Heimsbyggðin glímir nú formlega við heimsfaraldur. Í gær lýsti Alþjóða heilbrigðismálastofnunin því yfir að Covid-19 flokkast sem heimsfaraldur (e. pandemic). Það merkir að veiran breiðist hratt út í mörgum löndum í mismunandi heimsálfum samtímis. Þegar við stöndum frammi fyrir víðtækri ógn af slíkri stærðargráðu þá er eitthvað hughreystandi við hve einfaldar helstu bjargir okkar eru.
Í fyrsta lagi eigum við að þvo hendurnar okkar með sápu og volgu vatni, helst í 20 sekúndur. Landlæknir hefur gefið út leiðbeiningar og myndir sem sýna rétt handtök við handþvott. Börnin okkar læra að þau eiga að syngja afmælissönginn á meðan þau þvo sér. Hann tekur greinilega um 20 sekúndur í flutningi að meðaltali. Skorað er á lesendur að sannreyna þetta. Víetnamar hafa tekið þetta enn lengra og búið til lag sem sýnir danshreyfingar við handþvott undir grípandi laglínu. Allir Íslendingar sem voru komnir til vits og ára undir lok síðustu aldar þegar Flosi Ólafsson færði þjóðinni tiltekin skilaboð í eftirminnilegri auglýsingu geta vitnað um hve áhrifaríkar sungnar leiðbeiningar geta reynst, jafnvel hátt í 30 árum síðar.
Í öðru lagi eigum við að halda höndunum frá andliti til að forðast smit. Það virðast í fyrstu einföld tilmæli þar sem fólk kannast almennt ekki við að vera að snerta eigin andlit í tíma og ótíma en þegar á reynir kemur í ljós djúpstæð þörf til andlitssnertingar. Samkvæmt ótilgreindri og óvísindalegri rannsókn sem fannst á internetinu snertir meðalmanneskja á sér andlitið 23 sinnum á klukkustund að meðaltali eða á minna en 3 mínútna fresti. Hér geta buxnavasar gegnt lykilhlutverki.
Í þriðja lagi er okkur uppálagt að hnerra í olnbogabótina okkar í stað þess að úða umhverfið með dropasmiti. Þessi tilmæli hafa öðru fremur dregið fram hvað íslenska þjóðin á erfitt með að greina á milli olnbogabótar og handakrika þar sem fólk hefur ítrekað talað um að það eigi að hnerra í handakrikann á sér. Olnbogabótin hefur þann augljósa kost að loka hnerrann af en auk þess er einstaklega kjánalegt að hnerra í handakrika. Aftur er skorað á lesendur að sannreyna þetta.
Í fjórða lagi eigum við að hætta þeirri rótgrónu venju í okkar menningu að heilsast með handabandi. Þetta hefur reynt mjög á félagslega staðfestu þar sem fólk sleppir gjarnan að heilsast í upphafi samskipta með tilvísun í ástandið en endar svo á að koxa og kveður með handabandi eða fer jafnvel alla leið í faðmlagið. Það er því samfélagsleg þörf á að fólk sammælist um að leggja handabandinu tímabundið. Í staðinn er til dæmis hægt að einfaldlega veifa eða leggja lófa saman í „namaste.“ Þeir sem eru innilegir geta lagt hönd á hjarta eða myndað hjarta með fingrunum. Bara svo lengi sem enginn sendir fingurkoss.
Íslensk heilbrigðisyfirvöld hafa sýnt ábyrgð og fyrirhyggju í aðgerðum sínum sem munu hjálpa íslensku þjóðinni að komast í gegnum þetta tímabil betur en ella. Almennir borgarar geta hver og einn lagt sitt lóð á vogarskálarnar með þessum sáraeinföldu athöfnum auk þess að fylgja öðrum tilmælum heilbrigðisyfirvalda í hvívetna. Höfum svo hugfast að öll él birtir upp um síðir og að sumarið bíður okkar handan við hornið.
- Vinnum upp mannfagnaði - 11. maí 2021
- Sameiginlegir hagsmunir - 6. apríl 2021
- Draumaverksmiðju-kryddið - 9. mars 2021