Við getum öll verið sammála um að makar skipta heilmiklu máli. Við sem erum makar skiptum þannig vonandi heilmiklu máli fyrir þá sem við gegnum því hlutverki gagnvart. Raunar má halda því fram að makahlutverkið sé grundvallað á ákveðinni gagnkvæmni, hjá flestum alla vega.
Við makar erum sem slíkir í þeirri aðstöðu að vera fylgihnöttur aðalpersónunnar sem skilgreinir stöðu okkar á hverjum tíma, og einmitt í þeirri aðstöðu erum við makar. Hjá flestum verða regluleg hlutverkskipti, pólskipti sem þýða að segulpóllinn færist okkur mökum í hag. Við hættum þá að vera makar um hríð og verðum aðal. Í flestum tilvikum gerist allt ofangreint án þess að því sé veitt sérstök eftirtekt. Árshátíðir, jólahlaðborð, brúðkaup, afmæli – allt þetta kemur og fer á báða bóga og hin sífellda hringrás umpólunar heldur áfram.
Starf annars maka er þó það sem vegur þyngst í því að ákvarða hlutverk hins. Þegar ég var í MR vissi ég að Hannes portner átti konu og hennar hlutverk hvað mig varðaði hófst og endaði þar, hún var maki portnersins. Hvað aðra varðaði var Hannes maki hennar. Kannski var hún formaður í Rotarýklúbbi, ég veit það hreinlega ekki en ef svo var, þá var Hannes maki formannsins hvað aðra meðlimi klúbbsins varðaði. Ekki flókið, gagnkvæmni og umpólun.
Það er vitað að fólk rækir makahlutverk sitt með ólíkum hætti og það er líka vitað að fólki líður misjafnlega í makahlutverkinu. Sumir taka meiri þátt í því sem makinn er að gera en aðrir en fæst viljum við vera skilgreind af því sem makinn er að fást við.
Margaret Thatcher var forsætisráðherra Bretlands frá 1979 til 1990 og er hún af mörgum talinn einn aðsópsmesti þjóðarleiðtogi síðari tíma. Fyrstu 26 ár ævinnar hét hún reyndar öðru nafni, Margaret Hilda Roberts. Í desember árið 1951 giftist Margaret Hilda manni að nafni Denis Thatcher. Denis þessi var 10 árum eldri og fráskilinn en svo heppilega vildi til – fyrir hann – að fyrri kona hans hét einmitt líka Margaret. En það skiptir ekki öllu máli.
Denis var kaupsýslumaður og annaðist rekstur á fjölskyldufyrirtækinu sem komið hafði í hans hlut. Framan af hjónabandinu var Margaret Hilda því oftar en ekki hlutverki maka forstjórans og oft vísað til hennar sem Frú Denis Thatcher. Eflaust hefur henni mislíkað þetta hlutverk en í stað þess að fá stjórn fyrirtækisins til að viðurkenna stöðu hennar og fá henni verkefni við hæfi sem maki forstjórans þá fetaði hún sína eigin braut. Fljótlega var Margaret Hilda ekki lengur kölluð Frú Denis Thatcher, heldur Frú Thatcher.
Frá árinu 1979, þegar Margaret Thatcher varð forsætisráðherra Bretlands, var Denis maki forsætisráðherrans. Staða hennar skilgreindi hann sem maka og þannig varð hann þekktur. Hann fór hins vegar sínu fram og tók áfram virkan þátt í viðskiptum, með ekki sérstökum árangri þó. Hann rækti makahlutverkið samhliða sínum eigin störfum, tók á móti gestum og fylgdi eiginkonu sinni á fundi og í heimsóknir á erlendri grundu.
Eflaust hefur Denis ekki alltaf verið sáttur við sína stöðu og skort á gagnkvæmni og reglulegri umpólun. Það verður hins vegr ekki horft fram hjá því að fæstir myndu í dag þekkja nafnið Thatcher ef Margaret Hilda hefði ekki ákveðið árið 1951 að giftist Denis blessuðum og taka upp ættarnafn hans í stað síns.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021