Sú hugmynd um að opna á það að fólk geti komið til Íslands og unnið hér í fjarvinnu er fínasta hugmynd. Að reyna setja hana í gagnrýnið samhengi við stefnu stjórnvalda í málefnum flóttamanna gerir útlendingaumræðunni í heild ekkert gagn. Þó að einhverjir séu andvígir því að hingað flytji fátækt fólk þá getur svarið við því, fjandakornið, ekki verið að mótmæla því að ríkt fólk geti flust til landsins.
Ef að við eigum að bíða með að opna landið fyrir sjálfstætt starfandi útlendingum utan EES þangað til að við erum öll sátt við flóttamannastefnuna okkar og framkvæmd hennar þá er ég hræddur um að við munum þurfa að bíða ansi lengi. Eina vitræna leiðin er bara að bæta hluti á öllum vígstöðvum.
Við eigum ekki að loka landinu fyrir flóttamönnum meðan við erum ósátt við kjör fátæks fólks á Íslandi og við eigum ekki að loka landinu fyrir kanadískum viðmótsforriturum þótt við teljum okkur geta sinnt flóttafólki betur. Það er óþarfi að búa til slíkar falskar andstæður.
Það hefur verið gagnrýnt að tillögu um 6 mánaða vegabréfsáritanir fylgi tekjumörk. Þau mættu örugglega verða lægri en það eitt að með reglunum sé verið að “mismuna fólki eftir tekjum” er ekki ástæða til að hafna þeim. Öll dvalarleyfi eru byggð á einhverjum skilyrðum og mismuna þannig einhverjum.
Dvalarleyfi fyrir námsmenn mismuna fólki eftir menntun. Dvalarleyfi EES-borgarar mismuna eftir þjóðerni. Dvalarleyfi íþróttafólks mismuna eftir íþróttagetu og dvalarleyfi vegna sérfræðiþekkingar mismuna fólki sem ekki býr yfir sérfræðiþekkingu. Dvalarleyfi vegna eigin atvinnureksturs eru ekki til í dag. Ef þau væru til myndu þau alltaf mismuna fólki eftir efnahag. Það væri samt ekki ástæða til að hafna þeim, bara út af því.
Sjálfstætt starfandi einstaklingar utan EES og fólk sem vinnur hjá erlendum fyrirtækjum megi í dag EKKI flytja til Íslands. Punktur. Landið er lokað fyrir því fólki öllu. Það segir ekki sögur sínar í fjölmiðlum því það fær ekki að koma til landsins til að byrja með. Það þarf að breyta því. Lengri vegabréfsáritun er fínt fyrsta skref en til lengri tíma mætti hugsa sér nýjan flokk dvalarleyfa. Þetta er skref í rétta átt sem takmarkar í engu getu okkar til að taka á móti flóttafólki.
Ef ég ætti að hafa einhverjar áhyggjur þá er það það að fáir muni nýta sér þessa heimild, heldur en því að hótelin fyllist af sjálfstætt starfandi hátekjufólki í fjarvinnu hjá stórfyrirtækjum úr Kísildal.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021