Með þeim rökum sem nú hafa verið notuð til þess að skylda alla sem hyggjast fara yfir íslensk landamæri til tvöfaldrar sýnatöku með sóttkví á milli er ógjörningur að ímynda sér að nokkurn tímann komi upp sú staða að hægt verði réttlæta neitt annað fyrirkomulag á landamæravörslunni.
Ein manneskja var á spítala, við bærilega heilsu eftir því sem næst verður komist, þegar stjórnvöld ákváðu að breyta frá því fyrirkomulagi sem verið hafði við lýði frá 15. júní. Líkt og í öðrum löndum hafði smitum fjölgað yfir sumartímann, þegar hreyfing komst á samfélagið eftir fyrstu bylgju faraldursins.
Auðvitað er hægt að herða sóttvarnir til muna, meira að segja frá þeim tillögum sem taka eiga gildi eftir nokkra daga. Ef einungis sóttvarnarsjónarmið lægju til grundvallar er bara fáránlegt að fólk sé að fara út úr húsi þegar umgangspestir ganga yfir. Árlega deyr fjöldi fólks af völdum inflúensu hér á landi. Hún berst auðvitað helst á milli í skólum og vinnustöðum. Ef einungis sóttvarnarsjónarmið réðu ferðinni væri auðvitað ekkert annað í stöðunni en að loka landinu, loka skólunum og öllu klabbinu á meðan inflúensan gengur yfir á hverju ári. En það er auðvitað ekki gert, inflúensan er hluti af tilverunni, við verjumst henni eins og kostur er án þess að setja allt á hliðina.
Sóttvarnarlæknir sendi stjórnvöldum níu valmöguleika. Leið fimm var valin, sú sem að ofan er lýst. Hún gengur býsna langt og setur verulegar hömlur á ferða- og athafnafrelsi borgaranna, án þess þó að með henni sé tryggt að veiran berist ekki frá útlöndum eða að hún nái sér á strik á nýjan leik í samfélaginu. Vonandi er hér um að tefla frávik frá þeirri skynsamlegu stefnu sem unnið hefur verið eftir hingað til í kófinu. Grímulaus æska ætti að vera markmiðið núna.
Hingað til hafa stjórnvöld eftirlátið þríeykinu að leggja línurnar. Við blasir að sóttvarnaryfirvöld vildu ekki lengur hafa það hlutverk með höndum að blanda tónikinu við ginið til að fá réttu blönduna. Þess vegna var stjórnvöldum sendur einn tvöfaldur á klaka og þeim eftirlátið að blanda tónikinu saman við að teknu tilliti til annarra hagsmuna. Ekki er víst að sóttvarnaryfirvöld hafi gert ráð fyrir að stjórnvöld myndu skella þessu ofan í sig óblönduðu – sem þau gerðu.
En, það er auðvitað ekkert víst að þetta klikki og vonandi nær skynsemin yfirhöndinni á nýjan leik, eins og hún gerir oft þrátt fyrir einn og einn tvöfaldan sjúss.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021