Margir hafa orðið til að finna náttúrupassa iðnaðarráðherra allt til foráttu, en nú síðast sagði nýskipaður umhverfisráðherra að henni hugnaðist gjaldtaka af slíku tagi mjög illa. En hverjir eru kostir náttúrupassans fram yfir aðra gjaldtökukosti á borð við komu- eða gistináttagjöld, og getur verið að hann sé umhverfisvænni en önnur gjaldtaka?
Flestir virðast á einu máli um að ferðaþjónustan standi frammi fyrir fjárþörf til upbbyggingar innviða á vinsælum ferðamannastöðum. Ef þessi fjárþörf væri eini vandi ferðaþjónustunnar, þá væru gjaldtökuleiðir sem legðust jafnt á alla ferðamenn klárlega heppilegra skattheimta en sala náttúrupassa, enda töluvert einfaldari í framkvæmd.
Raunin er hinsvegar sú að vandi greinarinnar er tvíþættur; til viðbótar fjárþörfinni er ágangur ferðamanna, bæði innlendra og erlendra, vandi sameiginlegrar auðlindar (e. common pool resource). Og fyrst flestum þykir eðlilegt að útgerðir greiði fyrir aðgang að sameiginlegum sjávarauðlindum þjóðarinnar er varla fjarstæðukennt að náttúruunnendur greiði fyrir aðgang að sameiginlegum náttúruperlum landsins.
Rétt eins og veiðar valda ágangi á fiskistofna landsins veldur ferðamaður nefnilega tvíþættum kostnaði við að heimsækja vinsælan ferðamannastað, sem hann greiðir hvorki fyrir undir núverandi skipulagi, né með auknum komu- eða gistináttagjöldum. Í fyrsta lagi skaðar ágangurinn náttúruna og í öðru lagi rýrir hann upplifun annarra vegna mannmergðarinnar, en hvort tveggja náttúrufegurð og einstök upplifun eru helstu söluvörur ferðaþjónustunnar. Þessi kostnaður er jafnframt meiri á ákveðnum vinsælum svæðum, t.d. á Gullna hringnum og við Landmannalaugar, og á ákveðnum árstímum, t.d. á sumrin þegar flestir ferðamenn eru í landinu. Því virðist lítið vit í að rukka ráðstefnugest, sem aldrei yfirgefur borgarmörkin, um jafnháa upphæð og ferðamann sem eyðir sumarleyfinu á hringferð með tilheyrandi ágangi á náttúru landsins.
Náttúrupassinn er því í raun grænn skattur sem aflar tekna um leið og greiðsla gjaldsins knýr ferðamanninn til að taka tillit til þess kostnaðar sem hann veldur við ákvörðun um heimsókn á ferðamannasvæði – með öðrum orðum má nýta passann til aðgangsstýringar ekki síður en fjáröflunar. Helsti ljóðurinn á náttúrupassanum í núverandi mynd er að hann virðist gilda á alla ferðamannastaði í eigu og umsjá opinberra aðila, svo enginn greinarmunur er gerður á álagstímum og –svæðum.
Yrði passinn gerður svæðisbundinn og árstíðabundinn, eins hlýtur að koma til álita þegar aukin reynsla er komin á fyrirkomulagið, væri hinsvegar hægt að nýta verðlagningu passans til þess að beina umferð ferðamanna inn á svæði og árstíma sem þola fjölgun ferðamanna betur. Þar með er staðinn vörður um náttúru landsins, ekki aðeins með uppbyggingu innviða sem víkka út þolmörk ferðamannastaða heldur einnig með gjaldtökukerfinu sjálfu.
Slík gjaldtaka hlýtur að vera bæði hagkvæmari og umhverfisvænni en aðrir kostir sem komið hafa til skoðunar.
- Borg án sýningarstjóra - 7. desember 2015
- Kombakk plötunnar - 25. ágúst 2015
- Hugleiðing um tjáningarfrelsi - 4. maí 2015