Það er fróðlegt að fylgjast með samstilltri þjóðarsál í glímu við farsótt. Samstaðan átti vafalítið stóran þátt í því að okkur tókst að fletja kúrfuna mjög hressilega þegar faraldurinn barst hingað. Skynsamleg ráð vísindamanna sem stjórnvöld gerðu að stefnu sinni vöktu með þjóðinni traust og fylgispekt.
Síðan kom tímabil þar sem sigur virtist hafa verið unnið. Fjórði maí rann upp og smám saman yfirtók liturinn yfir „batnaða“ litinn yfir þá sjúku á grafi sérfræðinganna. Þegar sumarið gekk í garð voru hreinlega engin smit að greinast og kúrfan hafði ekki bara verið flött heldur keyrð ofan í gólfið.
En þrátt fyrir þetta sögðu vísindamennirnir okkar allan tímann að þetta væri langhlaup, að við yrðum að búa okkur undir að venjast tilverunni með covid á sveimi. Fólk myndi veikjast aftur og smita aðra. Þeir sögðu líka að það væri enginn lausn að loka okkur algjörlega af, ekki nema við ætluðum að gera það næstu 2-3 árin þar til bóluefni fyndist.
Svo gerist það núna þegar komið er fram yfir mitt sumar að smit greinast á nýjan leik. Þá hlaupa menn upp til handa og fóta eins og það hafi verið algjörlega ófyrirséð. Nei, það var búið að segja það allan tima að það myndi gerast. Enginn hefur enn verið lagður inn. Tilgangurinn með að fletja kúrfuna var ekki að halda íslensku þjóðinni einangraðri, tilgangurinn var að koma í veg fyrir að svo margir veiktust á sama tíma að það yrði heilbrigðiskerfinu um megn.
Það er auðvelt að mála skrattann á vegginn. Það hefur líka engar afleiðingar. Það hefur engar afleiðingar fyrir svartsýnisspámann að spárnar hans rætist ekki. Það segir sjálft. Allir eru svo fegnir að enginn er í skapi til álasa hinum falska spámanni. Bjartsýnisspámaður er hins vegar flengdur og steiktur á teini þegar hans spá bregst. Eðlilega.
En vandinn verður hins vegar raunverulegur þegar svartsýnar spár leiða til viðbragða sem valda tjóni umfram það sem tilefni er til. Í því reynir á styrk bæði sérfræðinga og stjórnmálamanna. Við höfum borið gæfu til þess hingað til að nálgast málin vísindalega og af raunsæi. Nú er ekki tíminn til að hlaupa upp til handa og fóta og setja upp grímuna.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021