Fyrir okkur sem höfum mikinn áhuga á íþróttum fer talsverður tími í það að fylgjast með hinum ýmsu kappleikjum og kannski veljum við oft að sjá fegurðina í íþróttum frekar það miður fallega. Frá vissu sjónarhorni er hægt að sjá íþróttir sem alheimstungumál sem allir í heiminum geta skilið á sama hátt, í hópíþróttum geta þær aukið skilninginn á mikilvægi liðsheildar umfram einstaklinga og getur sameinað ótrúlegustu hópa fólks. Það er erfitt að hrífast ekki með dugnaði, eldmóði, þrautseigju, hæfileikum og sjá íþróttafólk uppskera eftir erfiði undanfarinna ára.
Það hefur lengi verið sagt að ekki eigi að blanda saman íþróttum og pólitík. En þeim er þó ítrekað blandað saman og slíkt hefur viðgengist lengi og kannski er hugmyndin um að pólitík eigi ekki heima í íþróttum rómantík frekar en raunveruleiki. Við eigum að geta keppt, haldið með og fylgst með íþróttum, liðum og leikmönnum óháð því hvar á hinu pólitíska litrófi fólk kýs á staðsetja sig. En þegar umræðan snýst um grundvallarmannréttindi og ömurleg samfélagsmein verður erfitt að styðja við hlutleysi. Að sjálfsögðu má segja að allt sé í raun pólitík, þetta sé aðeins spurning um hvar línan liggur og því sé skásta afstaðan að styðjast við hlutleysi í íþróttum.
En geta forsvarsmenn félagsliða, landsliða, samtaka og íþróttafólk með svo sterka rödd, mikil völd og fjármagn einfaldlega skilað auðu þegar kemur að erfiðum málum. Hvort sem þau tengjast íþróttinni sjálfri, leikmönnum eða samfélaginu og er ekki líka hægt að færa rök fyrir því að hlutleysi sem slíkt sé afstaða. Nú er ég ekki að mæla með því að látum íþróttafólk taka þátt í baráttu sem þau kjósa ekki sjálf að taka þátt í opinberlega. En að sjálfsögðu eiga þau að njóta frelsis til tjá sig með þeim hætti sem þau kjósa og nýta sinn vettvang til þess að hafa áhrif, hvort sem það er að krjúpa á kné, klæðast ákveðnum litum, bera regnbogafána eða steyta hnefann út loftið.
Hlutleysi íþróttasamtaka, félagsliða og annarra eins og Alþjóða Ólympíunefndarinnar, NFL, UEFA, FIFA, NBA o.fl. verður oft snúnara. Í gegnum söguna hefur pólitík t.d. blandast við Ólympíuleikana með ýmsum hætti, Jessie Owens kom sá og sigraði á „arískum“ Ólympíuleikum Hitlers í Berlín, aðskilnaðarstefnan útilokaði Suður-Afríku frá leikunum á tímabili, 11 ísraelskir íþróttamenn og þjálfarar voru myrtir í Munchen, yfir 80 lönd sniðgengu leikana í Sochi vegna innrásar Sovétríkjanna í Afganistan og Sochi var svo aftur í sviðsljósinu vegna mannréttindabrota og löggjafar gegn réttindum hinsegin fólks í Rússlandi. Við sjáum þrátt fyrir allt sífellt fleiri alþjóðleg stórmót fara fram í ríkjum þar sem mannréttindi eru fótum troðin og jafnvel eru hin alþjóðlegu stórmót ástæða þess að brotið er á réttindum líkt og gerðist í kringum Ólympíuleikana í Ríó 2016 og er að eiga sér stað í fyrir HM 2022 í Katar.
Það er því hjákátlegt að sjá UEFA banna borgarstjóra Munchen að lýsa leikvanginn upp í regnbogalitum og Ólympíunefndina ætla að banna íþróttafólki að krjúpa á kné eða mótmæla mannréttindabrotum á leikunum í Tókýó í sumar. Hin stóru alþjóðlegu samtök virðast því ekki veigra sér við því að beita sér fyrir hinu svokallað hlutleysi þegar berjast á fyrir réttindum en þegar alvarleg mannréttindabrot eru framin í skjóli stórmóta er þögnin ærandi og augljóst að fjárhagslegir hagsmunir vega þyngst. Ef baráttan fyrir mannréttindum er bæld niður vegna kröfu um hlutleysi, er hlutleysið í raun orðin afstaða með þeim sem brýtur gegn mannréttindum.
- Hið pólitíska hlutleysi íþrótta - 11. júlí 2021
- Umræðan innan stafbila - 14. júní 2021
- Uppgjörið sem bíður enn… - 13. maí 2021