Hvað getum við gert?

Fréttir af flóttamönnunum frá Sýrlandi hafa snert streng í hjarta margra og hræðilegar myndirnar sem hafa birst af látnum börnum á flótta undan stríðsátökum hafa vart látið nokkurn mann ósnortinn. Íslendingar hafa gert skammarlega lítið í gegnum árin til þess að leggja sitt lóð á vogaskálarnar til þess að aðstoða flóttamenn.

 

Frá því Ísland byrjaði að taka á móti flóttamönnum árið 1956 höfum við samtals tekið á móti 511 einstaklingum. Þetta er vandræðaleg staðreynd. Sérstaklega ef við berum okkur saman við frændur okkar í Danmörku. Þar koma um 12.000 flóttamenn til landsins á ári.

 

Já, en Danir eru miklu fleiri en við og bla bla, gæti einhver sem er sjúklega spenntur yfir nýju Háskólasjúkrahúsi sagt. Við getum ekki borið okkur saman við þá. Obbo bob. Í Árósum, sem er um það bil jafn fjölmennt samfélag og allt Ísland, taka þeir á móti 516 flóttamönnum, bara árið 2015. Það er meira en við höfum gert frá upphafi.

 

Þetta er allt einstaklega aumingjalegt fyrir Íslendinga sem vilja vera hluti af aþjóðasamfélaginu en lokum svo augunum við því sem er að gerast úti í heimi og gefum ekki nógu mikið til baka.

 

Eins og nærri má geta þegar um alvarlega og sorglega hluti er rætt í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum getur umræðan afvegaleiðst. Hvort birta á myndir af látnum börnum á samfélagsmiðlum vegna þess að sumum finnst það hræðilegt er ekki aðalatriðið.

 

Ekki heldur hvort Vestmanneyingar, sem borga skatta og skildur á Íslandi, sem lentu í náttúruhamförum 1973 og þurftu að flyja upp á menginland Íslands eru flóttamenn eða ekki. Meginatriðið er hvernig getum við, ein ríkasta þjóð í heiminum, hjálpað þessu fólki sem er að flýja stríð í heimalandi sínu.

 

Fjölmargir hafa tekið sig saman og boðið fram aðstoð sína undir þessari yfirskriftinni Kæra Eygló Harðar – Sýrland kallar. Einnig er hægt að gefa peninga í söfun UNICEF á Íslandi fyrir börn á flótta frá Sýrlandi stendur enn yfir. Við getum öll lagt lið, hvert og eitt.

 

Ljóst er hins vegar að stjórnvöldum er ekki til setunnar boðið og verða að bregðast við. Við getum gert svo miklu meira en til stendur að gera í dag.

Latest posts by Kristín Hrefna Halldórsdóttir (see all)