Ef þjóðvegurinn yrði færður þannig að hann lægi ekki lengur framhjá Staðarskála er viðbúið að breytingar yrðu á rekstri verslunarinnar þar. Umferðin lægi ekki framhjá lengur og pulsustopp hjá buguðum fjölskyldum á leiðinni í útilegu eða túristum á hvítum Dacia bílum myndu hætta.
Fyrirtækið sem rekur sjoppuna myndi því að óbreyttu sjá fram á mikið tap ef halda ætti allri starfseminni áfram í óbreyttri mynd, með jafnmörgum starfsmönnum og áður á fullum launum. Af þeim sökum yrði starfsfólkinu líkast til sagt upp og búðinni lokað og við því væri í sjálfu sér lítið að segja, forsendur hefðu breyst.
Sennilega myndu fáir gera þá kröfu á eigandann ef þetta gerðist að starfsemi Staðarskála yrði haldið óbreyttri til framtíðar með þeim rökum að fyrirtækið sæti nú á ansi digrum sjóðum og gæti alveg haft Staðarskála opinn áfram, jafnvel þótt það væri eitthvað minna að gera. Eigið fé væri gott og eignastaðan sterk. Er nokkuð því til fyrirstöðu að starfsmennirnir haldi vinnu sinni þótt það verði eitthvað minna að gera? Eða jafnvel ekkert?
Óvæntar breytingar
Svona hlutir gerast, það verða óvæntar ytri breytingar sem gera það að verkum að fyrirtæki þurfa að endurskipuleggja sinn rekstur, fækka starfsfólki eða loka ákveðnum einingum sem ganga ekki upp lengur. Það er gert jafnvel þótt önnur starfsemi gangi vel, fyrirtækið eigi sjóði til þess að það þurfti ekki strangt til tekið að loka og segja upp en það er einfaldlega hluti af ábyrgum rekstri að láta ekki tiltekinni einingu blæða út, heldur nota kraftana frekar í að byggja upp annarrs staðar, opna aðra verslun á stað þar sem fleiri gestir koma osfrv.
Fyrirtæki sem segir upp starfsfólki er skyldugt að greiða laun í uppsagnarfresti, sem er mislangur eftir því hvað viðkomandi hefur unnið lengi og að honum loknum fer starfsmaðurinn á atvinnuleysisbætur sem hið opinbera borgar í gegnum Vinnumálastofnun. Atvinnuleysistryggingar eru hins vegar fjármagnaðar af tryggingargjaldi sem er innheimt ofan á laun og fyrirtæki greiða.
Segja má að tilbúna dæmið um Staðarskála hafi gerst hér á landi og um heim allan í byrjun mars á þessu ári. Nema á risastórum skala. Flug í heiminum var meira og minna bannað og lagðist af. Ferðamenn hættu allt í einu að koma til landsins. Í mesta lagi 20 manns máttu koma saman og þá eingöngu með 2 metra millibili. Forendur fyrir því að reka veitingastaði, kaffihús, verslanir og margt fleira hurfu á nánast einni nóttu. Sömu sögu má segja um margs konar þjónustufyrirtæki í kringum slíkan rekstur sem höfðu ekkert að gera lengur. Fyrirtækin stóðu eftir með þá spurningu hvernig ætti að bregðast við. Því miður var það eina í stöðunni víða að loka verslunum, veitingastöðum og annarri þjónustu, segja upp starfsfólki og reyna að lágmarka tapið og tjónið eins og kostur var.
Fyrirtækin hvött áfram
Inn í þetta ferli steig ríkisstjórnin í byrjun mars og kynnti úrræði, hlutabótaleiðina, sem gerði það að verkum að fyrirtæki myndu ekki þurfa að segja upp starfsfólki. Í staðinn bauðst hið opinbera til þess að greiða hluta af launum starfsfólksins, að því gefnu að starfsfólkinu yrði ekki sagt upp. Þetta var lögfest án nokkurra skilyrða, þ.e. ekki var tekið fram að þetta ætti eingöngu við tiltekin fyrirtæki, eða ef fyrirtækið ætti meira en svo og svo mikið í eignir eða eigið fé að þá mætti það ekki gera þetta. Þetta var ekki tengt því hvort fyrirtæki væru að greiða arð, hefðu verið að því eða slíkt væri í hyggju. Stjórnmálamenn og ráðherrar beinlínis hvöttu fyrirtæki til að nýta þetta úrræði.
Það gekk eftir. Úrræðið varð mikið nýtt og virkaði að því leytinu til að fyrirtækin sögðu ekki upp starfsfólki, jafnvel þótt engar forsendur væri fyrir því að halda fólki áfram í starfi. Rökin af hálfu hins opinbera voru að þetta væri tímabundið ástand, myndi ganga hratt yfir og það væri verið að fórna minni hagsmunum fyrir meiri með því að gefa fyrirtækjunum stuðning við að halda fólki í vinnu, frekar en að fá alla á atvinnuleysisbætur eftir að uppsagnarfrestinum lýkur. Því má ekki gleyma að fyrirtækin greiddu hluta launanna áfram, í einhverjum tilfellum hjá fólki sem var í stöðugildum þar sem ekkert var að gera, t.d. í verslunum sem voru lokaðar eða á vinnustöðum þar sem ekkert var að gera.
Nokkrum vikum síðar virðist sem það hafi runnið upp fyrir stjórnmálamönnunum að fyrirtækin höfðu gert einmitt það sem þau voru hvött til, þ.e. frestað því að segja starfsfólki upp og sett það á hlutabótaleiðina. Þetta gerðu í raun öll fyrirtæki, bæði þau sem áttu eignir, voru með gott eigið fé, jafnt sem önnur fyrirtæki sem áttu erfiðara um vik. Þetta olli mikilli reiði og í nokkra daga í röð voru fréttatímar fullir af stjórnmálamönnum sem náðu ekki upp í nef sér af hneykslan yfir þessu. Meira að segja ráðherrar ríkisstjórnarinnar, sem þó hönnuðu úrræðið nákvæmlega svona, áttu bara ekki til orð yfir þessu.
Skammaryrði
Þetta varð á svipstundu að hálfgerðu skammaryrði og umsvifamikil fyrirtæki hafa verið að endurgreiða þennan stuðning. Sömu umsvifamiklu fyrirtæki og hafa væntanlega staðið undir mjög stórum greiðslum inn í í ríkissjóð í formi tryggingargjalds undanfarin ár. Eftir standa hins vegar alls konar spurningar. Hver voru eiginlega skilyrðin fyrir því að mega nýta úrræðið? Hversu vel mátti fyrirtæki standa til að það væri siðferðislega réttlætanlegt að nýta sér þetta úrræði? Var ekki einmitt hugsunin að verja störf og þar með stöðu launafólks? Mátti fyrirtæki sem nýtti úrræði eiga eitthvað eigið fé eða átti það að vera nánast við núllið? Eða átti það að vera í tapi? Hefði ekki verið rétt að taka það fram í byrjun og skilgreina þetta áður?
Í krísum eins og við erum að ganga í gegnum er mikil pressa á stjórnvöld að kynna úrræði og aðgerðir. Til að úrræðin virki þarf að vinna hratt og tíminn til að skilgreina eða kortleggja hverjir fá og hverjir ekki er af mjög skornum skammti. Atburðarrásin í tengslum við hlutabótaleið ríkisstjórnarinnar er ágætis dæmi um þetta, að það þarf að setja skýr skilyrði í byrjun frekar en að ákveða þau eftir á.
- Hröð en ekki óvænt stefnubreyting í málefnum hælisleitenda - 20. febrúar 2024
- Fjölmiðlaóð þjóð - 22. janúar 2021
- Skiljanleg en hættuleg ritskoðun tæknirisanna - 14. janúar 2021