Það er gott að hafa tilgang með því sem maður er að gera. Og með tilgangi er þá átt við meðvitað markmið, mælanlegt, sem maður keppist við að ná, færist nær og finnur fullnægjuna sem felst í því að ná settu markmiði. Þetta er gott.
Við þekkjum vonandi flest einhverja slíka tilfinningu, ef ekki hjá okkur sjálfum, þá að minnsta kosti í því sem aðrir eru svo göfuglyndir að deila með nær- og fjærsamfélagi sínu á þar til gerðum miðlum.
Það er hins vegar til annars konar tilgangur. Tilgangurinn sem maður gerir sér sjaldnast grein fyrir. Og markmið sem maður vissi ekki að maður var í raun að keppa að. Þegar slíkur tilgangurinn uppgötvast eftir á og markmiðin sem náðust renna upp fyrir manni, þá fylgir því öðruvísi fullnægja, engu síðri en sú sem fæst við að ná fyrirfram settu marki.
Og vissulega helst þetta tvennt oftar en ekki í hendur. Mig minnir að Arthúr Björgvin Bollason hafi þýtt spakmæli Nietzsche í bókinni Handan góðs og ills á þann veg að hver sá sem næði markmiði sínu næði lengra en sem því næmi. Það er góð þýðing á torræðri hugsun.
Hinn yfirlýsti tilgangur með útgáfu Deiglunnar sem hófst fyrir réttum 23 árum í dag, 3. febrúar, var að svala tjáningarþörf ritstjóra. Þegar horft er til baka rennur upp fyrir manni að tilgangurinn var líklega allt annar og markmiðin sem náðst hafa önnur og fleiri en þau sem lagt var upp með.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021