Í Reykjavík eru starfræktir sex sjálfstætt starfandi grunnskólar sem hver hefur sína sérstöðu og áherslur. Sjálfstætt starfandi skólar auðga flóru skólakerfisins og bjóða börnum og foreldrum þeirra upp á val. Nú virðist því miður stefna í að einn af þessum skólum þurfi að hætta starfsemi sinni, Barnaskóli Hjallastefnunnar í Reykjavík. Það yrði mikil afturför í skólamálum í Reykjavík.
Vandi skólakerfisins á Íslandi er mörgum kunnur og hefur höfundur fjallað áður um stöðu drengja í skólakerfinu. Einn helsti vandinn er tregðan gagnvart því sem er utan hins hefðbundna. Sjálfstætt starfandi skólar bjóða gjarnan upp á aðra nálgun en hefðbundnir skólar og því mikilvægir til að tryggja frelsi og val. Besta nálgunin er að geta mætt hverju barni þar sem það er statt.
Frelsi og val í skólamálum virðist hins vegar lítið eiga upp á pallborðið hjá meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur. Sjálfstætt starfandi skólar, bæði leik og grunnskólar fá lægri framlög frá borginni en aðrir skólar, þ.e. lægra framlag fylgir hverju barni. Framlag borgarinnar með hverju barni er þannig háð því hvers konar rekstrarform er á skólanum sem barn sækir. Skert framlag fylgir því barni, kjósi foreldrar þess að setja það í sjálfstætt starfandi skóla. Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi, hefur ítrekað lagt það til í borgarstjórn að jöfn opinber framlög fylgi öllum börnum í skólakerfinu, óháð rekstrarformi þess skóla sem þau sækja. En enginn áhugi virðist vera á því hjá meirihlutanum.
Neikvætt viðhorf í garð sjálfstætt starfandi skóla hefur verið gegnum gangandi hjá meirihluta Reykjavíkurborgar um langan tíma og í raun virðist það vera innan kerfisins. Það birtist í fleiru en ójöfnu framlagi með börnum. Hvergi er reynt að greiða götu þeirra sem vilja bjóða upp á nýja nálgun eða aðrar lausnir en hefðbundnir skólar í Reykjavík bjóða upp. Þvert á móti virðist reynt að leggja stein í götu þessara skóla. Samt er það staðreynd að sjálfstætt starfandi skólar hafa mætt eftirspurn sem Reykjavíkurborg hefur ekki getað sinnt, t.d. þegar kemur að leikskólaplássum. Um 1200 börn í Reykjavík eru í sjálfstætt starfandi leikskólum. Við getum rétt ímyndað okkur biðlistana á leikskólana ef þessara skóla nyti ekki við.
Barnaskóli Hjallastefnunnar í Reykjavík hefur undanfarin ár starfað í Öskjuhlíðinni og rekið þar leik og grunnskóla. Það hefur alltaf legið fyrir að skólarnir þyrftu að víkja af lóðinni á einhverjum tímapunkti og hefur Hjallastefnan beðið eftir að fá úthlutað nýrri lóð frá Reykjavíkurborg. Það sem Reykjavíkurborg hefur boðið er lóðarvilyrði til nýbyggingar á öðrum stað í Öskjuhlíðinni. Sá staður er fjarri öllum almenningssamgöngum. Aðstæður og landhalli eru líka þess eðlis að uppbygging yrði mjög kostnaðarsöm. Þá væri heldur ekki hægt að nýta núverandi skólabyggingar. Þessi tillaga Reykjavíkurborgar sýnir glöggt þann hug sem meirihlutinn ber til sjálfstætt starfandi skóla. Að meirihluti borgarstjórnar, sem leggur ofuráherslu á almenningssamgöngur, bjóði sem valkost fyrir skóla stað, þar sem engar almenningssamgöngur liggja, er fráleitt og í raun fyrir neðan allar hellur. Þetta sýnir ekkert annað en fordóma gagnvart ákveðnu rekstrarformi og fordóma gagnvart nýjum hugmyndum og öðrum leiðum en þeim hefðbundnu.
Meirihluti borgarstjórnar lokaði Korpuskóla í Grafarvogi á síðasta ári þrátt fyrir mikla óánægju foreldra. Hjallastefnan óskaði eftir því að hefja grunn- og leikskólastarfsemi í húsnæðinu en meirihlutinn sýndi þeim hugmyndum lítinn áhuga. Meirihlutinn vildi í raun frekar að húsnæðið stæði autt en Hjallastefnan hæfi þar starfsemi. Þarna kemur viðhorf borgarinnar til Hjallastefnunnar skýrt fram.
Það yrði afskaplega sorgleg niðurstaða ef Barnaskólinn neyddist til að hætta starfsemi. Þá mun frelsi og val foreldra verða enn minna í skólamálum og ekki var það mikið fyrir. Ef það er stefna meirihlutans í Reykjavík að draga úr frelsi foreldra til að velja skóla fyrir börnin sín, þá er þetta svo sannarlega skref í þá átt. Þögn borgarfulltrúa Viðreisnar er hrópandi í þessu máli. Það verður því ekki annað séð en að borgarfulltrúar Viðreisnar, sem þó hafa gefið sig út fyrir að vera frelsisins megin, taki fullan þátt í þessari stefnumörkun.
Er það virkilega svo að frelsi, val og fjölbreytni í skólamálum eigi enga talsmenn í meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur?
- #FreeBritney - 22. júlí 2021
- Næstu skref í fæðingarorlofsmálum - 6. júlí 2021
- Hvað tökum við með okkur úr faraldrinum? - 23. júní 2021