Það var mikið gleðiefni í dag að fallið var frá áformum um að reka úr landi pakistanska fjölskyldu sem dvalist hefur hér á landi frá árslokum 2017. Ákvörðun dómsmálaráðuneytisins kann að virðast handahófskennd í augum þeirra sem standa vilja vörð um formreglur, rétt eins og var fyrir nokkrum árum þegar Alþingi greip í taumana til þess að koma í veg fyrir að úrskurði um brottvísun barnafjölskyldna yrði framfylgt. En langflestir gleðjast yfir því að komið var í veg fyrir hörmulegar afleiðingar fyrir saklaust fólk og þunga sorg þeirra sem þykir vænt um fólkið sem átti að reka úr landi.
Í málum eins og því sem var í fréttum síðustu daga—af sjö ára gamla stráknum Múhammed og fjölskyldu hans—virðist þægilegt að tala eins og verst af öllu sé að láta tilfinningar flækist fyrir eðlilegum framgangi kerfisins. En tilfinningarnar stjórna miklu báðum megin. Annars vegar tilfinningar þeirra sem óttast tilhugsunina um örlög þeirra sem vísað er úr landi. Og hins vegar tilfinningar þeirra sem, þrátt fyrir að vilja ekki neinum illt, óttast afleiðingar þess ef slakað er á reglum um tækifæri fólks til að setjast að á Íslandi Hjá mörgum ríkir raunverulegur ótti um að öll mannúð og mennska af þessu tagi muni bjóða heim hættu á einhvers konar holskeflu flóttamanna sem engin leið ssé að ráða við.
Slíkar áhyggjur eru alveg örugglega óþarfar. Í veröld þar sem við njótum svo mikillar blessunar, eins og við gerum hér á Íslandi, þarf ansi mikið að gerast áður en við getum leyft okkur að vorkenna okkur sjálfum fyrir að sýna öðrum of mikla miskunn eða velvild. Og fátt bendir til þess að Ísland, þrátt fyrir alla sína góðu kosti sem við erum þakklát fyrir, sé í augum stórs hluta mannkyns sérlega aðlaðandi búsetukostur.
Hingað til hefur litlu virst skipta hverjir hafa farið með völdin í málefnum útlendinga og hvað þeir segjast standa fyrir. Niðurstaðan í svona málum hefur oftast verið sú að æðstu ráðamenn málaflokksins hafa leyft kerfinu að hafa sinn framgang. Ekkert hefur verið látið uppi um hvernig það gerðist að á sunnudegi er tekin ákvörðun á æðstu stöðum um að grípa framfyrir hendurnar á kerfinu með þeim hætti sem gert var. Líklega er nú samt óhætt að álykta sem svo að slíkt hefði ekki gerst nema að frumkvæði ráðherra málaflokksins.
Auðvitað þurfa að vera til staðar ýmis konar kerfi til þess að halda uppi lögum og reglum varðandi komu fólks til Íslands og möguleika þess á að geta orðið Íslendingar. Slík kerfi þurfa þó að standast einhvers konar lágmarkskröfur um að þau skili ekki beinlínis fáránlegum og ómanneskjulegum niðurstöðum; eins og það hefði verið að reka með harðræði þessa fjölskyldu úr landi í fyrramálið. Það er sannarlega gleðilegt að dómsmálaráðherra hafi í þessu máli leyft mannúðinni, réttlætinu og hugrekkinu að bera sigur úr býtum. Guð láti gott á vita.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021