Nú hefur verkfall sjómanna staðið í tæpan mánuð og engin lausn virðist í sjónmáli. Reyndar virðast deiluaðilar fjarlægast hver annan meira með hverjum deginum. Og ekki er laust við að persónuleg illindi séu farin að setja svip sinn á deiluna. Þessi mikla harka er raunar einkennileg þar sem einföld lausn á stærstum hluta deilunnar blasir við. Deilan snýst að mestu um tvö atriði.
Category: Deiglupistlar
Nú styttist óðum í aftöku Timothys McVeighs og allt stefnir í metaðsókn. Upp er komið nokkuð sérstakt mál í tengslum við aftökuna, en það varðar tjáningafrelsi og höft þess samkvæmt bandarísku stjórnarskránni.
Deiglan afhjúpar náin tengsl á milli Röskvu og Samfylkingarinnar.
Í Speglinum á Rás 2 var fjallað um neytendavernd þann 10. apríl sl. Þar var rætt við fulltrúa Samkeppnisstofnunar og Neytendasamtakanna. Báðir voru fulltrúarnir á því að mikilvægt væri að skattgreiðendur létu meira fé af hendi rakna til þess að hægt væri að rækja það hlutverk að upplýsa neytendur um rétt sinn. Deiglan mun hins vegar sinna sínu neytendarverndarhlutverki endurgjaldslaust!
Fyrir réttum 27 árum stóð hópur manna fyrir undirskriftasöfnun undir kjörorðinu „Frjáls menning“. Einn af forsprökkum þessarar söfnunar var Hreggviður Jónsson, síðar þingmaður Borgaraflokksins, sem stýrði vel heppnaðri undirskriftasöfnun Varins lands. Tilgangur söfnunarinnar var sá að skora á stjórnvöld að hætta við áform um að loka fyrir Keflavíkursjónvarpið eða Kanasjónvarpið. Aðstandendur söfnunarinnar töldu það vera einkamál hvers og eins hvort horft væri á dagskrá stöðvarinnar eður ei. Opinber stjórnun á hegðun fólks væri því óæskileg. Þrátt fyrir að andstæðingar Kanasjónvarpsins ættu sér öfluga samherja í öllum kimum tókst Frjálsri menningu að safna 17.000 undirskriftum á skömmum tíma, enda naut bandaríska hermannasjónvarpið töluverðra vinsælda meðal almennings. Stjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hafði þó tekið þá ákvörðun að loka fyrir útsendingar stöðvarinnar til landsmanna en stór meirihluti þingmanna var einnig fylgjandi lokun hennar. Lokað var fyrir útsendingar stöðvarinnar árið 1975. Hins vegar ákváðu ráðamenn að opna fyrir litasendingar Sjónvarpsins þannig að landsmenn, þ.e. fyrst og fremst höfuðborgarbúar, gátu horft á ríkissjónvarpið í lit. Oft hefur verið bent á lokun litasendinga sem einn sérkennilegasta kafla íslenskrar byggðastefnu.
Barátta Frjálsrar menningar fyrir því að einstaklingurinn gæti horft á Keflavíkursjónvarpið án afskipta annarra minnir að mörgu leyti á þann sífellda barning sem talsmenn frjáls útvarps- og sjónvarpsreksturs hafa staðið í gegn ríkisvaldinu allar götur síðan. Slæm fjárhagsstaða einkastöðvanna tveggja, Norðurljósa og Íslenska sjónvarpsfélagsins, hefur beint sjónum manns að samkeppnisstöðu þessara fjölmiðla gagnvart Ríkisútvarpinu. Ríkisútvarpið hefur sótt inn á auglýsingamarkaðinn af miklum krafti undanfarin ár og tekið þátt í samkeppni við einkastöðvarnar á þeim vettvangi. Stofnunin hefur þar að auki fengið tekjur af afnotagjöldum. Það þarf því engan sérfræðing til að sjá að samkeppnisstaða einkastöðvanna gagnvart ríkisútvarpinu er bágborin. Hið furðulega í þessu máli er þó sú staðreynd að mikilll meirihluti stjórnmálamanna og landsmanna vill ekki stöðva afskipti ríkisins af rekstri ríkisútvarpsins eins og nýjustu hugmyndir menntamálaráðherra um flutning Rásar 2 til Akureyrar, og nýleg skoðanakönnum á viðhorfi almennings til einkavæðingar ríkisútvarpsins gefa til kynna. Hvernig stendur þá á því að meirihlutinn vill halda ríkinu inni í rekstri sjónvarps og útvarps, ekki síst þegar rök fyrir tilvist ríkisútvarpsins, menningarleg og öryggissjónarmið hafa verið dregin sundur og saman í háði og rekstur stofnunarinnar minnir á versta gróðabrall? Eina skýringin í fljótu bragði er sú að stjórnmálaflokkarnir vilja ekki missa þau völd sem felast í því að ríkið reki fjölmiðil: að geta komið flokksgæðingum fyrir í mjúkum stólum stofnunarinnar eða í stöður fréttamanna. Svona hafa íslenskir stjórnmálaflokkar sagt almenningi að ríkisútvarpið sé nauðsynlegur þáttur tilverunnar á sama tíma og einkafjölmiðlar hafa sannað getu sýna til að huga að öryggi þjóðarinnar á neyðarstundu og sinnt menningarþættinum bærilega.
Áskorun Frjálsrar menningar fyrir aldarfjórðungi sýnir að ekki verður um villst að talsmenn frjálsra fjölmiðla mega ekki láta í minni pokann fyrir „ríkisljósvíkingum“. Þessari baráttu mun ekki linna fyrr en ríkið hefur dregið sig alfarið út úr rekstri fjölmiðla.
Hugvekja eftir Kjartan Örn Sigurbjörnsson:
Kristið fólk um veröld alla kemur saman í dag til að minnast pínu og dauða Krists. Við hugleiðum mikilvægi þessara atburða fyrir mannkyn og sögu allt til þessa dags og um alla framtíð. Við erum ekki aðeins að minnast heldur eigum við að gera okkur grein fyrir því að þeir atburðir sem áttu sér stað í Gyðingalandi endur fyrir löngu skipta okkur máli á föstudaginn langa á því herrans ári 2001.
Í gær samþykkti efri deild hollenska þingsins frumvarp sem leyfir líknardráp eða sjálfsmorð með aðstoð læknis. Víða er heit umræða um málið, m.a. í Bandaríkjunum. Hér fer þó lítið fyrir umræðunni.
Þegar tveir mánuðir eru liðnir frá hryðjuverkunum í New York er vert að huga að stöðu Bandaríkjanna um þessar stundir. Óhætt er að segja að styrkur þeirra hefur komið áþreifanlega í ljós síðan ódæðin voru framin. Bandaríska þjóðin hefur sjaldan eða aldrei verið eins samhent og nú, staðráðin í því að koma sterk til baka. Er hreint ótrúlegt að sjá hvað jafn margbrotið samfélag og Bandaríkin stendur þétt saman þegar illt steðjar að.
Í efnahagslegu tilliti er alveg ljóst að hryðjuverkin ýttu Bandaríkjunum út í samdráttarskeið sem ekki var alveg fyrirsjáanlegt þann 11. september. Frá þeim tíma hefur atvinnuleysi aukist talsvert auk þess sem vísitölur heildsölu- og smásöluverðs hafa fallið mikið. Auðvitað veit engin hvað samdrátturinn varir lengi en flestir spá því að efnahagslífið muni rétta úr kútnum frá seinni hluta næsta árs til fyrri hluta ársins 2003. Ef bandarískum dátum tekst að bola talibönum frá völdum á næstunni, eins og margt bendir til, kemur það til með að koma hjólum hagkerfisins á fullt á ný.
Undirstöður bandarísks efnahagslífs eru traustar og má nefna nokkra þætti í því sambandi. Hlutabréfaverð, sem féll gríðarlega fyrst eftir hryðjuverkin, hefur hækkað undanfarnar vikur og nú er svo komið að helstu hlutabréfavísitölurnar, Dow Jones, Nasdaq og S&P 500, eru hærri í stigum en þann 11. september. Dollarinn hefur ekkert veikst gagnvart evru og aðeins lítillega gagnvart jeni. Hann hefur haldið velli þrátt fyrir lofthernað í Afghanistan, miltisbrandsfaraldur og umtalsverðar vaxtalækkanir (raunvextir í Bandaríkjunum eru neikvæðir). Sumir spá því nú að dollarinn muni jafnvel styrkjast gagnvart helstu heimsmyntunum á næstu mánuðum þótt skiptar skoðanir séu um það. Framleiðni vinnuafls, sem mikið er horft til af fjárfestum, hefur ekki verið meiri en síðan Bandaríkin voru á hápunkti síðasta þensluskeiðs fyrir einu og hálfu ári. Þar hafa viðbrögð fyrirtækja, sem aðlöguðu sig að breyttum markaðsaðstæðum m.a. með fækkun starfsfólks, vegið þungt. En fyrirtækin eru ekki þau einu sem hafa tekið þátt í því að reisa efnahaginn við á ný því bæði stjórnvöld og Seðlabanki Bandaríkjanna brugðust hárrétt við þeirri stöðu sem upp var komin. Seðlabankinn hefur lækkað vexti grimmt undanfarnar vikur og bandarísk stjórnvöld hafa lofað að spýta fjármagni inn í efnahagslífið, t.d. í formi skattalækkana.
Seinni hluti 10. áratugarins var hreint ótrúlegur uppgangstími í Bandaríkjunum. Bandaríkjamenn eru staðráðnir í því að byggja áfram við þá miklu velsæld sem þeir uppskáru á tímabilinu. Eins og hvað Evrópa er háð bandaríska hagkerfinu, er sorglegt til þess að vita hvað yfirstjórnir peningamála í Evrulandi og Íslandi hafa brugðist seint við yfirvofandi samdrætti í álfunni.
Dagurinn í dag gæti orðið einn sá afdrifaríkasti í sögu Lyfjaverslunar Íslands (LÍ) þegar fram fer hluthafafundur en á dagskrá hans er m.a. samningurinn um Frumafl hf., sem á Öldung, eiganda hjúkrunarheimilisins Sóltúni, vantraust á stjórn félagsins og fleira góðgæti. Um samning þennan berast tvær fylkingar á banaspjótum; annars vegar hópur í kringum Jóhann Óla Guðmundsson, sem hefur meirihluta stjórnar LÍ á bakvið sig, og vill ganga frá kaupunum á Frumafli fyrir 884 milljónir króna með útgáfu nýs hlutafjár, og hins vegar hluthafahópur, sem m.a. samanstendur af stærsta hluthafa félagsins þessa stundina, Aðalsteini Karlssyni, en hópurinn óttast að samningurinn sé of dýru verði keyptur. Nú síðast gekk forstjóri félagsins, Sturla Geirsson, sem á nokkurn hlut í LÍ, til liðs við síðarnefndu hreyfinguna ásamt flestum framkvæmdastjórum félagsins og hlýtur það að gefa nokkuð sterka vísbendingu um afstöðu starfsmanna til málsins. Sáttaumleitanir hafa ekki náð fram að ganga milli þessara stríðandi fylkinga og má því búast við harðvítugu uppgjöri á fundinum í dag.
Lyfjaverslunin, sem rekur sögu sína til ársins 1921 þegar hún var stofnsett með lögum sem deild í ÁTVR, hefur vaxið gríðarlega á undanförnum misserum og bera kaup hennar á A. Karlssyni hf. og Thorarensen Lyfjum ehf. hvað hæst á þessu ári. Einnig á félagið stóran hlut í Delta hf. sem hefur dafnað vel. Samfara þessari útþenslu hefur markaðsvirði félagsins meira tvöfaldast frá áramótum, sem stafar m.a. af hlutafjáraukningu, en einnig hefur gengi félagsins hækkað verulega frá áramótum 1999/2000 eða nærri um 97%! Á þessu ári hefur aðeins gengi tveggja félaga á VÞÍ, Delta hf. og SÍF hf., hækkað meira en þó er augljóst að hækkun á gengi LÍ á þessu ári er að mestu leyti tilkomin vegna hækkunar sem varð í gær þegar félagið hækkaði um 14%. Því er vart hægt að segja að hluthafar í Lyfjaverslun Íslands ættu að vera ósáttir með ávöxtun hlutabréfanna sinna. En að sama skapi er ljóst að félagið þarf að standa sig í stykkinu á næstu árum til þess að standa undir 3,7 milljarða markaðsvirði og miklum fjárfestingum sem það hefur lagst í. Ekki búast fjármálafyrirtækin við því að LÍ skili hagnaði fyrir fyrstu sex mánuði þessa árs en í fyrra varð hagnaður félagsins 42 milljónir kr.
Hversu miklum tekjum mun þessi samningur um Frumafl skila til LÍ? Einn löggiltur endurskoðandi hefur metið það svo að samningurinn skili félaginu 125 milljóna kr. hagnaði á 25 árum, miðað við 9% ávöxtunarkröfu. Miðað við 15% ávöxtunarkröfu, sem væri ósköp eðlilegt að gefa sér, gæfi samningurinn minna af sér. Vilhjálmur Bjarnason, fjármálafræðingur, hefur út frá áliti endurskoðandans fullyrt að hlutabréf í LÍ verði vart „boðleg vara“ ef hluthafafundurinn staðfesti ákvörðun stjórnar um kaupin á Frumafli.
Það sem vekur athygli við allt þetta mál er hversu langt hluthafar og fulltrúar þeirra hafa gengið í fjölmiðlum og er langt síðan að jafn opinskáar deilur hafa verið innan almenningshlutafélags hérlendis. Nú síðustu dagana hafa stóryrðin og ásakirnar gengið á víxl, líklega allt til þess að sannfæra hluthafa um hvorn aðilann eigi að styðja. Hefur þetta fjölmiðlastríð nú þegar valdið félaginu óbætanlegu tjóni. Ef málsaðilum tekst ekki að sætta ólík sjónarmið áður en fundurinn hefst í dag er ljóst að einhverjir munu tapa miklu, bæði í peningum og orðstír. Ef Jóhann Óli ber sigur úr býtum verður hann langstærsti hluthafi LÍ, enda fær hann, sem eigandi Frumafls, hlutabréf að nafnverði 180 milljónir kr. sem endurgjald og mun þar með eiga áhyggjulaust ævikvöld. Ef hann tapar baráttunni er ljóst að hann er í minnihluta innan LÍ, nokkuð sem hann ætlar sér varla til lengdar. Þá mun hann hugsanlega fara í skaðabótarmál við félagið verði samningnum rift. Ef hópur hinna hluthafanna, sem segist hafa tryggt sér meirihluta atkvæða í dag, sigrar þá hefur áætlunarverkið tekist – að koma í veg fyrir kaupin á Frumafli. Þar með getur fyrirtækið einbeitt sér að því sem það gerir best. Það versta í stöðunni fyrir félagið sjálft er auðvitað það að Jóhann Óli fari með sigur af hólmi en þá er hætta á miklum atgervisflótta frá fyrirtækinu, a.m.k. úr hópi stjórnenda og ekki síst hluthafa – jafnt stórra sem smárra. Hvernig sem leikar fara í dag er fullljóst að langur tími mun líða þar til að LÍ endurheimtir tiltrú fjárfesta á félaginu.
Það verður að teljast ólíklegt að bandaríska njósnaflugvélin, sem nauðlenti í Kína þann 1. apríl, hafi verið valdur af árekstrinum við kínversku herþotuna. Að miklu leyti má líkja aðstöðunni sem komin er upp við karp á skólaleikvelli.
Flestir eru þeirrar skoðunar að menn eigi rétt til lífs. Þetta er raunar einn af hornsteinum viðtekinnar siðfræði í okkar heimshluta. Það er hins vegar athyglisvert hversu skörp skil við gerum flest milli manna og annarra dýra.
Á næsta ári fara fram forsetakosningar í Frakklandi og fastlega er búist við því, að Lionel Jospin, sósíalisti og núverandi forsætisráðherra, bjóði sig fram gegn sitjandi forseta, gaullistanum Jacques Chirac. Franskir hægrimenn eiga nokkuð á brattan að sækja um þessar mundir og í nýafstöðnum bæjar- og borgarstjórnar-kosningunum féll helsta vígi þeirra, sjálf París, í hendur sósíalista.
Þrátt fyrir að það hafi tekið nokkurn tíma tókst í vetur að skera úr um hver yrði forseti Bandaríkjanna. Þar hafði George W. Bush betur gegn Al Gore í rimmu sem ekki þarf að rifja upp fyrir neinum.
Íslenski bókamarkaðurinn er einn sá allra sérkennilegasti í veröldinni. Hvergi í heiminum eru gefnir út eins margir titlar á hvern íbúa og á Íslandi og sagan segir að Íslendingar lesi manna mest og best. Bókaútgáfan sjálf hefur skipst á margar hendur sem hefur gert það að verkum að einstaklingar hafa getað farið roggnir út í bókastríð gegn grónum, stórum forlögum. Miðað við allan þann fjölda bóka sem kemur út á hverju ári er varla við því að búast að margir titlar skili útgefandanum hagnaði. Oft er talað um að selja þurfi titil í 1.500-2.000 eintökum, svo að hann skili arði, en fáar bækur ná því marki í desember einum og saman.
Rithöfundar, þýðendur og útgefendur keppast við að ljúka verkum sínum þegar hausta tekur til þess að verða gjaldgengir í hinu árlega jólabókaflóði. Jólabókaflóðið er orð á sönnu: Hundruðir titlar steypast yfir almúgann á hverju ári sem verður að styðjast við Jólabókatíðindi til að átta sig á öllu saman. Stundum takmarkast lestur hans við þau ein og sér. Gagnrýnendur komast í hörku uppgrip því hver einasti fjölmiðill lætur sinn mann dæma nýútkomnar bækur. Engin hefur enn sem komið er drukknað í jólabókaflóðinu svo vitað sé.
Hvað sem öðru líður er þó víst að stórmarkaðirnir hafa með markaðsstefnu sinni sett íslenska bókamarkaðinn í skringilega stöðu. Þannig hefur þeim tekist að hrifsa til sín stóran hlut af bóksölunni frá bókabúðum með því að bjóða bestu verðin á bókum. Oft eru þessi verð þó með þeim hætti að smásalinn tekur lítinn hagnað af hverju seldu eintaki og stundum borgar hann með bókinni. Hvað ætli Bónus græði mikið á hverju seldu eintaki af Harry Potter sem kostar 1800 kr. á sama tíma og leiðbeinandi verð er rúmar þrjú þúsund krónur? Kannski rétt um 250 kr.
Því má ætla að sú stefna stórmarkaðanna að selja vinsælustu titlanna með sem mestum afslætti sé fyrst og fremst sú að draga til sín kúnna, sem geri önnur kaup í leiðinni. Neytendur ættu að fagna þessum markaðsaðstæðum, enda geta þeir keypt fleiri bækur fyrir minni pening. Bókaforlögin, sem gefa stóru bóksölunum mikinn afslátt af forlagsverði, eru engir sauðir frekar en smásalinn. Leiðbeinandi verð þeirra er auðvitað hugsað þannig að svigrúm gefist til þess að veita smásölum afsláttarkjör.
En hver tapar þá þegar heildsalar, neytendur og smásalar brosa sínu breiðasta? Það væri þá ekki nema vinnuaflið, maðurinn á bakvið við ritverkið. Hann fær yfirleitt laun sín í samræmi við afsláttarverð forlagsins til smásalans. Þannig hefur það gerst að metsölutitlar færa ekki rithöfundum sömu tekjur og áður. Ágætur maður sagði eitthvað á þá leið að fyrir tveimur áratugum hefðu rithöfundalaun af metsölubók verið ígildi íbúðar en væru þau aðeins útborgun í bíl. Rithöfundarnir eru auðvitað lausir við þann ómerkilega hugsunarhátt að peningar skipti öllu máli. Þeirra mottó er að sjálfsögðu: „Blindur er bóklaus maður.“
Gleðileg bókajól.
Íslendingar fyllast ávallt stolti þegar þeir rifja upp afrek „strákanna okkar” úr handboltalandsliðinu, enda hefur árangur liðsins oft á tíðum verið ótrúlegur. Íslenskir handboltamenn hafa gert það gott í atvinnumennsku erlendis, einkum í Þýskalandi, og eigum við um þessar mundir einn besta handboltamann heimsins – Ólaf Stefánsson. Þá er einn færasti handboltaþjálfari þýsku deildarinnar, Alfreð Gíslason, að gera frábæra hluti með lið sitt Magdeburg.
Þótt „strákarnir okkar” hafi engu gleymt og íslenskir atvinnumenn leiki við hvern sinn fingur, virðist þróunin í handboltanum hérlendis vera sú að greinin er að fjara hægt og rólega út – stunduð af sérvitringum eða í versta falli steingervingum. Þessa dagana er forysta HSÍ búinn að velta því fram og til baka hvort deildin, sem spiluð verður næsta vetur, samanstandi alls af fjórtán liðum, sem leika í einni deild, eða fimmtán, sem spila í tveimur riðlum. Ef við gefum okkur að fimmtán leikmenn æfi með hverju liði þýðir það að aðeins 225 stunda handbolta á meistaraflokksstigi ef miðað er við þátttöku fimmtán félagsliða. Til samanburðar eru fjórar deildarkeppnir í fótbolta auk utandeildar og þrjár deildarkeppnir í körfubolta með hátt í 350 iðkendur á efsta stigi. Það er kannski áratugur síðan að handboltinn blómstraði með þremur deildum og nánast öll bæjarfélög sendu lið til keppni. Nú má segja að þjóðaríþróttin sé aðeins stunduð á Akureyri, Selfossi og í Vestmannaeyjum en áður áttu Húsvíkingar, Ísfirðingar, Keflvíkingar og Akurnesingar lið.
Sá sem hér heldur á penna er langt í frá sérfróður um málefni handknattleiksforystunnar en líklega má samt fullyrða að bágborin fjárhagsstaða HSÍ ráði miklu til um þá stöðu sem innlendur handbolti er fallinn í. Hallarekstur HSÍ, sem er orðinn nokkurs konar náttúrulegt fyrirbæri, dregur úr umsvifum sambandsins og þrótti stjórnarmanna, og möguleikum þess til útbreiðslustarfs. En fleira kemur eflaust til. Einfaldir hlutir eins og kynningarmál virðast vera í algjörum ólestri hjá sambandinu. Engin tilraun er gerð til þess að halda úti tölfræði um afrek leikmanna í deildinni og mætti HSÍ þar taka til fyrirmyndar keppinauta sína í KKÍ sem standa mjög vel að sínum kynningarmálum.
Sú óvissa sem ríkir um fyrirkomulag deildarkeppninnar á næsta ári er ekki til þess fallin að bæta stöðu innlends handbolta. Engin veit hvort leikið verði í einni deild eða tveimur riðlum þegar rúmur mánuður er til fyrsta leiks. Á síðasta keppnistímabili fækkaði áhorfendum talsvert á handboltaleikjum. Fækkun áhorfenda veldur því að rekstur félagsliðanna verður æ erfiðari og kemur á endanum niður á ungmennastarfinu. En þótt staða handboltans sé slæm um þessar mundir þarf kannski ekki mikið til að hlutirnir breytist. Gæti uppstokkun í röðum HSÍ leyst vandann?
Það er víst kominn tími til að karlmenn taki þátt í kynjaumræðunni á Íslandi. Það las ég a.m.k. á Internetinu. Spurningin sem karlmenn standa frammi fyrir er þessi: „Af hverju að draga flugvélar úr því að það er hægt að fljúga þeim?“
Brasilíumenn eiga við mikil vandamál að stríða þessi dægrin. Efnahagsörðugleikar þessa stærsta hagkerfis Suður-Ameríku hafa verið miklir í nokkurn tíma og til að bæta gráu ofan á svart hefur brasilíska knattspyrnulandsliðið, sigursælasta landslið allra tíma, átt slæma daga síðan liðið tapaði fyrir Frakklandi í úrslitaleik HM´98. Eins og staðan er nú eru nokkrar líkur á því að Brasilía, sem er í fjórða sæti síns riðils, komist ekki í úrslitakeppni HM í fyrsta skipti í sögunni en ekkert annað lið hefur ávallt komist í lokakeppnina. Leikur gegn Paraguay um miðjan ágúst ræður miklu um framhaldið. En hvernig má það vera að þetta sigursæla lið og brasilísk knattspyrna eiga undir högg að sækja á öllum vígstöðum.
Spillingin og óreiðan innan brasilíska knattspyrnusambandsins (CBF) hefur verið yfirgengileg. Þar hefur um tólf ára skeið ráðið ríkjum maður að nafni Ricardo Teixeira, tengdasonur Joaos Havalanges fyrrum forseta FIFA. Teixeira fer frjálslega með fjármuni sambandsins, þiggur fjórtán milljónir króna í árslaun þrátt fyrir að lög sambandsins taki það skýrt fram að enginn stjórnenda þess skuli vera á launum. Hann hefur einnig verið duglegur við að koma ættingjum sínum í góðar stöður innan sambandsins. Á dögunum gaf rannsóknarnefnd á vegum brasilíska þingsins út 700 bls. skýrslu þar sem Teixeira var gefið að sök að hafa svikið undan skatti og brotið lög um gjaldeyrisviðskipti og fullyrt að fjármálastjórn sambandsins væri svo slæm, að sem venjulegt fyrirtæki hefði það farið á hausinn árið 2000.
Þá er skipulag knattspyrnumála í Brasilíu ruglingslegra en orð fá lýst. Innan knattspyrnusambandsins eru 27 sérsambönd sem hafa álíka umfangsmikla starfsemi og flest evrópsk knattspyrnusambönd. Sérsamböndin standa fyrir héraðsmótum á fyrri hluti keppnistímabilsins. Fyrirkomulag þessara móta er flókið, ekkert síður en í sjálfri deildarkeppninni sem leikinn er á seinni hluta tímabilsins. Deildarkeppnin nefnist keppni hinna 13 stóru en það er rangnefni því alls leika 28 lið um meistaratitilinn. Fyrirkomulagið er óskiljanlegt því engin veit hvaða lið falla og hvaða lið koma upp að móti loknu auk þess sem tímasetning og staðsetning leikjanna er afar óljós. Keppnin í ár er frábrugðin deildarkeppninni í fyrra en þá léku 116 lið um “Joao Havalange-bikarinn” en þá höfðu langvinn málaferli verið í gangi þannig að knattspyrnusambandið ákvað að halda ekkert landsmót og lét félögunum um keppnina! Engin deildarkeppni hefði verið haldin í ár ef ekki hefði komið til úrskurðar hæstaréttar Brasilíu sem fyrirskipaði að mótið skyldi haldið til að verja almannahagsmuni. Til viðbótar þessari skipulagsóreiðu eru óeirðir daglegt brauð á fótboltaleikjum í Brasilíu og áhorfendum fer fækkandi. Þá má geta að valdamiklir eigendur knattspyrnuliða hafa oft mikil áhrif á störf knattspyrnudómara.
Þessi skipan mála hefur valdið því að bestu knattspyrnumenn landsins hafa flykkst til Evrópu og því eru gæði brasilíska innanlandsboltans ekki upp á marga fiska. Viðhorf leikmanna og þjálfara til knattspyrnunnar hefur breyst heilmikið á síðustu árum. Brasilískir leikmenn, sem spila í Evrópu, spila alls ekki sambaknattspyrnu sem einkenndi leik landsliðsins og þá skortir allt hugmyndaflug og hugrekki sem einkenndi gömlu stjörnurnar. Leikstíll landsliðsins er á margan hátt þurr og þaulskipulagður evrópskur varnarbolti sem “Stóri” Phil (Luiz Felipe Scolari), þriðji landsliðsþjálfari Brasilíu á einu ári, hefur mikið dálæti á. “Stóri” Phil er ofbeldishneigður, harðjaxl. Sem þjálfari félagsliða lagði hann mikið kapp á að brjóta andstæðingana niður líkamlega og andlega. Hann þarf að stóla á leikmenn á borð við Rivaldo, Roberto Carlos, Ronaldo o.fl., sem vissulega eru frábærir, en tekst sjaldan að standa undir væntingum með landsliðinu og sýna ítrekað áhugaleysi. “Liðið leikur eins og hópur af kerfiskörlum sem stimpla sig inn og gera ekkert annað,” sagði gamla kempan Zico.
Nú er að duga eða drepast fyrir brasilíska knattspyrnu sem berst við spillingu, skipulagsleysi, ofbeldi og býr við öðruvísi knattspyrnu. Mikil reiði kraumar hjá almenningi sem heimtar ekkert annað en heimsbikarinn. Allt fór úr böndunum þegar Brasilíu tapaði fyrir Hondúras í “Copa America” á dögunum. Brasilía verður því ekki söm ef landsliðið kemst ekki í lokakeppnina.
Á föstudaginn var birtist athyglisverð grein eftir Olivier Blanchard, hagfræðiprófessor við MIT, í Morgunblaðinu. Í greininni útlistar Blanchard hvernig skipta má kreppum í þrjár gerðir eftir orsökum þeirra.
Nú fer óðum að styttast í sveitarstjórnarkosningar. Deiglan skoðar valdatímabil R-listans og fjallar almennt um stöðu mála.
Hún hefur verið lærdómsrík ritdeilda þeirra Illuga Jökulssonar og Jóns Steinars Gunnlaugssonar um tjáningarfrelsið. Málstaður Jóns Steinars er sterkari að mínu mati en hvorugur þeirra hefur komið sérlega sterkur frá rifrildinu sjálfu.