Í heitum potti í sundlaug Seltjarnarness sumarið 2019 hitti ég tvo kunningja mína. Það kom til tals hvar ég átti heima, en það var á Seltjarnarnesi. Annar þeirra kvaðst vita til þess að hægt væri að fá boð í swinger-klúbb í götunni minni. Til þess að fá aðgang þyrfti að láta sjá sig með ananas í fanginu í ávaxtadeild Hagkaupa á Eiðistorgi á milli 17 og 18 á föstudögum. Sá sem gerði það ætti von á að fá boðskort heim til sín með nánari upplýsingum um tímasetningu og viðeigandi klæðnað. Annar viðmælenda minna hafði reynslu af þessu – hann fékk boðskortið en lét ekki verða af því að mæta. Ég tek fram að ég falaðist ekki sérstaklega eftir þessum upplýsingum.
Forvitnin varð þó mónógamismanum yfirsterkari og ákvað ég að láta verða af því að taka ananas í fangið á tilsettum tíma. Það var svo næsta skref, að ræða við frúna um hvað skyldi gera ef boðskortið skyldi berast. Það barst þó aldrei. Þá hafði ég ef til vill ekki tekið það með í reikninginn að sá sem sækist eftir því að ganga í swinger-klúbb þarf líklega að uppfylla útlitslegar kröfur. Við skulum láta það liggja á milli hluta hvort það atriði hafi ráðið úrslitum. Nokkrum mánuðum síðar var þessum möguleika á að opna hjónabandið hér á Nesinu skúbbað í fjölmiðla. Ég veit ekki hvort þetta standi enn til boða í dag. Líklega er búið að breyta merkjakerfinu.
Áður en þið fyllið inboxið mitt af swingbeiðnum vil ég upplýsa að ég er ánægður með hjónabandið mitt eins og það er og hef engan áhuga á að opna það með neinum hætti. Ég hef þó fullkominn skilning á því að sumir hafi þörf fyrir það. Ég er fylgjandi frelsi í þessum málum og styð þær hugmyndir sem hafa komið fram um að fleiri en tveimur verði gert kleift að ganga í hjúskap. Sem lögfræðingur hef ég þó töluverðan áhuga á því hvernig breytingar á hjúskaparlögum yrðu útfærðar til að gera þetta mögulegt. Fyrir það fyrsta velti ég því fyrir mér hvort það verði einhver efri mörk á fjölda félaga í hjúskaparfélagi. Spurning er þá hvort Swingerklúbbur Seltjarnarness geti breytt félagaformi sínu í hjónabandsfélag (og myndi þá heita „Swingerklúbbur Seltjarnarness hjbf.“). Mér er sagt að biðtími í golfklúbbinn hér á Nesinu sé um sex ár. Vonandi verður hann styttri í hjónabandsfélagið.
- Hugleiðingar mónógamista - 28. maí 2021
- Við erum öll Samgöngustofa - 24. mars 2021
- Konráð hjá Deiglunni hér - 8. janúar 2021