Á þriðju hæð í ferköntuðum steypukumbalda á Ruschestraße í austurhluta Berlínar stendur skrifstofa. Skrifstofan er nokkuð stór; þar er mikið skrifborð, fundarborð og lítil setustofa, en að öðru leyti lætur hún lítið yfir sér. Það er upplitað parkett á gólfinu, utan blettinn umhverfis skrifborðið við fjarendann sem er hulinn rauðu gólfteppi. Húsgögnin eru íburðarlítil, úr sama upplitaða viðnum og parkettið, með bláum bómullarsessum og minna helst á innbú endurskoðunarskrifstofu frá 9. áratugnum.
Skrifstofan tilheyrði Erich Mielke, ráðherra þjóðaröryggis, þar til Austur-Þýskaland opnaði landamæri sín, en í dag heimsækja hana fáir aðrir en ferðamenn, enda hefur hún þjónað hlutverki minnisvarða um grimmdarverk Stasi síðan. Það er yfirþyrmandi tilfinning að ganga um húsaþyrpinguna sem áður hýsti höfuðstöðvar þjóðaröryggisráðuneytisins. Þegar múrinn féll störfuðu um 90 þúsund manns í þjónustu ráðuneytisins við það eitt að stjórna hugsunarhætti samborgara sinna, að tálma frelsi þeirra til að hugsa sjálfstætt og tjá skoðanir sínar.
Vopnið sem útsendarar Stasi beittu var ótti. Óttinn um að vera stöðugt undir eftirliti, óttinn við stofnanavæddar ofsóknir og róg ríkisvaldsins, óttinn um að rangt orð við ranga manneskju gæti haft afleiðingar fyrir líf og heilsu viðkomandi. Rétt eins og beita má rimlum og hlekkjum til þess að fangelsa manneskjur var þessi ótti notaður til þess að fangelsa hugsanir þeirra; til þess að koma í veg fyrir að þeim yrði komið í orð og þær næðu þar með að frjóvga hugarheim annarra og ná fótfestu. Það er kjarninn í hvers konar tálmun tjáningarfrelsisins; hún fangelsar sjálfstæða hugsun þótt líkaminn gangi ef til vill frjáls, því hugsun sem ekki má færa í orð er eins og fugl án vængja.
Fyrir um þremur vikum stóð ég á miðju skrifstofugólfi Mielke og reyndi að ímynda mér hvernig það væri að geta ekki átt opinská skoðanaskipti við vini mína eða skrifað pistil á borð við þennan án þess að eiga á hættu að útsendarar ríkisins tækju mig höndum. Það er erfitt annað en að fyllast lotningu gagnvart tjáningarfrelsinu þegar maður reynir að setja sig í spor Austur-Þjóðverja – sömu lotningu og nokkuð hefur farið fyrir í kjölfar þess að Samtökin ‘78 ákváðu að kæra tíu ummæli sem þau telja að falli undir hatursorðræðu til lögreglu. Það virðist nefnilega vera nokkuð útbreidd skoðun að tjáningarfrelsið eigi að vera algilt. Af lærdómi sögunnar er auðvelt að sjá aðdráttarafl þeirrar hugmyndar þegar hún er borin saman við hið gagnstæða ástand.
Þegar betur er að gáð er þó grynnra á hinu algilda tjáningarfrelsi en virst gæti. Þótt allir sem ég hef rætt hatursorðræðu við segjast vera hlynntir tjáningarfrelsinu og eru yfirleitt á móti því að skerða það í tilviki hommahatara hef ég enn ekki hitt neinn sem vill afnema bókstaflega allar skorður við tjáningarfrelsi, t.d. í tilviki meiðyrða, hótana um ofbeldi eða rofs friðhelgis einkalífs. Enda held ég að það sé bærilegur samhljómur um að jafnvel þótt orð geti ekki talist ofbeldi að því leyti að þau meiði líkamlega, þá geti þau engu að síður valdið einstaklingi svo miklum skaða að ósekju að það sé réttlætanlegt að gera mjög þröngt skilgreindar undantekningar á tjáningarfrelsinu til þess að verja einstaklinga hvern fyrir öðrum. Jafnvel frjálslyndi hugsuðurinn John S. Mill, sem færði sannfærandi rök fyrir því að rangar skoðanir yrðu að fá að koma fram óhindrað til jafns við réttar, því öðruvísi gætum við vart greint á milli þeirra eða komist að hinu sanna, taldi að skaði eða tjón annars væri gild ástæða til að skerða tjáningarfrelsi, rétt eins og annað frelsi. Það eru nefnilega ekki mikið skárri örlög að þurfa að óttast ofsóknir og róg meðborgara sinna en ríkisins.
Um leið og á það er fallist vandast hinsvegar málin. Tjáningarfrelsið er ekki lengur svarthvítt. Þess í stað hefur myndast grátt svæði á jaðri tjáningarrófsins, en það er á þessu sama gráa svæði sem hatursorðræða deilir heimkynnum sínum með meiðyrðum og rofi á friðhelgi einkalífs. Og það verður að segjast eins og er – svæðið er erfitt viðfangs, enda mörkin á milli lögverndaðra skoðanaskipta og skaðlegs rógs ekki alltaf skýr. Á einn bóginn er síðan rétt að tálmun tjáningarfrelsisins er hál braut, en það má ekki gleyma því að hatursorðræða er það líka. Um það vitna bæði gular stjörnur og bleikir þríhyrningar.
Umræða um samkynhneigða á Íslandi
Það þarf engum að dyljast að lítill hópur Íslendinga leyfir sér að viðhafa óskemmtileg ummæli um samkynhneigða. Í gleðigöngunni 2014 gerðu Samtökin ‘78 tilraun í anda Mills til þess að vekja athygli á ummælum sem látin höfðu verið falla á opinberum vettvangi; að leiða fram ranga skoðun til þess að styrkja hina réttu.
Einn hafði óskað þess að 400 kílógramma nauti yrði sleppt lausu í gleðigöngunni og vonaðist til þess að það bryti gönguna upp og styngi þátttakendur á hol. Annar beindi því til faggaógeða að þau þyrftu að fara að láta börn í friði. Sá þriðji vildi varpa fólki sem tengdist grein um réttindi samkynhneigðra á bál á meðan sá fjórði lét sér nægja að vilja takmarka réttindi þeirra með því að banna hommatittum og lessupjötlum að ganga í það heilaga.
Kannski er það samfélaginu til góðs að haturberar hafi einhvern vettvang til þess að saka samkynhneigða um glæpi og hvetja til ofbeldis gagnvart þeim. Kannski er það skoðun sem þarf að heyrast að hommar séu barnaníðingar og best væri ef þeir yrðu reknir á hol af 400 kílógramma nauti eða brenndir á báli – vonandi hjálpar það einhverjum að gera upp við sig hvort hið gagnstæða gæti verið réttara. Og kannski eru hagsmunir þeirra sem svona tala af því að spúa hatri svo miklir að réttlætanlegt sé að berskjaldaðir hópar greiði fyrir frelsi þeirra með velferð sinni, líkt og sjálfsvígstíðni samkynhneigðra ungmenna og aðrir hlutlægir kvarðar á lífsgæði samkynhneigðra benda til að geti verið raunin. Ég lái engum að vera þeirrar skoðunar, en það þarf þá að horfast í augu við að frelsið er dýru verði keypt.
Mill hafði þó að hluta til rétt fyrir sér; sem betur fer eiga samkynhneigðir sér marga málsvara sem mæta röngum skoðunum af þessu tagi með kærleik og upplýsingu að vopni og þannig hafa stærstu sigrarnir í mannréttindabaráttu samkynhneigðra unnist. Margfalt fleiri afneita því viðhorfi sem birtist í efnisgreininni hér að ofan en taka undir það. Þótt þakklæti sé mér auðvitað ofarlega í huga held ég að ég tali fyrir munn allra samkynhneigðra þegar ég segi að helst vildi ég ekki þurfa að eiga bandamenn sem nenna að taka slaginn. Frekar vildi ég fá frið fyrir rökræðum um tilverugrundvöll minn og réttindi – að ekki sé minnst á aðra hópa sem eiga sér ef til vill ekki jafnöfluga málsvara.
Það vekur mann til umhugsunar um hvort það geti hugsast að hið frjálsa og opna samfélag, andstæða þess samfélags sem Mielke reyndi að byggja, grundvallist ekki endilega á prinsippinu um algjört tjáningarfrelsi sama hvað það kostar og voninni um að málsvarar réttra sjónarmiða hafi betur að lokum, heldur á jafnvægislist ólíkra hagsmuna; af því að njóta óskerts tjáningarfrelsis annars vegar og af því að geta leitað hamingjunnar á eigin forsendum í sæmilegu skjóli fyrir ofsóknum annarra hins vegar. Að minnsta kosti á ég erfitt með að sjá að fyrrnefndu hagsmunirnir hljóti sjálfkrafa að trompa þá síðarnefndu, en löggjöf sem nú er í gildi um hatursorðræðu og grundvallast á viðhorfi frjálslyndu hugsuðanna um frelsi, svo framarlega sem enginn beri skaða af, bendir til þess að löggjafinn sé á sama máli.
Niðurstaða
Ummælin sem Samtökin ‘78 hafa kært til lögreglu hafa hvergi verið birt, svo það er erfitt fyrir hvern og einn að gera upp við sig hvort þau flokkist raunverulega undir hatursorðræðu og ofsóknir, eða hvort þau séu hluti af þeim lögvernduðu fordómum sem samkynhneigðir eru nauðbeygðir að sætta sig við sem hluta af því að deila frjálsu samfélagi með ólíku fólki. En jafnvel þótt þau hefðu verið gerð opinber væri staðreyndin samt sú að það er ómögulegt að skapa einn hlutlægan mælikvarða á hvenær röng og fordómafull skoðun verður að refsiverðum ummælum sem sannarlega skaða aðra. Á meðan einhverjar skorður eru settar við tjáningarfrelsinu og við föllumst þar með á að það sé þrátt fyrir allt ekki algilt – að hagsmunir einstaklingsins geti vegið þyngra en rétturinn til að segja hvað sem manni dettur í hug, sama hversu miklum skaða það veldur – kemur til kasta dómstóla. Og fyrst Samtökin hafa ekki unnið sér annað til saka en að spyrja af yfirvegun hvar skurðpunktur þessara ólíku hagsmuna liggur fyrir lögum þykir mér langt seilst að álása þeim eða setja þau í flokk með Mielke.
- Borg án sýningarstjóra - 7. desember 2015
- Kombakk plötunnar - 25. ágúst 2015
- Hugleiðing um tjáningarfrelsi - 4. maí 2015