Á tyllidögum er listamönnum gjarnan tíðrætt um tjáningarfrelsið, mikilvægi þess og óbilandi fylgispekt sína við það ágæta konsept. Og svo því sé haldið til haga taka langflestir listamenn þessum óskráða eið sínum við tjáningarfrelsið alvarlega.
Fyrir ekki mjög mörgum árum fylktu listamenn landsins og margir fleiri sér að baki Spaugstofumönnum sem sátu undir ásökunum um að hafa brotið gegn landslögum með því að gera grín að helgihaldi kristinna manna í páskaþætti sínum. Ákvæði almennra hegningarlaga um bann við guðlasti var ekki numið úr lögum fyrr en tæpum tveimur áratugum síðar og var á þessum tíma í fullu gildi.
Málsvörn Spaugstofumanna, og annarra sem létu sér annt um tjáningarfrelsið, var vitaskuld sú að stjórnaskrárvarinn réttur þeirra til tjáningar, meðal annars í formi þeirrar listsköpunar sem þeir ástunduðu, væri yfirsterkari banni við guðlasti í almennum lögum. Var kvörtun beint til útvarpsráðs og tók ríkissaksóknari ákvörðun um málið yrði rannsakað. Vert er að hnykkja á því hér að útvarpsráð taldi ekki tilefni til sérstakra aðgerða vegna málsins. Eftir stutta rannsókn, meðal annars með yfirheyrslum á Spaugstofumönnum, var málið látið niður falla og héldu Spaugstofumenn áfram á sinni braut.
Í gær bárust fréttir af því að stjórnendur Borgarleikhússins hefðu látið breyta auglýsingamynd sem gerð var eftir frægri mynd af Bubba Morthens með sígarettu í munnvikinu. Auglýsingamyndin hafði verið útbúin í tilefni sýningu Borgarleikhússins á leikverki um ævi listamannsins. Skýrðu stjórnendur leikhússins frá því að þeir hefðu ákveðið að breyta myndinni og fjarlægja sígarettuna með galdrabrögðum stafrænnar tækni eftir að kvörtun barst þess efnis að myndin riði óbreytt í bága við ákvæði tóbaksvarnarlaga.
Það er áleitin spurning og umhugsunarefni hversu auðveldlega stjórnendur Borgarleikhússins gáfu tjáningarfrelsið, réttinn til sköpunar og virðingu fyrir sögunni upp á bátinn. Í stað þess að láta reyna á réttinn til frjálsrar tjáningar andspænis bannákvæði tóbaksvarnarlaga, ákváðu stjórnendur Borgarleikhússins, ólíkt útvarpsráði forðum daga þegar sótt var að tjáningarfrelsinu á grundvelli bannákvæðis um guðlast, að leggja árar í bát.
Grundvallarréttindi eru æðri straumum og stefnum. Það er eðli þeirra og sérstaða gagnvart verkum þeirra sem hverju sinni sitja á Alþingi og setja okkur hinum hátternisreglur á borð við hina snarbiluðu bannreglu 2. mgr. 7. gr. laga nr. 6/2002 um tóbaksvarnir.
Ákvörðun stjórnenda Borgarleikhússins um að snúa baki við tjáningarfrelsinu verður lengi í minnum höfð.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021