Það að vera keppandi á ólympíuleikum kemst örugglega næst þeirri upplifun að búa í sæmilega velheppnuðu kommúnistaríki. Yfirvöldin skaffa fæði, húsnæði, samgöngur og afþreyingu. Allt er skipulagt. Það er skipulagt í hvaða herbergi hver og einn á að vera, hvaða rúta fer með hvern og hvert og hver á að vera mættur hvenær og hvert til að gera hvað.
Menn hlaupa, kasta og hoppa eftir getu en uppskera ókeypis franskar á McDonald’s eftir þörfum.
En bíddu… þetta virðist þrátt fyrir allt ganga ágætlega fyrir sig. Enginn er heimilislaus. Það er nóg af mat fyrir alla. Keppendur eru langoftast mættir á réttum tíma á keppnisstað. Það er nóg vatn í laugunum. Gullpeningarnir klárast ekki. Þegar eitthvað af ofantöldu klikkar þá ratar það í fréttirnar. En, ég meina, verum sanngjörn: Sautján þúsund manna hverfi opnar á einum degi og nokkur klósett sturta ekki niður. Já, það gerist, en það er ekki heimsendir.
Það sem meira er: fólk virðist leggja ansi mikið á sig til að fá að búa við þetta fyrirkomulag. Í fjögur ár undirbýr fólk sig, æfir og keppir við aðra um að fá að upplifa hið kommúníska ólympíulíf í tæpar þrjár vikur. Síðan talar það um þessa reynslu sína það sem eftir er ævinnar.
Er svona kommúnismi þá ekki bara fínn? Gætum við alltaf haft þetta svona?
Hugsum þetta samt aðeins. Hvað fer mikil vinna í að skipuleggja þessar þrjár vikur? Það tekur sjö ár. Það kostar ógeðslega mikið. Og þegar á hólminn er komið þá er allur þessi Ólympíuheimur vélrænn og gervilegur. Honum er haldið gangandi af þúsundum starfsmanna og sjálfboðaliða. Fátæktarhverfin sem þarf að rífa til að rýma fyrir Ólympíuþorpunum eru þó lifandi borgarvefir. En Ólympíusvæðin sjálf byrja að grotna niður um leið og eldurinn á Ólympíuleikum fatlaðra slokknar. Tíu árum síðar vekja þau jafnmikla gleði og batteríslaus Bósi Ljósár.
Allan tíma sem Ólympíuleikarnir fóru fram gisti heilt Ólympíuþorp í Reykjavík, 20-30 þúsund ferðamenn, flestir fengu mat, húsnæði, afþreyingu og ferðuðust á milli staða án þess að einhver reykvísk “skipulagsnefnd ágústmánaðnaðar 2016” hafi ákveðið allt fyrir þá að loknum sjö ára undirbúningi. Hinn kaotíski markaður leysti þetta.
Ólympíuleikarnir eru æði. En engu að síður þarf að fara að hugsa kostnaðinn við þá upp á nýtt. Til lengdar gengur ekki skattpína almenning misríkum löndum með metnaðarfulla stjórnmálamenn til þess eins að nokkrir útvaldir íþróttamenn fengju að búa í miðstýrðu sæluríki í tæpar þrjár vikur á fjögurra ára fresti.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021