúklinga sem ráða því hvort stuðningur er við verkfall eða ekki, heldur miklu frekar hvort stuðningur er við þær kröfur sem verið er að gera. Hvort stuðningur sé við þær kröfur sem verið er að gera kann svo aftur að ráðast af fleiri þáttum en beinhörðum krónum og aurum.
- Farsæld barna - 28. apríl 2021
- Barnavernd og efnahagskreppur - 23. mars 2021
- 165 lögverndaðar starfsgreinar - 25. nóvember 2020