Stundum er sagt að við séum þrælar vanans. Að stór hluti þess sem við gerum er vegna þess að þannig hafi það alltaf verið gert áður.
Til að þess að brjótast upp úr hjólförum hátta sem hafa verið ríkjandi er oft nauðsynlegt að hrista duglega upp í hlutunum sem verður síðan til þess að sjáum umhverfi okkar í nýju ljósi.
Útbreiðsla veirunnar virðist ætla að hafa þessi áhrif. Margt af því sem okkur þykir sjálfsagt, svo sem að heimsækja ættingja eða setjast á kaffihús, er í einni svipan hættulegt. Einföld ferð í næstu kjörbúð er orðin háskaför og enginn tekur í hönd vina og kunningja án þess að stefna lífi viðkvæmra hópa í hættu. Hlutir sem við höfum hingað til álitið sjálfsagða, svo sem sundferðir eða pöbbarölt, verða að bíða betri tíma.
Áhugavert er að hugsa til þess hvaða varanlegu breytingar þetta gæti haft í för með sér. Hvað af þessari nýju hegðun við eigum eftir að tileinka okkur til frambúðar sem hluta hversdagsleikans og hvernig við munum hegða okkur öðruvísi eftir veiru en fyrir veiru.
Fyrst er að nefna að við stöndum frammi fyrir sameiginlegum óvini sem gerir ekki greinarmun á fólki eftir þjóðerni eða stöðu almennt. Slíkir erfiðleikar gætu leitt til aukinnar samstöðu sem nýtist í þeim áskorunum sem framtíðin ber í skauti sér. Til dæmis má ætla að þetta sé ekki í síðasta skipti sem við þurfum að kljást við heimsfaraldur. Sá næsti gæti jafnvel verið skæðari en sá sem nú geisar. Þá verður heimsbyggðin vonandi betur undir búin.
Gildi þess að hafa öflugt heilbrigðiskerfi og þétta framlínu almannavarna hefur nú sannað sig. Ákvarðanir sem teknar voru á upphafsdögum faraldursins munu verða afdrifaríkar þegar á líður og líklega skipta miklum máli um það hversu miklum skaða hann veldur. Vonandi eykst virðing almennings fyrir þekkingu kunnáttufólks í kjölfarið og að sama skapi að sjálfskipuðum sérfræðingum fækki.
Neysluvenjur okkar gætu breyst til frambúðar. Heimsending á alls kyns vöru er nú möguleg sem var ekki í boði áður og ýmis þjónusta er veitt í gegn um netið. Dæmi um það er að úrval á heimsendum mat frá veitingahúsum hér á landi hefur aukist mikið á síðustu vikum. Verslanir eru jafnframt farnar að senda heim og nú keppast kaupmenn við að bjóða vörur á netinu. Þeir sem nú þegar bjóða slíka þjónustu anna ekki eftirspurn.
Reiðufé í umferð mun eflaust minnka töluvert enda hafa snertilausar lausnir nú fengið aukið gildi.
Líklega hefði netverslun og rafrænir greiðslumátar náð yfirhöndinni á einhverjum tímapunkti en vandræðin sem við erum nú í virðast ætla að hraða því ferli þó nokkuð.
Það má líka vel ímynda sér að fólk verði meðvitaðra um gildi þess að þvo sér vel um hendurnar og líklega er sprittið komið til að vera. Fyrir veiru voru það nærri einungis ferðamenn frá Asíu sem skörtuðu andlitsgrímum en eftir veiru gætu fleiri tekið upp á því að reyna að verjast sjúkdómum með þeim hætti.
Margir eru búnir að koma sér upp búnaði til fjarfunda og hlotið þjálfun í því að ræða við vini, fjölskyldu og vinnufélaga í gegn um myndavélar og hljóðnema. Í sumum tilfellum hefur fólk komist að því að slíkir fjarfundir geti verið skilvirkari en þeir hefðbundnu. Ekki þarf að ferðast á milli staða eða finna fundarstað ásamt því að oft fer minni tími í hefðbundið kurteisishjal í upphafi og lok funda. Tæknilegu vandræðin sem hafa hingað til verið þó nokkur hindrun hafa minnkað mikið. Þegar stór hluti þjóðfélagsins þarf að nýta sér tæknina, eykst viljinn og getan til að leysa bæði úr þeim hnútum sem koma til vegna vankunnáttu notenda og takmarkana tölvubúnaðarins.
Aukin vinna heima gæti verið þróun sem breytir vinnuumhverfi okkar til frambúðar, bæði með tilliti til sveigjanleika og skrifstofurýmis. Mætti hugsa sér að þessi aukni sveigjanleiki gæti til að mynda minnkað umferð og komið sér vel fyrir barnafólk.
Engin ástæða er til að gera lítið úr alvarleika faraldursins sem líklega mun valda sýkingu milljóna um allan heim og dauða ískyggilega stórs hluta þeirra.
Engu að síður er hægt að vona að við náum okkur fljótt og við fáum aftur notið þeirrar framþróunar sem hafði orðið áður en veiran lagðist á heimsbyggðina. Að við hverfum ekki aftur í tímann heldur höldum áfram þar sem frá var horfið áður en þessi óskapnaður gerði vart við sig.
Þó að margt hafi þróast á verri veg er hugsanlegt að við lærum eitthvað nýtt sem nýtist okkur til frambúðar.
- Nýr 100 ára Selfoss - 20. júlí 2021
- Íslensk sumarnótt - 7. júlí 2021
- Skýrar línur í bankasölu - 24. júní 2021