Þegar fólk þjáist af kvillum þá uppsker það – sem betur fer – yfirleitt samúð og stuðning frá náunganum og nærumhverfi. Einn er þó sá kvilli sem vekur ekki sömu viðbrögð heldur þvert á móti bakar viðkomandi jafnvel óvild samferðamanna og óþolinmæði ástvina.
Talið er að einn af hverjum 50 sé með þennan kvilla að einhverju leyti sem þýðir að 156 milljón sálir í heiminum ganga gegnum lífið undir stöðugri svipu fordæmingar hinna kvillalausu. Ef við yfirfærum þessar tölur á Ísland þá tilheyra 7.200 Íslendingar þessum hópi.
Algengt er að almenningur hafi ranghugmyndir um þá sem tilheyra þessum hópi og geri þeim upp eiginleika sem eru þó fjarri sanni. Dæmi um ósanngjarna stimpla sem fólk fær óverðskuldað á sig er að það hagi sér eins og argasti dóni, það hljóti að vera illa haldið af sjúklegri feimni, það sé snobbhænsn, fram úr hófi sjálfhverft og þaðan af verra. Því er stundum haldið fram að viðkomandi hljóti að vera að gera sér upp þennan kvilla þegar fólki blöskrar ein helsta birtingarmynd hans.
„Ég trúi ekki að þú munir ekki eftir mér, við vorum saman í bekk gegnum hálfan grunnskóla!“
„Ertu samt að grínast elskan, þekktirðu ekki Bjössa sem býr í næstu íbúð við okkur?“
„Já sæl og takk fyrir að kynna þig, við þekkjumst reyndar þar sem börnin okkar eru búin að vera saman í bekk í fimm ár.“
Dæmin hér fyrir ofan eru stílfærð raundæmi úr veruleika fólks sem á erfitt með að þekkja andlit. Almennt er orðið „ómannglöggt“ notað yfir þetta fólk en það er til fræðilegt heiti á meðfæddri brenglun á því svæði heilans sem sér um að þekkja andlit: andlitsblinda eða prosopagnosia. Á grísku stendur prosopon fyrir andlit og agnosia merkir að þekkja ekki.
Undirrituð er ein af þessum ólánsömu 7.200 Íslendingum og lendir ítrekað í aðstæðum þar sem kvillinn hamlar því sem annars hefðu verið ánægjuleg samskipti við gamla vini og kunningja. Þá er ótalinn sá fjöldi skipta þar sem undirrituð varð ekki einu sinni vör við að andlit sem ætti að þekkjast væri í nánd.
Það væri rík ástæða til að þessi mikli fjöldi myndi bindast samtökum um að vekja athygli á málefninu en ljóst er að fundarhöld yrðu þeim annmörkum háð að fólk myndi aldrei þekkja hvert annað í sjón. Þessi pistill er því tilraun til að opna umræðuna, auka skilning og draga úr fordæmingu hinna kvillalausu.
Næst þegar lesendur verða varir við að einhver sem þeir þekkja virðist ekki ætla að heilsa eða þeir mæta tómum augum eftir að hafa heilsað viðkomandi þá mega þeir endilega hugsa til þess að mögulega sé sá hinn sami ekki fáviti heldur einfaldega góð og hjartahlý manneskja sem þarf smá hjálp til að átta sig á hver kynnin eru.
- Vinnum upp mannfagnaði - 11. maí 2021
- Sameiginlegir hagsmunir - 6. apríl 2021
- Draumaverksmiðju-kryddið - 9. mars 2021