Það var á virkum morgni og Covid nýbyrjað að spila út öllum sínum sterkustu spilum. Ég gekk inn í gamalgróna skóverslun í Kringlunni og byrjaði að skoða mig um. Ég er ekki sú sterkasta á svellinu þegar kemur að kaupum á barnaskóm og hafði heldur ekki mikinn tíma svo ég fór að leita að starfsmanni. Áttaði mig þá á því að það var heldur til hljótt inni í búðinni og þar voru engir aðrir viðskiptavinir, hvað þá starfsfólk, svo ég kallaði.
-Halló, er einhver hérna?
Ekkert svar. Þetta var sérstakt. Hurðin var ólæst, öll ljós kveikt, en enginn heima.
Rétt í því gengur kona inn í búðina, horfir á mig eins og eitthvað alvarlegt sé að mér.
-Bíddu, hvað ertu að gera hérna? Það er lokað!
Ég var í smá tíma að átta mig á því sem hefði gerst og segi svo:
-Kringlan auglýsir opnunartíma frá tíu, klukkan er korter yfir, er ekki opið?
-Nei, við opnum ekki fyrr en klukkan ellefu.
-Já en auglýstur opnunartími er tíu, hér voru öll ljós kveikt og hurðin ólæst.
-Já, en hurðin var ekki opin. Þú hefðir átt að sjá að þessi búð er ekki opin.
Ég hafði vissulega samband við yfirmann og ræddi þessa uppákomu morgunsins. Tjáði þeim að ég hefði farið inn í búðina fyrr um morguninn og verið rekin öfug út aftur. Yfirmaðurinn var alveg á því að undirmaðurinn hefði ekkert sagt á þessa leið og staðan nefnilega þannig að rekstarstjórar þessarar verslunar væru ósammála stjórn Kringlunnar um það að búðir skyldu opna svona snemma á Covid tímum. Þess vegna væri ekki opnið hjá þeim.
Einmitt það. Ég braust inn, þið eruð í stríði og ég má gjarnan koma aftur seinna. Við skulum aðeins sjá til með það.
Þessi litla saga er því miður allt of skýrt dæmi um þjónustustig á Íslandi. Þrátt fyrir að mörg fyrirtæki séu komin mikið lengra þá lúra þau þarna, bæði nýju sem og gamalgrónu fyrirtækin sem eru á þeirri skoðun að viðskiptavinurinn sé heppinn fyrir það eitt að fá að eiga við þau viðskipti. Ekki öfugt. Íslenskir smásöluaðilar hafa í mörg ár kvartað yfir aukinni samkeppni við erlenda netverslun. Þeim er enginn vorkunn þegar atvik sem þessi koma ítrekað upp.
En svo finnast langt um alvarlegri atvik. Í liðinni viku bárust fréttir þess að kröfur smálánafyrirtækis hefðu verið keyptar upp af nýju fyrirtæki og endurvaktar. Þúsundum viðskiptavina voru birtar, að stærstu leiti, ólöglegar kröfur og greiðslufresturinn enginn. Þar var treyst á að hræðsla fólks við innheimtuaðgerðir leiddu fólk út í að greiða kröfurnar. Neytendasamtökunum bárust yfir 1600 skilaboð varðandi málið en hröð og örugg viðbrögð samtakanna urðu til þess að kröfurnar voru felldar niður. Við vitum vissulega ekki enn hvað verður, en þessar hörðu aðgerðir þurfti til.
Sjálf átti ég svo, fyrir hönd viðskiptavina, samskipti við stórt fyrirtæki í vikunni. Fyrirtæki sem gefur öllum landsmönnum lánshæfiseinkunnir og er þar með oft í þeirri stöðu að meta það hvort fólk er yfir höfuð lánshæft eða ekki. Þar gerði ég athugasemdir við starfshætti og léleg svör en þrátt fyrir ítrekanir héldu mér áfram að berast stöðluð svör.
Slíkt kemst ekki nálægt því að kallast þjónusta og er alvarlegt þegar fyrirtæki er falið það vald að geta dæmt einstaklinga fjárhagslega úr leik.
Þau eru ótal mörg atvikin sem gera þarf athugasemdir við. Og vissulega er ‘meðvitaði neytandinn’ ekki vinsælasta hlutverkið. En ekki gleyma því að það er eitt af þeim allra mikilvægustu. Eins og dæmin hér að ofan sýna eru atvikin ólík og mis alvarleg, en ekkert lagast ef við látum ekki í okkur heyra.
Á Íslandi verður að myndast eðlilegt samband neytenda og söluaðila. Svona til þess að þetta endi ekki þannig að okkur verði öllum kastað út úr verslununum fyrir það eitt að vera þar.
- Eitt en ekki annað - 21. maí 2021
- Hvað ertu að gera hérna? - 22. apríl 2021
- Hvernig er fattið? - 11. mars 2021