Unnendur knattspyrnu eiga það sameiginlegt að horfa á þennan einfalda leik sér til skemmtunar. Oft er skemmtunin tvíþætt, þ.e. annars vegar eins konar fagurfræðileg nautn og hins vegar samkenndin með því liði sem áhorfandinn tengist og spennan sem felst í óvissunni um niðurstöðu leiksins. Á síðari árum hefur sífellt meira borið á þeim hópi manna sem notar knattspyrnuleiki sem tylliástæðu eða vettvang fyrir óæðri hvatir sínar. Eru þeir gjarnan nefndir knattspyrnubullur. Þessir menn eiga enga samleið með íþróttinni – fæstir þeirra kaupa sér t.a.m. miða að leikjum. Þeir baða sig í því mikla fjölmiðlakastljósi sem fylgir vinsælustu íþrótt heims og svartur er ekki nógu dökkur litur til lýsa þeim bletti sem þeir setja á fótboltann.
Nú stendur yfir ein skemmtilegasta Evrópukeppni landsliða frá upphafi og þótt leikirnir í 2. umferð hafi staðið leikjum 1. umferðar töluvert að baki, eru gæði leikjanna almennt margfalt meiri en í úrslitum heimsmeistarakeppninnar. Síðarnefnda keppnin líður fyrir það sem kalla mætti jákvæða mismunun. Lakari þjóðum er hleypt inn til að jafna hlutfallið milli heimsálfanna. Um leið hættir keppnin að vera á milli á bestu liða heims en veður eins konar útstilling á knattspyrnu frá ýmsum heimshornum, eins konar heimssýning.
En fréttirnar frá Evrópukeppninni snúast ekki um þetta. Þær snúast um óeirðir knattspyrnubullna, einkum enskra, neyðarfundi knattspyrnuyfirvalda, hótanir um að Englendingar verði dæmdir úr leik og fleira í þeim dúr. Reyndar telur DEIGLAN að það besta sem komið gæti fyrir enska landsliðið í þessari keppni er að verða dæmt úr leik. Það myndi forða þessari elstu knattspyrnuþjóð, sem veður villu og svima um eigin getu, frá frekari niðurlægingu gegn þjóðum sem hafa tekið eðlilegum framförum síðustu þrjátíu árin.
Að mati DEIGLUNNAR eiga knattspyrnuyfirvöld að hætta að velta sér upp úr ólátum í tiltölulega fámennum hópum fávita. Slík ólæti eru refsiverð lögbrot og heyra undir valdstjórnina, ekki kokteilpinnana í alþjóðaknattspyrnuhreyfingunni. Þeir eiga að halda áfram að stuðla að útbreiðslu og viðgangi kanttspyrnunnar en ekki ganga manna harðast fram í að klína fávitaskapnum á íþróttina.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021