Persónuverndarsamtök í Bandaríkjunum hafa nýlega vakið athygli á einkar óhuggulegu samstarfi sem komið hefur verið á milli menntamálayfirvalda og lögreglu í Pasco sýslu í Flórída. Þar hefur greining á gögnum leitt til þeirrar niðurstöðu að ýmis konar viðvörunarbjöllur úr gögnum skólakerfisins eru notuð til þess að hefja snemmbær inngrip í líf ungmenna sem talið eru líkleg til að lenda á refilstigum.
Fylgst er með mætingu nemenda, hegðunarbrotum og margvíslegum öðrum atriðum sem saman teikna upp heildstæða—en ákaflega ómanneskjulega—mynd af unglingum. Lögreglan fær aðgang að þessum gögnum og hefur á síðustu árum notað þau til að hefja eftirlit með unglingum sem gervigreindin hefur stimplað sem upprennandi glæpamenn. Fjölmörg dæmi eru um að lögregluþjónar hafi mætt inn á heimili þessar ungmenna og komist þar á snoðir um hitt og þetta smotterí sem börnin eða foreldrar þeirra hafa verið sektuð fyrir. Hið stöðuga eftirlit og ítrekuðu afskipti lögreglu af ungmennunum hefur því átt þátt í því að hjálpa spá gervigreindarinnar að rætast; því flestir vita að undir stöðugu eftirliti lögreglu þá endar með því að hægt er að nánast alla á smávægilegum misfellum, hvort sem það eru umferðarlagabrot, sóttvarnabrot eða eitthvað annað sakleysislegt.
Þetta ískyggilega samstarf milli skólayfirvalda, sem ættu að standa vörð um réttindi stúdenta, og lögreglunnar, hefur viðgengist í allnokkur ár. Það er hrikalegt áhyggjuefni að virðingarleysi fyrir friðhelgi einkalífs og mannhelgi sé orðin svo útbreidd að svona ráðabrugg geti gengið árum saman án þess að gripið sé í taumana. Það miður virðist þetta þó frekar vera lýsandi fyrir núverandi ástand heldur en hitt, eins og sjá má á vilja fólks til þess að gefa möglunarlaust upp á bátinn margvísleg mannréttindi í tengslum við faraldurinn. Þessi þróun getur leitt í mikilla hörmunga, og það getur gerst hratt. Þess vegna er lífsnauðsynlegt fyrir öll samfélög þar sem virðing fyrir mannréttindum ríkir að mikilvægi persónuverndar og mannvirðingar sé haldið á lofti og að fyrir þessum gildum sé barist.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021