#FreeBritney

Það hefur alla tíð fylgt Britney að fólk annað hvort elskaði hana eða elskaði að hata hana, en allir höfðu skoðun á henniog hafa líklega enn.

Fyrr á þessu ári kom út heimildarmyndin Framing Britney Spears sem fjallar um poppstjörnuna, sjálfræðissviptingu hennar sem hefur varað í 13 ár og hvernig hreyfingin #FreeBritney hefur orðið til. 

Við sem erum fædd á 9. áratug síðustu aldar höfum fylgst með Britney frá barnæsku og verið henni samferða í gegnum lífið. Það hefur alla tíð fylgt Britney að fólk annað hvort elskaði hana eða elskaði að hata hana, en allir höfðu skoðun á henniog hafa líklega enn. 

Vegferð Britney í lífinu þekkja flestir. Barnastjarna sem varð stærsta poppstjarna heims. Mikið viðskiptaveldi varð til í kringum hana og ímynd hennar. Hún hefur alla tíð verið undir nálarauga fjölmiðla og her af ljósmyndurunum fylgdi henni alltaf hvert sem hún fór. Allt sem hún sagði og gerði var brotið til mergjar á bloggum og í slúðurtímaritum. Engin venjulega manneskja þolir slíkt álag til lengri tíma. Enda kom að því að þetta fór að hafa áhrif á hana. Hún fór að sýna merki þess að ráða illa við þetta álag. Ímynd saklausu poppprinsessunnar beið hnekki vegna framkomu sem þótti ekki sæma þeirri ímynd. Strax var farið að tala um að andleg heilsa hennar væri ekki í lagi. Dæmigerð umræða um konu sem reynir að fara eigin leiðir og vill ekki láta að stjórn. 

Britney giftist æskuvini sínum í Las Vegas en hjónabandið var ógilt 55 klukkustundum síðar. Viðskiptaveldið steig inn í og stoppaði þennan gjörning og var hjónabandið ógilt með þeim rökum að hún hafi ekki verið í andlegu ástandi til að taka þessu ákvörðun. Hafa ekki einmitt fjölmargir aðrir gift sig með stuttum fyrirvara í Las Vegas án þess að vera stimplaðir andlega vanheilir? Fljótlega eftir þetta fór hún að vera með dansaranum Kevin Federline, giftist honum og þau eignuðust tvo drengi með stuttu millibili. Ungu hjónin virtust ráða illa við ný hlutverk sín og talað var um að andlegri heilsu hennar færi enn hrakandi. Það endaði með einhvers konar taugaáfalli árið 2008. Þá hafði hún rakað af sér allt hárið, ráðist á ljósmyndara og sýnt aðra hegðun sem þótti bera þess merki að hún væri að missa tökin í lífinu. Þegar horft er til baka virðast þetta allt saman eðlileg viðbrögð við ómanneskjulegu álagi sem konan var undir á þessum tíma. Bara það að eignast tvö börn með stuttu millibili og allt sem því fylgir gæti fengið hvaða móður sem er til að taka upp regnhlíf og slá bíl ljósmyndara sem myndi elta hana á röndum daginn út og daginn inn. 

Þetta áfall hennar árið 2008 varð til þess að hún var svipt sjálfræði tímabundið og pabbi hennar skipaður einhvers konar gæsluaðili (e. conservatorship), bæði fyrir hana sjálfa og viðskiptaveldið. Fyrir þá sem gátu aðeins fylgst með úr fjarlægð gegnum fjölmiðla, þá hljómaði þetta skynsamleg ráðstöfun fyrir 26 ára gamla konu sem virtist komin fram af bjargbrúninni. Svona rétt á meðan hún myndi hlúa að sjálfri sér og ná áttum á nýjan leik. Til að gera langa sögu stutta þá er þessi tímabundna ráðstöfun enn við lýði, 13 árum síðar.

Nákvæmir skilmálar þessa fyrirkomulags hafa ekki verið opinberaðir en það virðist liggja fyrir að hún getur t.d. ekki skrifað undir neina samninga eða tekið neinar ákvarðanir sjálf sem varða starf hennar og frama. Það á líka við um hennar persónulega líf. Hvar hún á heima, hvaða fólk hún hittir, í hvað hún eyðir peningum og almennt hvernig hún hagar sínu lífi eru aðrir að taka ákvarðanir um. 

Á undanförnum misserum hefur risið upp á samfélagsmiðlumherferðin #FreeBritney sem telur að söngkonunni sé í raun haldið nauðugri og hún sé fangi föður síns. Markmið þessa hóps er að vinna að því að Britney losni undan sjálfræðissviptingunni og geti farið að lifa sjálfstæðu lífi. Margir þar hafa gengið svo langt að halda því fram að Britney sé að senda dulin skilaboð og kalla á hjálp í gegnum miðilinn Instagram. 

Frá því að þessu fyrirkomulagi var komið á hefur það verið framlengt margoft. Nýjasta framlengingin nær til september 2021. Rökstuðningur framlengingar er yfirleitt sá að hún sé ekki fær að hugsa um sig sjálf eða taka ákvarðanir um sitt líf. Sjálfræðissviptingar eru jú yfirleitt neyðarúrræði í tilvikum þar sem fólk er einmitt ekki fært um að sinna sjálfu sér eða taka eigin ákvarðanir, t.d. vegna veikinda eða slysa. Á þessum tíma, meðan hún hefur verið svipt sjálfræði,  hefur Britney gefið út plötur, haldið tónleika, farið í tónleikaferðir um allan heim, haldið úti stórsýningum í Las Vegas, leikið í sjónvarpsþáttum og ýmislegt fleira. Hljómar ekki beint sem manneskja sem er ekki fær um að sinna sjálfri sér. Það er í raun ótrúlegt að þetta fyrirkomulag hafi fengið að viðgangast svona lengi. Margir hagnast reyndar á þessu fyrirkomulagi, t.d. pabbi hennar og lögfræðingar sem að málinu koma og fá veglegar greiðslur mánaðarlega fyrir. 

Nú í júní 2021 kom Britney sjálf í fyrsta sinn í þessi 13 árfyrir dómara. Þar sagðist hún vilja losna undan þessu fyrirkomulagi sem hún lýsir sem ofbeldisfullu (e. abusive) í sinn garð. Hún segist hafa verið neydd til að vinna gegn vilja sínum, neydd til að vinna þrátt fyrir veikindi, hún sé neydd til að taka getnaðarvörn gegn vilja sínum og fái ekki að giftast kærasta sínum. Hún óskaði eftir því að í það minnsta myndi pabbi hennar stíga til hliðar sem gæsluaðili og óháður aðili fenginn til. Því var hafnað. 

Það var svo 14. júlí 2021 sem beiðni hennar um að fá að ráða sinn eigin lögmann var samþykkt en fram að þessu var hún með lögmann sem hún valdi ekki sjálf. #FreeBritney hreyfingin telur þetta mikilvægt fyrsta skref til að hún losni endanlega undan fyrirkomulaginu. 

Áhugavert verður að fylgjast með framvindu málsins en lítið annað er að gera en vona það besta fyrir hönd Britney og taka undir með samfélagsmiðlaherferðinni og segja #FreeBritney!

Latest posts by Helga Lára Haarde (see all)

Helga Lára Haarde skrifar

Helga Lára hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.