Árið 2016 tilkynnti sitjandi forseti, Ólafur Ragnar Grímsson, að hann byði sig ekki fram. Í áramótaávarpi sagði Ólafur að þá væru ,,[..]hin réttu vegamót að færa ábyrgð forseta yfir á aðrar herðar og hef því ákveðið að bjóða mig ekki fram til endurkjörs“.
Þó svo að forsetinn virtist hafa tekið af allan vafa um að hann hygðist láta af embætti var það, ótrúlegt en satt, ekki öruggt. Áramótaávarp hans frá 2012 var fólki enn ferskt í minni en þar gaf hann einnig til kynna að hann ætlaði að stíga til hliðar. Vissulega var það ekki með eins afgerandi hætti og túlka mátti ávarpið og hvorn veginn sem var: Að hann ætlaði að halda áfram eða að þetta yrði hans síðasta kjörtímabil.
Í ávarpinu 2012 vísaði hann í þá óvissu sem skapast hafði um forsetaembættið árin undan og gaf í skyn að hann teldi skyldu sína að sitja sem fastast.
En hann sagði jafnframt: ,,[..] ég geti fremur orðið að liði ef val á verkefnum verður eingöngu háð mínum eigin vilja, óbundið af þeim skorðum sem embætti forsetans setur jafnan orðum og athöfnum“. Því var auðvelt að túlka orð Ólafs þannig að hann ætlaði að leysa sjálfan sig undan skorðum embættisins á orð og athafnir enda hafði hann nú þegar setið í þau fjögur kjörtímabil sem forverar hans höfðu skapað hefð um.
Þó læddist að manni sá grunur að forsetinn væri ekki tilbúin til að láta af embætti. Forsetatíð hans hafði verið umdeild og svo virtist sem Ólafur vildi kanna hver hugur kjósenda væri til hugsanlegs framboðs.
Í samtali við RÚV í janúar 2012 neitaði forsetinn að skera úr um þann vafa sem upp var kominn og jók það enn frekar á óvissu kosninganna.
Stuttu eftir viðtalið opnuðu stuðningsmenn Ólafs undirskriftasíðu til að skora á hann að bjóða sig fram að nýju. Mánuði seinna voru nærri 10% þjóðarinnar búin að skrifa undir og í mars skar hann endanlega úr um vafann og gaf kost á sér.
Óvissan hafði þó virkað hvetjandi á nokkra aðila til að bjóða sig fram og líklega hefur hugmyndin skotið rótum í kollinum hjá enn fleirum. Þegar Ólafur tilkynnti framboðið voru þegar tveir aðrir frambjóðendur komnir fram og fleiri bættust í hópinn á næstu vikum.
Í spennandi kosningabaráttu vorið 2012 sigraði Ólafur meðal annarra frambærilegt framboð Þóru Arnórsdóttur og því ljóst að hann yrði þaulsætnasti forseti lýðveldisins til þessa.
Svipað var upp á teningnum þegar nær dró áramótum 2015 og vangaveltur fóru aftur af stað um hugsanlega frambjóðendur í kjöri til forseta Íslands. Nokkrir stigu fram en flestir ákváðu að bíða eftir ávarpi forseta til að fá vísbendingar um framhaldið.
Skýrara gat það ekki orðið, Ólafur sagðist hafa ákveðið að ,,[..] bjóða mig ekki fram til endurkjörs“.
Allt fór á fullt og næstu mánuði bættust nýir frambjóðendur við nánast vikulega. Þegar mest var höfðu 15 manns lýst yfir framboði og enn fleiri íhugað það á einhverjum tímapunkti.
Án efa kom blaðamannafundur á Bessastöðum seint í apríl einhverjum á óvart. Þvert á fyrri yfirlýsingar, tilkynnti Ólafur Ragnar um framboð. Og nú vegna þeirrar miklu óvissu sem ríkti í þjóðfélaginu en þó með þeim fyrirvara að hann væri sáttur ef þjóðin veldi annan frambjóðenda.
Strax í kjölfarið drógu nokkrir aðilar framboð sín til baka enda voru forsendur kosninganna nú gjörbreyttar.
Þó að kvarnast hefði úr hópi frambjóðenda voru þó nokkrir sem bættust við og þar á meðal háskólaprófessorinn Guðni Th. Jóhannesson. Eftir að línur fóru að skýrast með frekari kynningu frambjóðenda virtist fylgið færast til Guðna.
Því heyrði það til nokkurra tíðinda að í könnun sem birtist í maí 2016 var Guðni kominn með mest fylgi og meira en sitjandi forseti sem um svipað leyti hætti við að hætta við að hætta.
Eftir þessa áhugaverðu þróun og langan aðdraganda var því ljóst að við Íslendingar myndum fá nýjan forseta. Forysta Guðna var í raun aldrei í hættu eftir þetta og var hann kosinn í embætti 25. júní 2016 úr hópi 9 frambjóðenda með rúmum 39% atkvæða.
Það er því óhætt að segja að aðdragandi kosninga vorið 2016 hafi verið sérstakur og skemmtilegt að velta því fyrir sér af hverju Ólafur Ragnar Grímsson hafi farið svona fram og til baka með ákvörðun sína um að stíga til hliðar. Má geta sér til um að hann hafi ekki verið rólegur með ákvörðunina fyrr en vissa væri um að fram kæmi sigurstranglegur frambjóðandi sem treystandi væri fyrir starfinu. Ef það var raunin var sitjandi forseti kannski kominn full langt í landsföðurshlutverkinu.
Engu að síður æxluðust málin þannig að við tók einstaklingur sem sinnir starfinu með alúð og sóma og veit nákvæmlega hvert hlutverk forseta Íslands á að vera.
Eins og sést í aðdraganda kosninganna nú í vor er alls ekki sjálfsagt að slíkir frambjóðendur bjóði sig fram.
- Nýr 100 ára Selfoss - 20. júlí 2021
- Íslensk sumarnótt - 7. júlí 2021
- Skýrar línur í bankasölu - 24. júní 2021