Uppsveifla efnahagslífsins í Bandaríkjunum hefur nú staðið í níu ár og er það lengsta samfellda hagvaxtarskeið vestra síðan á sjöunda áratugnum. Verðgildi hlutabréfa vex stöðugt, atvinnuleysi er tiltölulega lítið og staða alríkissjóðsins hefur batnað til mikilla muna. Á síðustu árum hefur langlífi uppsveiflunnar verið þakkað skynsamri efnahagspólitík Alans Greenspans, seðlabankastjóra Bandaríkjanna. Nú í vikunni brá svo við að Seðlabankinn hækkaði vexti og gaf ennfremur fyrirheit um frekari vaxtahækkanir. Með þessu vill Greenspan stuðla gegn þenslu efnahagslífsins og aukinni hættu á verðbólgu.
Þessi lýsing minnir óneitanlega á íslenskt efnahagslíf þennan síðasta áratug 20. aldar. Margir Bandaríkjamenn bera ekki síður en Frónbúar þann ótta í brjósti, að allt hljóti að fara til fjandans fyrr eða síðar – alveg eins gerðist með síðustu uppsveiflu. Það sem felldi bandaríkst efnahagslíf á 7. áratugnum var ótrúleg fábreytni þess. Mjög svo aukin fjölbreytni nú, fleiri styrkar stoðir, munu hins vegar framlengja uppsveifluna – jafnvel um fyrirsjáanlega framtíð. Eins og ónefndur efnahagssérfræðingur vestra orðaði það: Uppsveiflan mun ekki hætta af sjálfsdáðum.
Sama gildir hér á landi. Bölsýnismenn hafa óspart líkt efnahagsástandinu nú við ástandið í lok 9. áratugarins þegar allt fór til fjandans á nokkrum vikum. Þá var það tvennt sem olli: annars vegar óskapleg fábreytni í íslensku atvinnulífi og hins vegar miður gáfulegar aðgerðir stjórnmálamanna. Nú býr atvinnulífið við allt annað umhverfi og er því mun líklegra til að komast af sjálfsdáðum í gegnum tímabundna erfiðleika.
Þó verður því miður að segjast eins og er, að Íslendingar eru heldur líklegri til að skjóta góðærið niður en Bandaríkjamenn. Frelsi í viðskiptum þar er mun meira og skattbyrði umtalsvert lægri. Þá er alríkisstjórnin ekki að brölta inn á jarðsprengjusvæði, eins og að koma að kjarasamningum einkaaðila, en það virðist íslenskum stjórnvöldum óumflýjanlegt. Það er sjálfsagt að ríkisvaldið beiti sínum hagstjórnartækjum, eins og efnahagsyfirvöld í Bandaríkjunum hafa nú gert, og hér á landi reyndar líka. Það sama á hins vegar við á báðum stöðum: Ekkert er líklegra til að binda enda á góðærið en afskiptasemi og íhlutun ríkisvaldsins í efnahagslífið.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021