Hvað sem faglegum og fagurfræðilegum skoðunum manna á nýju lógói Samfylkingarinnar líður, þá er það hafið yfir allan skynsamlegan vafa að Miðflokksmenn hafa síst allra efni á því skjóta á aðra flokka í því efni. Það er ekki að ástæðulausu að prjónandi hestar eru sjaldgæfir í lógóum stjórnmálaflokka.
Elliði Vignisson bæjarstjóri er reyndar útúrdúr. En fyrst hann á annað borð hnaut svona illilega um rauða litinn í nýja lógóinu verður að hrósa honum sérstaklega fyrir þau miklu pólitísku hyggindi að bendla lógóið við nasismann. Það er ákaflega þreytt að finna langsóttar leiðir til að klína kommúnisma á íslenska vinstrikrata.
Þegar hinn þá nýstofnaði Miðflokkur kynnti lógó sitt var því sérstaklega fylgt úr hlaði með innblásnum og allt að því ljóðrænum skrifum formannsins, Sigmundar Davíðs, sem tengdi þetta við íslenska hestinn. Sagði þar meðal annars: “Íslenski hesturinn er vinalegur en getur risið upp á afturlappirnar þegar hann þarf að sýna kraft sinn og óttaleysi.”
Það merkilega við þessi skrif er að þau virðast fyrst og fremst hafa verið einlæg. Þau voru ekki hugsuð sem krísustjórnun til að stýra umræðunni og bægja huga fólks frá því sem allir hestamenn sjá strax: Hesturinn er hræddur. Hann hefur einhverra hluta vegna fælst illilega – og þar sem tilefnið sést ekki á myndi gæti það jafnvel verið smávægilegt. Kannski sá hann mús.
Það er vissulega rétt að hestar geta risið upp á afturlappirnar – en munurinn sést til að mynda í því hvernig hesturinn reigir höfuðið eins langt aftur og hann getur, eins og til að fjarlægjast hættuna. Væri hann að sýna styrk sinn eða að búast til árásar myndi hann ef til vill lyfta framfótunum ofar og teygja höfuðið fram til að miða sem réttast. Nánast öll spendýr önnur en menn ögra með því að stara á andstæðinginn. Þá má benda á að hann virðist afar opineygður sem er klassískt merki um hræðslu hjá hestum. Einnig er eins og faxið rísi á höfði hestssins, frekar en að það blakti sem fáni í íslensku roki.
Lógóið hefur reyndar tekið breytingum frá þessum tíma. Áður var hesturinn skjannahvítur og bakgrunnurinn í öllum regnbogans litum. Í dag er hann svartur eins og erfðasyndin. Og þó bakgrunnurinn virðist hvítur er það trúlega nær lagi að hann sé gagnsætt tóm eða auðn. Það þýðir að auðvelt er að setja lógóið ofan á hvern þann bakgrunn sem hentar hverju sinni. Og að ákveðnir kjósendur sjá þann bakgrunn sem þeir vilja sjá, eða þann sem blasir við þeim frá þeirra sjónarhóli.
Hvorki hvítur né svartur eru algengir litir á íslenska hestinum. Þessa breytingu verður að skilja táknrænum skilningi sem pólitískt myndmál, nema hönnuður lógósins, hver sem það nú annars kann að hafa verið, stigi fram og viðurkenni að hann hafi gert augljós byrjendamistök – ekki bara í litahönnun lógósins í byrjun, heldur hafi hann flaskað á grundvallaratriðum tjáningarforma. Það er tilkomumikið að koma í hlaðið á hvítum hesti í munnlegum flutningi, en í mynd á hvítum pappír, þá tapast eitthvað af áhrifunum.
Þó það hafi ekki tekist vel í þessari atrennu væri vel hægt að smíða prjónandi hest í lógó sem reisn væri að. En það þykir reyndar ekki fínt að hestar prjóni – og hestaöt hafa verið aflögð öldum saman. Hafi hugmyndin verið sú að höfða til íslenskra dreifbýliskjósenda, þá eru þeir sjaldnast himinlifandi með innfædda höfuðborgarbúa og aðra heimsborgara sem vantar alla trausta og praktíska þekkingu á landsháttum en eru þeim mun uppteknari af rósrauðum og rómantískum hugmyndum um sveitasælu eins og menn ímynduðu sér hana á fyrri hluta síðustu aldar.
Þessar vangaveltur um pólitíska taktík eru þó líka útúrdúr. Undirritaður tekur skýrt fram að þessi pistill fjallar aðeins og einungis um fagurfræði og hönnun. Hann ber einungis að skilja bókstaflega og hann er alls ekki hugsaður sem rósamál eða djúp og frumleg ádeila á stefnumál miðflokksins og pólitíska nálgun. Allra síst er það meining höfundar að vekja hér upp hugrenningatengsl milli flokksins og ákveðinnar týpu af fólki, oft eldri karlmanna, sem talar gjarnan digurbarkalega til að fela hræðslu við til dæmis breytingar eða ákveðna hópa í þjóðfélaginu.
Allt saman er þetta fyrst og fremst hugsað sem góðlátleg ábending. Það er að mörgu að hyggja við smíði lógóa og allur gangur á því hvernig þau má túlka. Þrátt fyrir Elliðatröll íslenskra stjórnmála er því líklega öruggast fyrir stjórnmálasamtök að halda sig við einföld form og liti í vörumerkjum sínum.
- Við þurfum að tala um Danmörku - 4. nóvember 2020
- The West Wing fyrr og nú - 22. september 2020
- Flokkur hræddra hrossa - 7. maí 2020