Íslenskri netfjölmiðlun hefur vaxið fiskur um hrygg svo um munar undanfarin ár og í dag skipta netfréttasíður tugum, jafnvel eru þær vel yfir hundrað séu vefsíður sveitarfélaga og allar héraðs- og svæðisfréttasíður taldar með. Fréttir eru að sjálfsögðu misvel unnar og líklega er stundum skortur á skotheldum heimildum. Jafnvel skortur á tíma til að vinna almennilega frétt. Minna er gert út af örkinni og þess í stað meira fylgst með á Facebook og athugað hvort ekki sé eitthvað að frétta. Þetta er líklega eðlileg þróun enda erum við öll óbeint orðin að fréttamiðlurum sjálf þegar við tjáum okkur á samskiptamiðlum.
Samhliða þessu hefur því miður borið meira á því að miðlar hreinlega steli fréttum annars staðar frá. Endurskrifa jafnvel aðeins og eru svo mögulega með sömu myndir og upphaflega fréttasíðan var með. Dæmin eru sannarlega fleiri þau sem komust í hámæli nýlega milli Ellýjar Ármannsdóttur sem er farin af stað með fréttasíðuna Fréttanetið. Ellý sakaði Mörtu á Smartlandi um að birta sínar fréttir án þess að geta heimilda. Án þess að ætla að fara að telja upp dæmin er mikilvægt að benda á mikilvægi þess að geta heimilda. Ekki síst er það mikilvægt í ljósi þess hversu stór og fjölbreytt flóra netmiðla er orðin og á mögulega bara eftir að stækka. Það er argasta vanvirðing að endurbirta fréttir án þess að geta heimilda og er ekkert annað en fréttastuldur.
Hér er ekki verið að gera lítið úr því góða og öfluga starfi sem unnið er á fjölmörgum fréttamiðlum. Það er sjálfsagt og eðlilegt að aðrir miðlar fylgi í kjölfar þeirra sem fyrst birta stórar og áhugaverðar fréttir enda skiptir fréttaskúbb miklu máli. Fagleg og vönduð fréttavinnubrögð eru að kanna sannleiksgildi fréttar og flytja svo sína útgáfu og geta heimilda hvaðan fréttin upphaflega birtist.
- Eldgos, gjörðu svo vel! - 30. apríl 2021
- Ameríkuferð Reykjanesskagans - 2. mars 2021
- Þegar landið rís - 25. janúar 2021