Það er þekkt vandamál að ráðherrar og ráðuneytisstjórar hafa ekki alltaf átt skap saman í gegnum tíðina. Það er auðvitað ekki algilt en engu að síður vel þekkt vandamál.
Auðvitað ætti það ekki að koma neinum á óvart. Það er ekkert til sem heitir hinn fullkomni embættismaður. Ráðuneytisstjórar eru, eins og allir, breyskir, gallaðir og ófullkomnir. Þeir hafa skoðanir á pólitík, málefnum og hvernig hlutum skuli háttað innan ráðuneyta. Með öðrum orðum mannlegir.
Ráðherrar koma líka í öllum stærðum og gerðum, með mismunandi áherslur og sýn á samfélagið. Það er algjörlega óraunhæf krafa að ætlast til þess að ráðuneytisstjóri gangi alltaf ósjálfrátt í takt við ráðherra sinn – þurrki út eigin sjálfsmynd og gerist hinn fullkomni embættismaður. Og þegar það mistekst þá getur myndast spenna og óánægja á milli ráðherra og ráðuneytisstjóra. Ástand sem leiðir til þess að ráðherra getur vanvirkur og látið ráðuneyti keyra áfram á sjálfsstýringu, án lýðræðislegrar pólitískrar leiðsagnar eða stefnumörkunar.
Einir og yfirgefnir
Ástæður þess að ráðherrar geta farið halloka í samskiptum við undirmenn leynast oftar en ekki í því valdaójafnvægi sem er innbyggt í núverandi kerfi. Þegar nýr ráðherra stígur inn í ráðuneyti stendur hann einn andspænis heilu ráðuneyti með alla sína sérfræði- og fagþekkingu. Ráðuneytið er þegar með ótal verkefni í fyrirfram ákveðnum farvegi og innan þess hafa myndast venjur um verklag og afgreiðslu mála. Þannig að ef ráðherrar hafa sterkar skoðanir þá getur verið erfitt að hrinda þeim í framkvæmd. Og ef hann kemst upp á kant við einstaka starfsmenn ráðuneytisins, sérstaklega hátt setta, þá getur það reynst ómögulegt.
Ráðherrum er því vorkunn að reyna á einhvern hátt að leiðrétta valdajafnvægið. Nánast eina leiðin sem ráðherrar hafa eins og sakir standa til að fá fólk sem það treystir, til að framkvæma stefnu sína og ríkisstjórnar sinnar, inn í ráðuneytin er gegnum hina svokölluðu pólitísku aðstoðarmenn. Reynslan sýnir að það er full þörf á þessum aðstoðarmönnum en þeim hefur fjölgað jafnt og þétt frá árinu 2011. Jafnframt hefur nokkuð borið á ráðningum óræðra sérfræðinga í tímabundin „verkefni“ eða skýrslugerðir sem virðast grunsamlega oft deila sömu heimssýn og ráðherrann og oft og tíðum sinna skyldum sem ætla mætti að féllu undir starfslýsingu pólitískra aðstoðarmanna.
Ráðherrar fara með æðstu völd sinna málaflokka. Það er erfitt að sjá það virka án þess að þeir fái að hafa í kringum sig fólk sem þeir treysta. Og þótt fjölgun pólitískra aðstoðarmanna, „verkefnastjóra“ og annarra sé vissulega til þess að bæta ástandið þá verður ekki fram hjá því litið að þetta mun seint ná að laga það innbyggða valdaójafnvægi sem felst kerfinu.
Freistnivandinn
Þetta leiðir stundum til þess að ráðherrar freistast að fara á svig við núverandi reglur og ráða sitt fólk sem ráðuneytisstjóra eða í aðrar mikilvægar stöður innan ráðuneyta. Og til að réttlæta ráðninguna er hún sett í búning faglegrar ráðningar – þrátt fyrir að allir sjái í gegnum leikritið og þessu fylgi iðulega að ráðherra fái yfir sig úrskurð kærunefndar eða dóm.
Þetta er afar óheppilegt. Leikritið er ótrúleg vanvirðing við þá umsækjendur sem sóttu um í góðri trú um að farið yrði eftir landslögum. Það minnkar traust almennings á opinberum stöðuveitingum og grefur undan þeim lögum sem varða ráðninguna t.d. jafnréttislög.
Jafnframt eykur þetta vandamálið sem verið er að reyna að leysa. Því þrátt fyrir að ráðherra líði betur með sinn mann t.d. í stöðu ráðuneytisstjóra þá verður viðkomandi eftir þegar ráðherra lætur af störfum. Og það er ekki hægt að leggja það á nokkurn ráðherra að mæta í nýtt ráðuneyti og hitta þar fyrir sem ráðuneytisstjóra þekktan flokkshest úr öðrum flokki eða náinn samstarfsmann pólitísks andstæðing. Það mun nánast sjálfkrafa leiða til vantrausts og gera vandamálið stærra en nokkru sinni fyrr.
Sjálfskapað víti
Auðvitað ættu ráðherrar aldrei að þurfa að falla í freistni. Ríkisstjórninni er í lófa lagið að breyta lögum um stjórnarráðið þannig að ráðherra fái í auknu mæli að koma inn með sitt eigið fólk, þ.m.t. ráðuneytisstjóra. Og á sama hátt og með pólitíska aðstoðarmenn myndi ráðningartími allra fylgja tíma viðkomandi ráðherra í ráðuneytinu.
Afar auðvelt væri að rökstyðja slíkar breytingar. Það ætti nefnilega ekki að koma á óvart en fjölmörg ríki hafa komist að þeirri niðurstöðu að skilyrðislaust traust milli ráðherra og ráðuneytisstjóra sé farsælt fyrirkomulag. Þannig ráða t.d. sænskir ráðherrar sína eigin ráðuneytisstjóra og koma með sér inn í ráðuneytin. Þýskir kollegar þeirra hafa fulla heimild til að senda ráðuneytisstjóra á „eftirlaun“ og ráða sína eigin í staðinn. Frakkar hafa leyst þetta vandamál með fjölda svokallaðra aðstoðarráðherra sem stjórna ráðuneytinu fyrir ráðherrann. Og svo mætti lengi telja.
Vissulega felur það í sér aukin kostnað fyrir ríkissjóð að fjölga pólitískt skipuðum starfsmönnum innan ráðuneyta. Slíkt eykur jafnframt á aðstöðumun á milli ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu. Og ekki er loku fyrir það skotið að einstaka ráðherrar velji sér þöngulhausa til halds og trausts. En ofangreindar þjóðir hafa komist að þeirri niðurstöðu að þau sjónarmið fölni í samanburði við kosti þess að ráðherra hafi í kringum sig fólk sem hann treystir, geti komið sínum stefnumálum örugglega í framkvæmd og sinnt lýðræðislegu hlutverki sínu.
Hið eilífa leikrit
Á meðan ekkert breytist munu ráðherrar halda áfram að freistast til að taka meðvitaðar ákvarðanir um að brjóta lög þegar þeir skipa eða ráða í störf og embætti í stað þess að hreinlega að breyta lögunum. Það eykur á vantraustið innan stjórnsýslunnar og heldur hinu eilífa leikriti gangandi.
Ráðherrar, sem hafa í hendi sér að setja sjálfum sér og öðrum reglur hljóta að þurfa að hafa dug í sér til að taka slag um frekari fjárveitingar í pólitískar stöður innan stjórnarráðsins hversu erfiður sem hann mögulega yrði. Heiðvirðir umsækjendur um störf sem þeir áttu aldrei möguleika út af flokkshestunum ættu ekki að þurfa að taka þá slagi.
- Smámenni með völd - 26. júní 2021
- Hafa tannhjól samvisku? - 19. september 2020
- Hið eilífa leikrit - 23. júní 2020