Hryllingurinn í París í gær þar sem ofstopafullir morðingjar drápu tólf saklausa menn hlýtur að vekja með mörgum erfiðar spurningar. Voðaverkið er unnið af mönnum sem sækja réttlætingu brjálæðis síns í bókstafslestur trúarbragðatexta og hafa vafalaust í geðveiki sinni þá bjargföstu trú að þar hafi þeir unnið verk sem guð þeirra hafi velþóknun á. Og vafalítið telja þeir að hermdarverk í nafni íslam séu réttlætanlegar aðgerðir í heilögu stríði gegn illsku og siðspillingu Vesturlanda.
Glæpurinn er úthugsuð árás á tjáningarfrelsið, sem er það grundvallargildi Vesturlanda sem einna verst er samrýmanlegt þröngsýni þeirra sem þrá það helst að samfélagið sé kæft í kreddum trúarofstækis. Hin kristna kirkja miðalda var svosem ekki heldur neitt sérstaklega hrifin af frjálsri tjáningu. Þeir sem ógnuðu kreddum kaþólskunnar með rökfestu sinni eða mælsku máttu eiga von á ofsóknum, fangelsun, pyntingum—jafnvel að vera brenndir á báli.
Atburðurinn í gær er olía á eld. Það virðist vera ískyggileg þróun í Evrópu um þessar mundir. Moskur í Svíþjóð eru brenndar og í Þýskalandi hópast fólk saman í andúð sinni á múslimum. Sem betur fer eru slíkar aðgerðar fyrirlitnar af flestum, en glæpir eins og sá sem framinn var í gær vekja ugg, óvissu og tortryggni. Þeir virðast renna stoðum undir þá kenningu að ómögulegt sé fyrir múslima og kristna að búa saman.
En með stundarlangri athugun, eftir að reiði og ótti fyrstu frétta af svona atburði líður hjá, hlýtur maður að hugsa með samúð til þessi yfirgnæfandi meirihluta löghlýðinna og friðelskandi múslima sem búa í álfunni. Í gær fóru menn í þeirra búningi og drápu saklausa borgara í þeirra nafni.
Voðaverkinu í gær svipar til þess þegar ógeðið Anders Breivik myrti 77 manns og særði 319 þann 22. júlí 2011. Hann fór fram gegn fólki sem hafði annað lífsviðhorf og taldi sig hafa málstað sem réttlæti óhugnaðinn. Þá fannst okkur, sem köllum okkur hægri menn, óþægilegt að heyra að ómennið hefði munstrað hugmyndafræði sína því sama nafni.
En þrátt fyrir hryllinginn sem svona atburðir eru þá er um þessar mundir friðvænlegra í okkar heimshluta en nokkru sinni fyrr. Jafnvægið er viðkvæmt, en þegar svona voðaverk eru framin þá er það fávísin sem skrámar viskuna, hatrið að klóra í kærleikann. Enn um sinn á illskan ofjarl í gæskunni.
Ritstjórn Charlie Hebdo var ekki í neinu stríði við íslam. Blaðið gerði grín að öllum trúarbrögðum og stjórnmálaskoðunum. Það starfaði á grundvelli húmanisma og húmors. Þar voru ekki neinar heilagar kýr. Sama fólk og var myrt í París í gær hefði líklega verið brennt á báli á tímum spænska rannsóknarréttarins. Þetta fólk var í liði með manneskjunni gegn kreddum og forheimskun. Fólkið sem féll í gær er sama gerð af fólki og braut á bak aftur kúgun fyrri alda í Evrópu og skóp—með pennann og líf sitt að vopni—það mannréttindasamfélag sem við njótum í dag, og tökum sem sjálfsögðum hlut.
Í gær, og í dag, á morgun – og alla daga, er rétt að taka afstöðu með fórnarlömbum voðaverksins í París í gær. Sú afstaða er með manneskjunni sem hugsandi veru og sem einstaklingi. Það er afstaða gegn heilaþvætti, valdníðslu og blekkingum. Það er afstaða með þeim sem efast um yfirvaldið en upphefja dómgreindina. Það er afstaða með heilbrigðri skynsemi og gegn múgsefjun. Afstaða með friðsemd og gegn ofbeldi.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021