Í dag er nákvæmlega 31 ár liðið frá tveimur merkum atburður í mannkyssögunni.
Þann 4. júní 1989 fóru fram fyrstu frjálsu kosningarnar í Póllandi frá stríðslokum. Þær voru jafnframt þær fyrstu í þessum heimshluta frá því að járntjaldið skall á. Í kosningunum vann stjórnarandstaðan sigur og í kjölfarið tóku nýir valdhafar við stjórnartaumunum, hentu út alþýðuforskeytinu úr nafni landsins, komu á lýðræðis- og markaðsumbótum og … kusu Wojciech Jaruzelski sem forseta. Þá sögu geta menn lesið á wikipedia. Einn lærdómurinn er sá að bestu umbótum má vel koma á án byltinga.
Frelsið og lýðræðið tóku þarna stökk fram á við. Á næstu mánuðum hrundum kommúnistastjórnir annarra ríkja í heimshlutanum.
Þann 4. júní réðst kínverski herinn á Torg hins himneska friðar og leysti upp mótmæli námsmanna sem þar höfðu staðið yfir í nokkra daga. Mótmælendur höfðu meðal annars reist sína eigin frelsisstyttu úr pappa og frauðplasti. Tákn lýðræðis í hjarta hins kommúníska ríkis. Herinn lét til skara skríða. Frelsisstyttan var jöfnuð við jörðu og myndband af því táknræna augnabliki sýnt í kínverska sjónvarpinu. Frelsið og lýðræðið námu þarna staðar. Og hafa ekki haggast mikið í Miðríkinu síðan.
Hugveitan Freedom House mælir árlega frelsi í heiminum. Eins og sjá má á grafinu fyrir neðan var seinasti áratugur 20. aldar ansi góður áratugur fyrir frelsi. Ófrjálsum ríkjum fækkaði en frjálsum fjölgaði að sama skapi:
(Sum ríkin eru flokkum sem frjáls að hluta, sem skýrir af hverju, tölurnar summast ekki upp í 100%.)
Frelsið í heiminum náði hámarki á því góða ári 2007 en síðan þá hefur leiðin legið niður á við.
***
Fyrirmyndir skiptu máli. Bandaríkin voru leiðandi afl meðal Vesturvelda og Evrópusambandið var fyrirmynd fyrir þau ríki í Evrópu sem vildu taka upp frjálslynt lýðræði.
Nú um stundir virðast Bandaríkin ekki hafa áhuga á því að vera leiðandi þegar kemur að frjálslyndi, lýðræði og alþjóðasamvinnu, hafa kerfisbundið dregið sig út úr alls konar alþjóðasamstarfi í eins konar mótmælaskyni. Það má spyrja sig hvort við séum að upplifa svipaðan tíma og þegar breska heimsveldið hætti að vera stórveldið í heiminum. Munurinn er þó helst sá að Bandaríkin virðast ætla að gera fullkomlega á eigin spýtur og án nokkurs ytri þrýstings.
Inn í þetta holrúm mun einhver stíga. Evrópusambandið væri kandidat en það er augljóst að úrsögn Breta hefur ekki styrkt það í bili. Sem er vandamál.
Ég hef áhyggjur af þessu. Ekki aðeins er frjálsum ríkjum að fækka heldur fækkar einnig sterkum fyrirmyndum sem ríki sem vilja vera frjálsari geta litið upp til. Þessari þróun þarf að snúa við. Frjáls lýðræðisríki þurfa að standa saman og starfa saman. Og finna til þess þann vettvang sem best hentar.
Það væri gaman að geta upplifað aðra eins bylgju og þá sem hófst 4. júní 1989. Í Póllandi. Ekki þarna lengra í burtu. En eins og staðan er hefur útlitið verið bjartara.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021