Börn eiga það til að segja manni hispurslaust hvað þeim finnst, þau hafa ekki lært að filtera skoðanir sínar eins og við fullorðna fólkið. Börn hafa heldur ekki tilhneiginguna til að segja „Nei, nei það er búið að skoða þetta og þetta virkar ekki“, þau segja ekki „Nei þetta er ekki hægt“, þau hugsa frekar hvernig get ég látið drauma mína rætast hversu stórir sem þeir eru. Því miður eldist þetta af okkur og við setjum síuna á okkar skoðanir og við lokum okkur enn frekar innan okkar þægindaramma.
Í flestum stjórnmálaflokkum má finna fólk á flestum aldursskeiðum lífsins, en eflaust er það helst að finna í gamla fjórflokknum þ.e. þetta breiða aldursbil frá 15 – 105 ára. Sjálfstæðisflokkurinn hefur alla tíð verið þekktur fyrir að eiga virka ungliðahreyfingu. Í ungliðahreyfingunni má finna fólk sem kemur nýtt í starfið með ferskt viðhorf á samfélagið og hópur fólks sem er ekki mótaður af „Nei við erum búin að skoða þetta og þetta er ekki hægt“, þeim dreymir stórt og þau þora að tala um draumana sína.
Ungliðahreyfingin virðist því miður samt allt of oft lenda í því að þeir sem eldri eru hlusti ekki á hana og til eru dæmi þess að beinlínis er unnið gegn því sem þau standa fyrir. Gott dæmi er þegar fyrrverandi formaður Heimdallar stóð upp í pontu á Landsfundi og benti Sjálfstæðismönnum á að hugmyndin um að kristin gildi ættu að ráða lagasetningu væri afleit af mörgum ástæðum en sérstaklega væri þetta ekki í anda frjálslynds flokks sem Sjálfstæðisflokkurinn vill vera. Hlustaði landsfundur? Nei þetta voru krakkarnir í Heimdalli, þau eru alltaf svo róttæk við verðum á móti þeim. Úr varð að ein versta klausa í sögu ályktanna Sjálfstæðisflokksins varð samþykkt, sem svo hvarf reyndar nokkrum mínútum seinna úr ályktun. Hugsanlega hefði verið betra að hlusta á formann Heimdallar.
Fyrir viku síðan samþykkti milliþing SUS ályktun þess efnis að ef Framsóknarflokkurinn héldi áfram að tala gegn frjálslyndum hugmyndum Sjálfstæðismanna og ef Framsóknarflokkurinn héldi áfram herferð sinni um að haftabúskapur, boð og bönn séu það besta fyrir íslenskt samfélag eigi Sjálfstæðisflokkurinn að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu.
Þessi ályktun fór á mikið flug í íslenskum fjölmiðlum og tók ég eftir að í kringum mig var alls konar fólk sem aðhyllist mismunandi flokka hjartanlega sammála SUS í þessu efni. Það sem vekur samt mína eftirtekt er að ekki hefur heyrst orð frá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins eða áhrifamönnum innan flokksins. Hví skyldi það vera? Er of erfitt að horfast í augu við það að Framsóknarflokkurinn er boðberi gegn flestu því sem grunnstefna Sjálfstæðisflokksins talar fyrir?
SUS hefur verið þekkt sem róttækt afl, með allt of stórar hugmyndir sem munu aldrei falla vel í íslendinga. Ég get ekki betur séð í dag að SUS og börnin í Sjálfstæðisflokknum hafi meira þor í að standa upp í hári Framsóknarmanna heldur en þingflokkur Sjálfstæðisflokksins og kannski tími að þeir hlusti á litlu börnin sem eru jú oftast kölluð samviska flokksins. SUS stendur nefnilega fast með sínum hugsjónum, og það er það sem heillar fólk í dag, stjórnmálamenn með sýn en ekki 10 punkta plan.
Nú vona ég að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi þor í að hlusta á SUS og slíti þessu stjórnarsamstarfi.
- Óður til Dollýar - 29. júlí 2021
- Aðförin að heilbrigðisþjónustu landsmanna - 9. júní 2021
- Þegar mennskan hverfur - 26. apríl 2021