Það er lán okkar Íslendinga að hafa hvorki verið svo veruleikafirrt að leggja áherslu á eigin vígbúnað til að verjast hugsanlegum ógnum eða svo barnaleg að láta eins og heimurinn geti aldrei orðið hættulegur. Við erum herlaust land, en varin með aðild að NATÓ og sérstökum samningi við Bandaríkin.
En eins og í ýmsu öðru þá gagnast okkur að vera smáþjóð án stórveldisdrauma. Í stöðu Íslands geta nefnilega felist ýmis tækifæri ef vel og fagmannlega er haldið á samskiptum okkar við önnur lönd. Þessa dagana á sér stað sögulegur viðburður hér á landi, utanríkisráðherrar Norðurslóðaríkja mæta allir—þar á meðal utanríksráðherrar Bandaríkjanna og Rússlands í fyrsta sinn.
Oft hefur verið talað um hernaðarlegt mikilvægi Íslands vegna legu landsins. En mikilvægi Íslands þarf ekki bara að vera hernaðarlegt—það getur líka verið friðsamlegt. Landfræðileg staðsetning og menningarlegur bakgrunnur Íslands getur hugsanlega gert okkur kleift að vera land sem er treyst til þess að vera vettvangur fyrir samskipti milli ólíkra ríkja. Hin geðþekki utanríkisráðherra Bandaríkjanna svaraði á þessum nótum þegar hann var spurður í fréttum RÚV í kvöld—að hann myndi sannarlega mæla með Íslandi sem slíkum vettvangi fyrir leiðtogafund milli Biden og Pútín, og að hann hlakkaði til að koma oft aftur og dveljast lengur.
Fumlaus framkvæmd á afskaplega viðkvæmum diplómatískum dansi í tenglsum við þann viðburð sem nú er í gangi er ekki hrist framúr erminni. Undir fyrirhafnarlausu yfirborðinu liggur gríðarlegur og vandaður undirbúningur; þar sem fagmennska, þekking og útsjónarsemi íslensku utanríkisþjónustunnar kemur bersýnilega í ljós. Í því geta falist mikil verðmæti; ekki bara fyrir okkur Íslendinga, heldur mun fleiri.
Heimurinn er um þessar mundir nokkuð viðsjárverður. Um þróun heimsmála mun hið herlausa Ísland líklega seint hafa afgerandi bein áhrif. En það er hægt að gera mikið gagn fyrir heimsbyggðina og mannkynið með því að bjóða upp á traustan og áhugaverðan vettvang til vinsamlegra samskipta, jafnvel þegar taugarnar eru þandar. Orð eru til alls fyrst og þau hafa tilhneigingu til að vera mildari þegar manneskjur hittast augliti til auglitis í góðu umhverfi. Þar hefur Ísland sannarlega ýmislegt upp á að bjóða, eins og sjá má þessa dagana.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021