Síðustu misseri hef ég átt þess kost starfs míns vegna að kynnast málefnum Afríku. Íslendingar hafa um áratugatugaskeið komið að þróunaraðstoð gagnvart Afríkuríkjum og hefur þróunarsamvinna orðið æ ríkari þáttur í starfsemi utanríkisráðuneytisins.
Ástand mála í þróunarsamstarfsríkjum Íslands í Afríku er afar bágborið, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Vissulega hefur þróunaraðstoð bætt ákveðna þætti samfélagsins en vandamálin eru svo djúpstæð og svo víðtæk að þau verða ekki leyst með óbreyttri þróunarsamvinnu.
Afríka er auðug heimsálfa. Þar er að finna einhver frjósömustu jarðsvæði heims, gjöful fiskimið, olíuauðlindir og verðmæta málma. Nýlendustefna 18. og 19. aldar lék íbúa Afríku grátt. Eitt versta dæmið er arðrán Belga í Kongó sem skildi eftir sviðna jörð í flestu tilliti. Nýlendustefnan var því mikil ógæfa fyrir Afríku.
Um og eftir miðja síðustu öld tóku flestar Afríkunýlendur málin í sínar hendur og öðluðust sjálfstæði frá nýlenduríkjunum. En áratugum síðar er ástandið litlu skárra. Á því eru margar skýringar, eftirköst nýlendustefnunnar skipta þar miklu. En ein skýring hefur ekki farið mjög hátt, og á henni ber aftur hinn vestræni heimshluti meginábyrgð.
Hinir auðugu markaðir Vesturlanda, einkum í Evrópu, hafa verið mjög óaðgengilegir vörum frá Afríku. Fljótlega upp úr miðri síðustu öld lokuðu ríki Evrópusambandsins dyrum sínum með tollabandalaginu og aðgangur að þeim mörkuðum því heftur verulega, nema með sérstökum samningum, á borð við EES-samninginn.
Útflutningur með tilheyrandi verðmætasköpun er forsenda fyrir því Afríkuríki brjótist úr fátæktarviðjum, á nákvæmlega sama hátt og gerðist með Ísland, sem fór úr því að vera ein fátækasta þjóð Vestur-Evrópu árið 1919 í það að vera ein sú ríkasta einni öld síðar. Með fullveldinu kom verslunarfrelsið og aðgangur að mörkuðum varð undirstaða íslenskrar velmegunar.
Þetta er því hin tvöfalda ógæfa Afríku. Fyrst arðrændu Evrópuþjóðir álfuna og skildu hana eftir í rúst og síðan lokuðu þær mörkuðum sínum fyrir Afríkuþjóðum.
Það er því kaldhæðni örlaganna að margar Evrópuþjóðir, ekki síst Evrópusambandið sem slíkt, státa af því að leggja verulega af mörkum þegar kemur að þróunarsamvinnu í Afríku. Skinhelgin í kringum þau mál hefur leitt til þess að helst má engin samvinna vera við Afríkuríki nema í formi einhvers konar ölmusu, aðkoma einkaaðila hefur verið litin hornauga.
Sem betur fer hefur hugafarið verið að breytast á síðustu árum. Sífellt fleiri gera sér grein fyrir því að frjáls viðskipti eru forsenda þess að snúa málum til betri vegar í Afríku, ekki síst Afríkuþjóðirnar sjálfra sem kalla nú eftir aukinni fjárfestingu og aðkomu einkaaðila. Þessi viðsnúningur er þess vegna mjög aðkallandi, þar til sjálfbærni er náð í efnahagslegu tilliti. Það má ekki verða þreföld ógæfa Afríku að aðkoma einkaaðila verði á nýjan leik að einhvers konar tabúi á Vesturlöndum. Það er of mikið í húfi fyrir þjóðir Afríku.
- Besta hátíðin - 9. apríl 2023
- Lýðræðið mun sigra - 2. júlí 2021
- Norræn vídd í varnarsamstarfi - 29. júní 2021